Nýrna- og þvagleiðarasteinar

Steinamyndun í þvagvegum hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda og þekktir eru blöðrusteinar í um það bil sex þúsund ára múmíum. Einnig er athyglivert að steinmyndun í þvagfærum er eini sjúkdómurinn sem nefndur er sérstaklega í hinum þekkta Hippokratesareiði. Ég mun ekki fjalla um blöðrusteina í þessum pistli heldur einbeita mér að nýrna- og þvagleiðarasteinum.

Tíðni nýrnasteina virðist vera vaxandi og faraldursfræðilegar rannsóknir í Evrópu og Bandaríkjunum sýna að nýtíðni steina í nýrum og þvagvegum er um það bil 1% hjá karlmönnum og 0,5% hjá konum. Á síðastliðinni öld hafa orðið miklar félagslegar breytingar og eru margir sem telja þær tengdar aukinni tíðni nýrnasteina því aukningin á nýrnasteinum er fyrst og fremst í þeim löndum sem efnahagslega hafa mátt sín meira. Margt getur spilað inn í tíðni nýrnasteina, mataræði, drykkjarvenjur og veðurfarslegir þættir. Þannig eru nýrnasteinar algengir og stærri á suðrænum slóðum þar sem hiti er meiri en á norðurslóðum. Hinn dæmigerði nýrnasteinssjúklingur er maður á tæplega miðjum aldri, sem vinnur yfirleitt ekki mjög þunga líkamlega vinnu, lítillega yfir kjörþyngd, stressaður og með tilhneigingu til háþrýstings. Út frá framangreindum tíðnitölum má eiga von á að um það bil 3000 Íslendingar fái einkenni árlega frá nýrna- og þvagleiðarasteinum. Níutíu prósent allra þessara steina ganga niður af sjálfu sér án innlagnar á sjúkrahús eða aðgerðar en gjarnan þarf lyfjameðferðar við í formi verkjalyfja og bólgueyðandi lyfja til að flýta fyrir að steinninn gangi niður. Um 300 einstaklingar á hverju ári þurfa einhverrar meðferðar við vegna nýrna- og þvagleiðarasteina og eru þeir yfirleitt á aldrinum 30 – 60 ára.

Orsakir steinmyndunar

Rannsóknir hafa leitt í ljós að í 9 af hverjum 10 tilfellum finnst engin sérstök skýring á nýrnasteinamyndun. Í einungis um 10% tilfella finnst ástæða fyrir steinmynduninni. Til að nýrnasteinar myndist þarf þvag að vera yfirmettað í nýranu. Við yfirmettun þvags aukast árekstar mólikúlanna og að lokum myndast kristallar og utan um hinn litla kristal vex síðan steinninn smám saman. Einnig eru hugmyndir um það að í þvagi séu efni sem hindri kristalmyndun og einnig er þeim sjúklingum hættara við steinamyndun sem hafa fengið nýrnaskjóðubólgu eða hafa undirgengist nýrnaaðgerðir. Í þeim tilfellum þar sem efnaskiptavandamál liggja á bak við steinamyndun er langalgengast að um ofstarfsemi á kalkkirtlum sé að ræða eða ofmyndun á þvagsýru. Aðrar sjaldgæfari efnaskiptatruflanir eru einnig til.

Einkenni

Fyrsta og algengasta einkenni nýrnasteina er sár verkur. Verkur þessi er yfirleitt stöðugur en vex í hviðum og getur verið nánast óbærilegur. Lýsa sjúklingar þessu oft sem hinum verstu verkjum og geta vart af sér borið. Verkirnir hefjast yfirleitt í baki eða síðu, leiða niður í kvið og nára. Einnig er algengt að blóð sé í þvagi. Ekki eru einkennin alltaf svo afgerandi og hafa verður nýrnasteina í huga sem orsök fyrir kviðverkjum þó ekki sé sjúkdómsgangur jafn dramatiskur og að framan er lýst.

Sjá einnig: Þvagfærasýking og blöðrubólga

Meðferð

Fyrsta meðferð að lokinni greiningu er gjöf á verkjalyfjum og bólgueyðandi lyfjum sem hafa þá þríþættu verkan að vera verkjastillandi, bólgueyðandi og einnig draga úr þvagmyndun og þannig minnka þrýstinginn sem veldur verkjunum. Eins og áður sagði ganga af sjálfu sér niður um 90% allra steina en þeir steinar sem þurfa frekari meðferðar við eru í dag flestir meðhöndlaðir með svokallaðri höggbylgjutækni (ESWL). Aðferð þessi felur í sér að hljóðbylgjum er beint að steininum og steinninn þannig mulinn í það smáa bita að þeir ganga niður af sjálfu sér. Þá steina, sem ekki eru heppilegir fyrir þessa meðferð, er oftast hægt að fjarlægja með speglunartækni bæði úr nýrum og þvagleiðurum.

Samband nýrnasteina og annarra sjúkdóma

Þar sem tíðni nýrnasteina hefur farið vaxandi á síðast liðinni öld er talið að um velferðartengdan sjúkdóm sé að ræða. Virðist samband klárlega vera milli háþrýstings svo og mikillar neyslu á dýrapróteinum. Einnig eru vel þekktir aðrir sjúkdómar sem hafa áhrif á frásog kalks og annarra efna úr meltingarvegi sem geta valdið nýrnasteinum. Hættan á nýjum steinum eftir fyrsta steinkast er talsvert há og hefur um helmingur sjúklinga fengið nýjan stein innan 10 ára. Þeir sjúklingar sem fá stein mjög ungir eða eru af ættum þar sem nýrnasteinar eru algengir eru í sérstökum áhættuhópi fyrir steinmyndun.

 

SHARE