Ofbeldi í samskiptum er mjög flókið fyrirbæri þar sem m.a. er ekki hægt að afgreiða konur sem „góðar“ og karla sem „vonda“ og að lausnin felist í að konurnar fari. Hvert einstakt samband er háð ákveðnu jafnvægi í samskiptum og lýtur ákveðnum öflum. Lítið má út af bera til að annar aðilinn fari að misnota hinn og upp komi samband geranda og brotaþola. Ekki er alltaf víst að í þessu samskiptum sé það karlinn sem er gerandinn og þá konan brotaþolinn. Nauðsynlegt er fyrir hvern og einn að líta í eiginn barm og skoða hvernig viðkomandi er í sínum eigin samskiptum við aðra. Það er undirstaða þess að geta aðstoðað fólk í erfiðleikum.

Í þeirri samantekt sem hér fer á eftir er fjallað um ofbeldi gegn konum þar sem eiginmaður/sambýlismaður er gerandi, en um leið er það viðurkennt og vitað að ofbeldi á sér margar myndir og þetta er aðeins ein þeirra. Ofbeldi er einnig sammannlegt vandamál sem leysist ekki nema að konur og karlar taki höndum saman.

Stjórnun er þegar ein persóna hefur meiri áhrif á líðan, hegðun og sýn þeirrar persónu en hún sjálf hefur. Andleg stjórnun er þegar konan fer að missa tengsl við eigin þarfir, langanir, sýnir, gildi og vðhorf og fer í staðinn að stjórnast af þessum þáttum mannsins. Líkamleg stjórnun felst aðallega í boðum og bönnum um hvað má og ekki má og þegar maðurinn „notar“ líkama konunnar s.s. kynferðislega, þvingar hana til að neyta ákveðinna lyfja (svefnlyfja, róandi) eða matar eða til að klæðast ákveðnum fatnaði ofl.

Ýmsar kenningar um ofbeldi hafa verið settar fram í gegnum árin. Ein kenningin er kennd við Masochisma og gengur út á það að konan leitar að ofbeldisaðila til að uppfylla eigin, mjög úr lagi færðar, andlegar þarfir og því „sæki hún í ofbeldi“. Þessi kenning á rætur sínar að rekja til vinnu Freuds með konum sem m.a. sögðu honum frá sifjaspellum í æsku. Á þeim tíma voru þannig mál „ekki til“ og því bauð það hættunni heim að frásagnir kvennanna væru m.a. túlkaðar sem leyndar óskir þeirra um kynferðislegt samband við feður sína.

Önnur kenning er Fórnarlambskenningin (Victim) þar sem konan er óvirkur, hjálparlaus þolandi sem lætur allt yfir sig ganga. Sama hvað konan hefur reynt að gera það hefur engin breyting orðið og að lokum gefst hún upp. Í þessu samhengi er oft talað um „lært hjálparleysi“. Konan lendir ekki í ofbeldinu vegna persónulegra „galla“ en „skemmist“ vegna ofbeldisins. Í þessari kenningu er hætt við að konan afneiti krafti og orku sem í henni býr og getur haft jákvæð áhrif á líf hennar – því þar liggur lausnin. Hugmyndir um „forlög“ og ásköpuð „örlög“ eiga vel heima innan þessara kenningar.

Þriðja kenningin er Sigurvegarakenningin (Survivor) þar sem konan er virkur aðili. Hún „berst“ og notar ýmsar leiðir til þess að bjarga sér og sínum. Samkvæmt kenningunni er litið á ofbeldi sem „harðar þjálfunarbúðir“ sem stjórnað er af andlegum og líkamlegum hremmingum, oft langt upp fyrir þolanlegan mörk. Til að konan „lifi af“ slokknar á ýmsum mannlegum tilfinningum hennar eða þær dempast verulega, að öðrum kosti mundi hún ekki „lifa af“. Samkvæmt þessari kenningu býr konan yfir innri krafti og ýmsum leiðum til þess að losna og að lokum verður fyrri reynsla að jákvæðri áskorun til persónulegs þroska og hún stendur uppi sem sigurvegari.

 • Skilgreiningar á ofbeldi:Til eru ýmsar skilgreiningar á ofbeldi s.s;„Ofbeldi er hvers kyns beiting valds, sem hindrar aðra manneskju í að framkvæma, hugsa eða hafa þær tilfinningar sem hún vill eða fá aðra til að gera eitthvað gegn vilja sínum“. (Norska karlanefndin, 1991)„Heimilisofbeldi er þegar einn fjölskyldumeðlimur kúgar annan í skjóli friðhelgis heimilisins og tilfinninga- félagslega- og fjárhagslegrar bindingar“. (Samtök um Kvennaathvarf, 1985)

  “Ofbeldi gegn konum er sérhvert kynbundið ofbeldi, sem leiðir af sér, eða er líklegt til að leiða af sér andlega, líkamlega, kynferðislega áverka og/eða þjáningu. Innifalið er hótun um slíkt atferli“. (Economic and Social Counsil, 1992)

  “Hegðun karlmanns, sem miðar að því að ráða/stjórna konunni. Afleiðingin verður andlegur, líkamlegur, kynferðislegur skaði, einangrun og líf í stöðugum ótta“. (Australia, 1991)

 • Andlegt ofbeldi – Þegar fjallað er um ofbeldi er í meirihluta tilvika verið að fjalla um líkamlegt ofbeldi. Það er skiljanlegt að hluta, þar sem andlegt ofbeldi er mun lúmskara, flóknara og erfiðara að átta sig á heldur en það líkamlega. Ekki má þó gleyma því að líkamlegt ofbeldi er um leið alltaf andlegt. Of oft er umræðan í „æsifréttastíl og þá er eingöngu verið að fjalla um „verstu“ tilfellin sem gefa mjög skakka mynd m.a. til kvenna sem búa við ofbeldi og fara þá e.t.v. að hugsa; „Þetta er ekki svona slæmt hjá mér, hvað á ég að vera að kvarta“. „Ég ætla ekki að leita mér aðstoðar út af mínum smámunum, hinar þurfa miklu meira á aðstoð að halda“.Í andlegu ofbeldi þarf m.a. að skilja á milli venjulegs „pirrings“ sem á sér stað í flestum samskiptum og andlegs ofbeldis, sem verður ekki fyrr en sjálfsmynd konunnar og sjálfsvirðing fer að brotna niður og maðurinn fer að nýta sér það sem stjórnunartæki. Afleiðingin verður m.a. að konan lítur sig neikvæðum augum; getur ekkert, kann ekkert, skilur ekkert, er gagnlaus.Ekki er hægt að skilgreina andlegt ofbeldi á sama skýra háttinn og líkamlegt ofbeldi því þar spilar svo margt inn í. Andlegu ofbeldi hefur m.a. verið lýst sem köngulóarvef, ósýnilegur í fljótu bragði, listilega vel spunninn, sést aðeins þegar betur er að gáð og þá frekast útlínurnar. Margslunginn vefurinn sjálfur sést ekki vel nema með góðu stækkunargleri eða ef lit væri vandlega úðað á hann. Eins þarf að vita hvar hans á að leita. Þá sést hve vandlega og úthugsað hver þráður er spunninn, hve erfitt er fyrir fluguna að losna og nær ómögulegt án einhverrar aðstoðar. Því er andlegt ofbeldi flókinn „vefur“ hegðunar og tilfinninga, þar sem konan festist í samskiptum sem ógna andlegu/líkamlegu öryggi hennar.

  Tilgangur stuðnings er að konan endurheimti sjálfsvirðinguna og stjórnina á eigin lífi og aðstæðum með því að sjá og átta sig á eigin „vef“. Til þess að það geti gerst verður konan að byrja á að skoða og skilgreina stöðuna, við það öðlast hún nýja sýn og skilning og er þá tilbúin að hefjast handa á uppbyggilegan hátt. Hæfileikar sem stuðningsaðili þarf að búa yfir eru; athygli, góð hlustun, þekking, innsæi, samhyggð, skilningur, ekki dæma, viðurkenning, heiðarleiki, endurspeglun og hæfni til að draga saman aðalatriði.

Nokkur sameiginleg atriði í andlegu ofbeldi

 • Niðurlæging og skömm. Konan lítur á sig sem minna virði en aðra og að eitthvað sé athugavert við sig. Þetta orsakar mikinn sársauka og skömm. Konan fer að líta á sig sem heimska, ljóta, óhæfa móður, óhæfa eiginkonu, lélega kynferðislega ofl. Maðurinn er auk þess fljótur að finna ef konan hefur einhverjar „veikar hliðar“ s.s. útlitslega, málfarslega, e.t.v. atvinnulaus, e.t.v. ekki haft aðstæður til að mennta sig – eitthvað sem gerir konuna viðkvæma fyrir gagnrýni. Þarna finnur maðurinn auman blett og þar „hamast“ hann. Það er mjög sárt að láta gagnrýna sig í sífellu, sérstaklega varðandi útlit, framkomu og greind, og smám saman fer sjálfsvirðingin þverrandi og sjálfsmyndin brotnar niður, sem síðan kemur m.a. niður á öllum samskiptum konunnar við annað fólk. Oft einangrast konan og lokast inni í sjálfri sér.Ein mesta niðurlægingin og skömmin er kynferðisleg misnotkun mannsins á konunni. Mikil niðurlæging er einnig falin í því að maðurinn kallar konuna illum nöfnum s.s. „hóru“ og „dræsu“ ef hún fer eitthvað út með vinum sínum, en honum er frjálst að fara hvert sem hann vill án þess að það þyki athugavert.
 • Ótti – Lífið er litað ótta og kvíða vegna eign (og barnanna) öryggis, andlegs og líkamlegs. Konan óttast stöðugt skemmd og eyðileggingu, bæði í beinni og óbeinni merkingu og reynir hún hvað hún getur til að halda manninum „góðum“ og koma þannig í veg fyrir „árásir“. Andrúmsloftið er sífellt þakið spennu vegna yfirvofandi hættu sem konan hefur enga stjórn á. Þannig ástand skapar stöðugan ótta og kvíða þar sem það er mikill ótta- og kvíðavaldur að hafa enga stjórn á aðstæðum heldur vera stöðugt komin undir ógnandi stjórn annarra. Það er ofbeldi í sjálfu sér að hafa litla sem enga stjórn á eigin öryggi á eigin heimili. Segja má að þegar svona er komið sé viðkomandi raunverulega „heimilislaus“. Að vænta stöðugt „árásar“ er oft líkt við tilfinningalegar hremmingar fanga í fangabúðum.Hlutgerfing Maðurinn lítur á konuna sem hlut án „lifandi“ eiginleika s.s. vona, þarfa og væntinga.a) Konan er látin breyta einhverju hjá sér til að uppfylla þarfir mannsins s.s. klæðast eins og hann vill – því þannig vill hann að „konur klæðist“. Skipta um hárgreiðslu að óskum mannsins. Þarna skiptir vilji konunnar ekki máli. Konan er þvinguð til að afneita persónulegu einstaklingseðli sínu með því að verða í útliti eins og maðurinn óskar.

  b) Konan er þvinguð til að nota svefnlyf/róandi lyf en með því getur maðurinn betur stjórnað orku konunnar. Smám saman verður hún líkamlega og andlega ófær um að láta í ljós þarfir sínar og hættir síðan e.t.v. að þekkja þær sjálf.

  c) Konan er „eign“mannsins. Hann ræður hvað hún gerir og hverja hún umgengst. Oft stjórnar hann þarna í skjóli „afbrýðisemi“ og gagnrýni og hvað hann „elski“ konuna mikið. Í þessu sambandi er það oft svo að maðurinn er m.a. í tíma og ótíma að ónáða konuna í vinnunni eða þegar hún er ein með vinkonum sínum. Maðurinn virðir alls ekki sjálfsagðan rétt konunar til ótruflaðs einkalífs á eigin forsendum.Í menningu okkar er það svo að konur eiga að „hegða“ sér á ákveðinn hátt annað er ekki „viðeigandi“ eða „kvenlegt“ og það þarf að „leiðrétta“ hegðun slíkra kvenna ef þær eiga að falla í kramið. Er þetta e.t.v. eitthvað sem þarfnast nánari skoðunar?

 • Óraunhæf ábyrgð – Konan er gerð ábyrg fyrir praktískum og tilfinningalegum málum allra á heimilinu. Maðurinn tekur litla sem enga fullorðins ábyrgð í samskiptum þeirra. Hann hafnar ábyrgð á eigin hegðun, gerðum, efnahagslegri afkomu, fríi, börnunum ofl. Allt er þetta á ábyrgð konunnar og þegar ekki tekst nógu vel til þá er það henni að „kenna“ því hún stendur sig ekki nógu vel. Afleiðingin verður yfirþyrmandi ábyrgðartilfinning sem konan hefur orðið að ávinna sér og sætta sig við.Spyrja má hvernig ábyrgðinni sé háttað í okkar menningu? Hver ber meginábyrgðina á heimili, börnum og öldruðum foreldrum? Hvar liggur helst ábyrgðarsvið karlmanna? Hverjum er „kennt“ um þegar illa tekst til?
 • Ruglun á raunveruleikanum – Staðreyndir, reynsla, skynjun raunveruleikans, allt er brenglað. Konan fer að efast um eigin raunveruleikaskynjun (missir raunveruleikaskynsins er alvarlegt einkenni geðveiki). Konan fer jafnvel að halda að „eitthvað sé að henni“, hún sé „geðveik“ og maðurinn ýtir undir það. Það sem konan skynjar segir maðurinn henni að sé „öðruvísi“ og að hennar túlkun sé röng. Dæmi um þetta er t.d. að konan fer með karlkyns kunningja á kaffihús. Maðurinn verður reiður og segir konunni að „eitthvað“ hafi gerst á milli þeirra. Konan fer e.t.v. að efast um eigin dómgreind og jafnvel að trúa því sjálf að „eitthvað“ hafi gerst og um leið fer hún að leita sektar hjá sér. Raunveruleikinn riðar til falls og konan fer að efast um hvað sé rétt eða rangt, gott eða vont, hvað hún vill og vill ekki, hvernig henni líður og „á að líða“. Á ensku hefur þetta verið kallað „Crazy-making“.
 • Missir (Deprivation) – Gerist þegar árekstrar verða á milli grunnþarfa og möguleika á að fá þær uppfylltar. Grunnþarfir eru m.a. fæði, klæði, húsaskjól, afkoma, öryggi, virðing, félagsskapur. Lýst sem sársaukafullri líðan vegna stöðugt óuppfylltra þarfa. Talað er bæði um efnahagslegan og félagslegan missi. Efnahagslegur missir er t.d. að konunni eru „skammtaðir“ allt of litlir peningar. Hún þarf að spara langt út fyrir það sem mögulegt er. Þetta skapar mikla streitu. Hvað á t.d. að ganga fyrir? Reikningar, matur, föt, tómstundir barnanna? Konan reynir eins og hún getur að spara en það er aðeins hægt að vissu marki og þá er hún e.t.v. ásökuð fyrir að „bruðla“. Félagslegur missir leiðir oft til einangrunar. Maðurinn segir t.d. „já, já, farðu bara í heimsókn“ en konunni er síðan gert ómögulegt að fara t.d. með því að ekki eru til peningar í strætó eða maðurinn fer út á síðustu stundu og enginn er til að gæta barnanna. Vinirnir hringja og maðurinn segir að konan sé ekki heima eða upptekin. „Við þörfnumst ekki annarra, við höfum hvort annað“.“ Félagslegur missir verður þannig að konan einangrast. Maðurinn talar um hvað aðrir hafi „slæm áhrif“ á konuna, séu „leiðinlegir“ eða „þoli sig ekki“ ofl. Maðurinn óttast mjög sýn annarra á málin, eða að konan fari að „kvarta“og vill hann því m.a. halda henni einagraðri. Konan hefur því sífellt færri tækifæri til að deila reynslu sinni með öðrum og því minni líkur á að hún fái það frá öðrum að „eitthvað sé ekki í lagi“ hjá henni. Það vantar alla „heilbrigða“ speglun. Einu mannlegu samskiptin verða því oft ofbeldissamskiptin.Þessi atriði sem að framan eru nefnd eiga stóran þátt í að spinna“vefinn“ og margslunginn áhrifamáttur mannsins heldur konunni oft rígfastri í sambandinu. Sambandi sem er mun flóknara en í fljótu bragði sést og hægt er að átta sig á. Þar sem hvort um sig hefur ákveðið hlutverk.Afleiðingar ofbeldis á:

 

-Sjálfsálit. Þegar sjálfsálitið minnkar er auðvelt fyrir konuna að trúa því að hún eigi ofbeldið skilið því hún sé svo misheppnuð, ómöguleg og mun minna virði en aðrir. Hún fer jafnvel að þakka manninum fyrir að yfirgefa sig ekki eins ómöguleg og hún er. „Mér er sama þótt þú berjir mig bara að þú yfirgefir mig ekki, ég get ekki lifað án þín“.

-Sjálfsmynd. Sjálfsmyndin byggir á persónueinkennum, viðhorfum og gildum. Konan getur ekki lengur skilgreint hver hún er og fyrir hvað hún stendur. Konan segist oft finna fyrir því að vera „tóm“ eða „hol“.

-Líkamlegt heilbrigði. Áhrif á líkamlegt heilbrigði eru oft veruleg s.s. átröskun, minnkað viðnám gegn sjúkdómum, ýmis streitueinkenni, líkamlegir áverkar, hármissir ofl. Í ljós hefur komið að notkun kvenna í ofbeldi á heilbrigðiskerfinu og lyfjum er marktækt meira en annarra kvenna.

-Von. Að missa von um bætt ástand veldur oft þunglyndi. Flestar konur í ofbeldi finna fyrir þunglyndiseinkennum á ákveðnum tímapunkti og sumar íhuga sjálfsvíg. Maðurinn notar þessa líðan konunnar oft til að ítreka við hana að hún sé „geðveik“ og hótar oft með innlögn á geðdeild og að börnin verði tekin af henni. Konan óttast þetta og reynir sífellt meira að þóknast manninum m.a. til að forðast þennan „geðveikisstimpil“ og að börnin verði tekin af henni. Þetta þunglyndi er oftast eðlileg svörun við óþolandi aðstæðum!!

Alvarlegustu afleiðingar ofbeldis eru að konan getur ekki nýtt hæfileika sína sem skyldi og verður illa fær um að þiggja og gefa á jákvæðan hátt í mannlegum samskiptum. Ofbeldið hefur áhrif á alla möguleika hennar á að „njóta sín“ í lífinu s.s í starfi, námi, frístundum, áhugamálum og samskiptum. Ofbeldið hefur einnig áhrif á börnin og þeirra möguleika á að „njóta sín“

 • Að losna úr viðjum ofbeldis –  Að losna úr ofbeldi er ákveðið ferli sem stundum getur tekið langan tíma þar sem skiptast á skin og skúrir. Þegar konan fer að átta sig á því að sambandið hefur mjög neikvæð áhrif á líf hennar (og barna) þá má segja að konan sé að hefja úrvinnsluferlið. Fyrstu batamerkin eru oft þegar konan sér neikvæðar breytingar í lífi sínu (og barna) og tengir það manninum en ekki stöðugri einlitri sjálfsgagnrýni og fer að sjá og hafna „skemmandi“ skilaboðum frá manninum.Eins og komið hefur fram þá er andlegt ofbeldi oft mjög dulið þar sem „vefurinn“ er svo ósýnilegur og vandlega ofinn. Oft er það ekki fyrr en mun seinna að konan fer að átta sig á því við hvað hún hefur raunverulega búið og hve skaðlegt ofbeldið hefur verið. Í úrvinnsluferlinu fer konan oft fram og til baka þar til hún endanlega nær að vinna sig út. Stuðningur við konuna er m.a. fólgin í þ.ví að skoða með henni hver staða hennar er, hvað hefur breyst og hvaða möguleika hún hefur til að vinna sig út.. Mikilvægt er að konan líti á úrvinnsluferlið með jákvæðum augum en jafnframt að það gerist ekki án sársauka.Oft er talað um að það séu tvö öfl/kraftar innra með konunni sem fá hana til að slíta sig lausa. Fyrra aflið er ótti við hegðun mannsins bæði líkamlegar ofbeldisaðgerðir hans og ekki síst líf í ótta við stöðugar árásir sem engar varnaraðgerðir eru til gegn eins og komið hefur fram hér að framan. Seinna aflið er reiði yfir ástandinu. Reiðin getur verið bæði uppbyggjandi og niðurrífandi. Uppbyggjandi er hún þegar konan virkjar hana á jákvæðan hátt til að vinna sig út. Reiðin getur verið heilbrigð og eðlileg svörun við ofbeldinu og leitt til jákvæðra breytinga. Reiðin er niðurrífandi þegar hún beinist inn á við að konunni sjálfri. Hún fer að líta á sig sem „fórnarlamb“ og að ekkert er hægt að gera í stöðunni. Afleiðingarnar geta m.a. orðið viðvarandi þunglyndi, sjálfsvígshugsanir og jafnvel morð. Þegar konan fer að rifja upp og tala um ofbeldið verður hún oft mjög reið yfir hvað maðurinn hefur náð að gera. Einnig verður hún reið út í sjálfa sig og allt og alla. Þessari reiði fylgir oft töluverður „hefndarhugur“ og stuðningsaðili verður að átta sig á að um eðlilega líðan og atferli er að ræða og gæta þess vel að ganga ekki inn í þetta með konunni t.d. með því að taka undir ásakanir hennar á hendur hinum og þessum m.a. manninum. Það er ekki fyrr en reiðin minnkar og beinist í heilbrigðan farveg að konan heldur áfram jákvæðri úrvinnslu sinna mála. Ótti og kvíði fylgja konunni oft lengi á eftir og yfirfærist gjarnan á aðrar aðstæður í lífinu. Eitthvað sem konan tengir „gamla“ ástandinu og vekja því upp „gömlu“ viðbrögðin hennar. Lengi vel er konan alltaf viðbúin til að bregðast við „yfirvofandi“ hættu, er stöðugt í“viðbragðsstöðu“ og er stöðugt að leita að einhverjum „ofbeldismerkjum“ í umhverfinu sem var nauðsynlegt fyrir hana meðan ofbeldissambandið varði. Þessi innbyggðu varnarviðbrögð skemma oft fyrir konunni í nýju sambandi og hugsanir eins og „lendi ég aftur í ofbeldissambandi“?, „er ég spennufíkill“? gerast áleitnar.Fara þarf í gegnum þessi atriði með konunni og gæta þess að eigin viðhorf séu ekki lituð fordómum m.a. varðandi það að ákveðinn tími þurfi að líða þar til nýtt samband hefst. Það er einstaklingsbundið og alls ekki háð ákveðnum tíma. Nauðsynlegt er fyrir konuna að skilgreina fyrir sjálfri sér hvað það er sem hún sækist eftir í nýju sambandi. Hugtakið „spennufíkill“ er einnig oft notað vanhugsað og er í sjálfu sér dæmandi og getur lýst fordómum og oft þekkingarleysi notanda. Áður er konan fer í nýtt samband er nauðsynlegt að hún sé komin vel á veg með að „finna sjálfa sig“ og geti m.a. sett sjálfri sér og öðrum mörk. Nauðsynlegt er einnig að konan sé fær um að lifa nokkuð góðu lífi á eigin forsendum áður en hún fer að glíma við annarra forsendur og finna þar hinn gullna meðalveg.

  Í úrvinnsluferlinu gerist það oft að kona sem kemur í kvennaathvarf fer aftur (og aftur) heim, stundum í óbreytt ástand. Ástæðurnar fyrir því að konan fer heim geta bæði verið praktískar og tilfinningalegar. Þrátt fyrir ástandið verði aftur slæmt er konan sterkari en áður. Hún veit nú að hún getur farið að nýju auk þess að hafa öðlast nýja sýn og aukinn styrk. Alls ekki ber að líta á það sem mistök eða uppgjöf að konan fari aftur heim í óbreytt ástand heldur er þetta liður í ferlinu. Konan er að safna frekari orku og finna að áhrifamáttur mannsins á líf og líðan hennar fer minnkandi. Eins hefur það stundum gerst að maðurinn sér hvernig komið er, leitar sér aðstoðar og saman geta þau hafið nýtt líf. Ýmsar rannsóknir hafa hins vegar sýnt að aukinn styrkur konu leiddi oftast til þess að sambandinu lauk en ekki til þess að þar skapaðist betra jafnvægi með frekari sambúðarmöguleikum.Konur sem snúa aftur heim í lítið/óbreytt ástand gefa upp ýmsar ástæður fyrir því. Ástæður sem eru að stórum hluta menningabundnar;

  1. Staða konunnar er á heimilinu og hlutverk hennar er að „annast um“ alla á heimilinu.
  2. Mikilvægast hlutverk konunnar er móðurhlutverkið.
  3. Maðurinn þarfnast konu til að annast sig.
  4. Neita að horfast í augu við ofbeldið.
  5. Afneitun á að það sé hægt að gera eitthvað í stöðunni.
  6. Félags- og trúarleg gildi varðandi hjónabandið.
  7. Nauðsynlegt fyrir börnin að foreldra búi saman þrátt fyrir ofbeldi.

  Álíka ranghugmyndir geta stuðlað að misrétti, kúgun, sektarkennd og lélegri sjálfsvirðingu. Á þennan hátt er leiðin til þunglyndis t.d. nokkuð greið sem byggir þá á ranghugmyndum um eigið mikilvægi. Að álíta konu þunglynda er að líta á hana sem sjúka. Að álíta konu kúgaða er að líta á hana sem ranglega sigraða af þeim sem meiri völd hafa.

  Kona sem ákveður að vinna sig út úr ofbeldi með því að vera einstæð stendur frammi fyrir mörgum breytingum. Til að vel eigi að vera er nauðsynlegt að eftirfarandi grunnþarfir séu a.m.k. þokkalega uppfylltar; þörfin fyrir húsnæði, efnahagslegt öryggi og líkamlegt, andlegt- og tilfinningalegt öryggi. Það hefur komið í ljós að öryggi í húsnæðismálum og efnahag vegur einna þyngst.

  Það að vinna sig út úr ofbeldinu og verða einstæð hefur margar hliðar. Sumar konur verða ánægðar með aukið sjálfstæði og friðsamlegt líf, laust við ofbeldi. Á hinn bóginn verða margar konur einmanna og þeim leiðist í þjóðfélagi sem byggir á því, að stærstum hluta, að tveir og þá karl og kona séu í sambandi. Þjóðfélagið byggir e.t.v. meira á því að mæta þörfum karla og síðan hjóna/sambúðafólks en síður á að mæta þörfum einstæðra mæðra. Sumar konur segja að þegar þær yfirgefa kvennaathvarf séu þær jafnvel með ótryggt heimili, peningalitlar, atvinnulausar og með endalaus vandamál í sjónmáli. Í byrjun er því nauðsynlegt að aðstoða konu við að uppfylla grunnþarfirnar s.s. varðandi húsnæði og efnahag. Úrvinnsla tilfinninga kemur þar á eftir. Nauðsynlegt er einnig að loka ekki á konu meðan hún er að slíta tengslin við athvarfið. Í því sambandi getur kona verið mjög viðkvæm.

  Að losa sig úr ofbeldissambandi hefur mikið tilfinningalegt umrót í för með sér og ber meira á sumum tilfinningum en öðrum s.s. létti við að vera laus úr ofbeldinu, geta ráðið sér sjálf og laus við ótta og stöðugan kvíða. Sorg, þegar konan gerir sér grein fyrir að sambandið er búið. Ofbeldið sem hún hélt að mundi lagast heldur áfram hvernig sem hún reynir að koma í veg fyrir það. Maðurinn sem hún elskaði (og elskar e.t.v. enn) er ofbeldisfullur og ýmsar stuðningsleiðir hafa ekki skilað sér s.s. hjónabandsráðgjöf. Hún lítur til baka með sorg og söknuði til þess tíma þegar sambandið var e.t.v. ástríkt og þau áttu góðar stundir. Vonin um að ástandið lagist er slokknuð og konan stendur frammi fyrir köldum raunveruleikanum. Áfall kemur þegar konan stendur frammi fyrir ýmsum praktískum vandmálum og breytingum á lífsstíl. Áfallið kemur líka þegar konan finnur að hún getur vel staðið á eigin fótum og sjálfsásökun eins og „því fór ég ekki fyrr“ gerist áleitin, sérstaklega þegar börnin hafa liðið mikið. Reiði og ótti eru tilfinningar sem fjallað var um hér að framan. Allar þessar tilfinningar blandast saman og það tekur langan tíma fyrir konu að ná áttum. Því má segja það að það að yfirgefa manninn er aðeins fyrsta skrefið á mjög löngu ferli.

   

 • Úrvinnslan – Úrvinnslan er ferli sem gerist í gegnum ákveðna styrkingu sem byggir á ofbeldisreynslunni. Konan fer í gegnum jákvætt úrvinnslukerfi þegar hún finnur og sér hegðun sína og líðan styrkjast í átt til frelsis og eigin stjórnunar á aðstæðum.Konan verður að finna nýjar leiðir, rannsaka, skilgreina og skilja sjálfa sig og eigin þarfir að nýju og læra að setja sér og öðrum mörk. Konan þarf að finna, skilgreina og uppfylla eigin þarfir á öllum sviðum. „Hver er ég?“, „hvað vil ég?“, „hvað vilja aðrir mér?“Í ofbeldinu er ýmiss konar streituvaldar sem konan þarf smám saman að átta sig á og vinna með. Tilfinningalegir streituvaldar geta t.d. verið reiði, vanmáttur, sektarkennd, höfnun, skömm, blygðun og ótti. Samskiptalegir streituvaldar geta t.d. verið ósætti og togstreita milli einstaklinga, einsemd, skortur á stuðningi, skilningsleysi á aðstæðum konu og einangrun. Ofbeldið sjálft er mikill streituvaldur. Langvarandi áföll og álag t.d. stöðugir flutningar, erfiðleikar í æsku, fyrri ofbeldissambönd, veikindi, langvarandi streita, fjárhagsvandi og húsnæðisvandi. Þetta getur m.a. valdið því að; sjálfsvirðing konunnar minnkar, hún dregur upp neikvæða mynd af sér, þolir illa hrós/gagnrýni, forðast náin tengsl, þor og frumkvæði minnkar, forðast að taka ákvarðanir, áfengis- og önnur vímuefnanotkun miklar reykingar ofl.Konan þarf að skoða eigin þarfir í samskiptum við aðra. Þegar sú skoðun fer af stað þá breytist margt í lífinu og jafnvel finnur hún höfnun frá umhverfinu. E.t.v. áttar hún sig á að fjölskylda/vinir „notuðu“ hana þar sem hún átti svo erfitt með að segja nei og á hinn bóginn getur verið að kona hafi „notað“ þessa sömu aðila til að viðhalda og afneita ofbeldinu. Samskipti konunnar við börnin þarfnast einnig endurskoðunar á sama hátt og samskipti við aðra. Oft hellist yfir konuna sektarkennd ef hún skilgreinir eigin þarfir sem ganga á skjön við þarfir barnanna. Því er hætta á að hún láti börnin stjórna sér og fer m.a. út í að vera að stöðugt að „bæta þeim upp“ eitthvað óskilgreint. Konan getur ekki hugsað sér að taka tíma frá börnunum fyrir sjálfa sig. Þarna er nauðsynlegt að finna eitthvert ásættanlegt jafnvægi.
 • Leiðir – Í úrvinnslunni nota konur ýmsar leiðir til þess að takast á við vandann og í heild má skipta þeim í 4 þætti; Sjálfstyrkjandi s.s. líkamsrækt, regla á daglegum lifnaðarháttum, afla sér frekari upplýsingar um ofbeldi, leita utanaðkomandi aðstoðar, rækta trúlíf ofl. ofl. Huglægar þ.e. konan vinnur m.a. með viðhorf sín og hugsanir- tekur vitrænar ákvarðanir. Þarna er m.a. að finna von, bjartsýni, raunsætt mat á aðstæðum, taka einn dag í einu, setja sér markmið og finna leiðir til að framfylgja þeim, ekki ætla sér um of ofl. ofl. Spennuminnkandi s.s. „segja sögu sína“, grátur/hlátur og önnur tilfinningaleg slökun, áhugamál ofl. ofl. Ómeðvitaðar s.s. notkun ýmissa varnarhátta s.s. göfgunar, afneitunar, bælingar, frávarps, réttlætingar, afturhvarfs ofl. Þegar fer að líða að úrvinnslunni nota sumar konur eigin reynslu öðrum konum til aðstoðar og sumar reyna e.t.v. að hafa áhrif á þjóðfélagið í heild sinni með tilliti til ofbeldis. Þegar konan aðstoðar aðra konu í svipaðri stöðu og hún var sjálf styrkist hún enn frekar í sinni eigin úrvinnslu. Þannig getur eigin reynsla orðið að „vísdómi og leikni“ þar sem konan notar reynsluna til að auka persónulegt innsæi. Þannig getur áhrifamáttur stuðningsins aukist. Eigin reynsla er þó mjög vandmeðfarin og ýmislegt ber að varast s.s. að verða ekki „yfirþyrmdur“ af viðkvæmni eigin tilfinninga og eða að yfirfæra ekki eigin reynslu t.d. þannig að konan sem leitar stuðnings veit ekki muninn á sínu vandamáli og vandamáli stuðningsaðila. Í versta tilfelli veit stuðningsaðilinn það ekki heldur.
 • Stuðningsaðilar – Þegar vinna á sig út úr ofbeldi skipta stuðningsaðilar miklu máli s.s. fjölskylda, vinir, vinnufélagar og „kerfið“. Nær ómögulegt er fyrir konu að vinna sig út án aðstoðar og þar skiptir fjölskyldan mestu máli. Þó stuðningur sé í mörgum tilfellum góður þá getur hann einnig snúist upp í andhverfu sína og utanaðkomandi „faglegir“ stuðningaðilar þurfa að vera sérlega vel á verði t.d. varðandi eigin fordóma. Slæmt getur t.d. verið ef búið er að búa til „staðlaða“ mynd af hvernig ofbeldi „lýsir sér“ og hvernig brotaþolar eigi að vera. Stuðningsaðilinn er þá um leið búinn að taka sér það vald að dæma um hvaða kona býr við ofbeldi og hver ekki. Þessi „staðlaða“ mynd er oft komin úr kvikmyndum, sjónvarpi, einsleitum umræðuþáttum ofl. Sumir stuðningsaðilar neita að trúa konu sem leitar stuðnings ef hún fellur ekki inn í „stöðluðu“ myndina sem þessi aðili hefur búið sér til. Sérstaklega á þetta við ef ekki hefur verið um að ræða líkamlegt ofbeldi. „Forræðishyggja“ stuðningsaðila er einnig slæm þ.e. hann telur sig vita hvað konu er fyrir bestu og lætur það e.t.v. í ljós með „föðurlegri umhyggju“. Stuðningshópar kvenna eru ekki alltaf af hinu góða því stundum er þar dregin upp mjög svört/hvít mynd af ofbeldinu. „Menn vondir, konur góðar“. „Gerendur karlar, konur brotaþolar“. „Besta leiðin er að yfirgefa manninn“. Fram að þessu hefur ofbeldi í lesbískum samböndum t.d. verið töluvert „tabú“ innan kvennahreyfingana og ofbeldi lesbía því neitað. Meiri skilningur hjá stuðningsaðilanum hefur verið þegar um líkamlegt ofbeldi er að ræða en minni djúpur skilningur á reiðinni, óttanum, kvíðanum, sorginni, léttinum, einangruninni, áfallinu og lélegu sjálfsmyndinni sem gerist við andlega ofbeldið. Samblandið af öllu þessu er ekki hægt að staðla nema að mjög litlu leyti.Nauðsynlegt er að til séu aðgengilegar upplýsingar m.a. í formi fræðsluefnis. Í kvikmyndum og bókum er ofbeldi stundum gert aðlaðandi og jafnvel eftirsóknarvert, fyndið, karlmannlegt, erotískt. E.t.v. mættir t.d. skoða kvikmyndina 9 og ½ vika að nýju í því ljósi.Í viðtölum við konur sem lent hafa í ofbeldi hefur gagnrýni á stuðningsaðila beinst m.a. að eftirfarandi atriðum;
  1. Búnar eru til „staðlaðar myndir“ af ofbeldi gerendum og brotaþolum.
  2. Ofbeldi er einkamál sem fellur undir friðhelgi heimilisins.
  3. Afneitun á einkennum/ vísbendingum.
  4. Ofbeldi ekki „hátt skrifað“ í umræðu og menntun.
  5. Einlit umræða og þá meginþunginn á líkamlegt ofbeldi.
  6. 6. Konan er „ásökuð“ sem brotaþoli.
  7. Einblínt um of á líkamlega áverka.
  8. Sögu konu er ekki trúað.
  9. Skortur á þekkingu og þjálfun starfsfólks.
  10. Ranghugmyndir, fordómar, hroki, forræðishyggja.
  11. Stuðningsaðili hefur meiri þörf á að „fræða“ og tala sjálfur en að hlusta.
  12. „Ósnertanlegur“ fagmaður (hjálparaðili) sem allt kann, veit og skilur.
  13. Stuðningsaðili hefur þörf fyrir að leysa málin fyrir konu.

  Vilborg G. Guðnadóttir hjúkrunarfræðingur tók saman í ágúst 1996. Unnið að nokkrum hluta upp úr bókinni „Leaving abusive partners“ eftur Catherine Kirkwood sem kom út 1993 og er byggð á rannsóknum höfundar á 30 breskum og bandarískum konum sem höfðu losað sig úr ofbeldissambúðum.

  Samtök um kvennaathvarf www.kvennaathvarf.is

 

SHARE