Ofurmódelið Natalia Vodianova hvetur til brjóstgjafar: Mynd

Þó íslenskum konum kunni að finnast það næsta eðlilegt að brjóstfæða barn sitt á almannafæri, þykir það eitt að gefa barni sínu brjóst allt hið vandræðalegasta mál í flestum öðrum heimshlutum.

Þannig eru Bandaríkjamenn sérstaklega viðkvæmir fyrir brjóstagjöf og ýmsir hafa varpað upp spurningunni: “Þurfum við virkilega að horfa á þetta – verðum við að sjá allt?”

Svarið við þeirri spurningu er reyndar: “Já, því brjóstagjöf er eðlilegur hluti af náttúrunni og ekkert til að vera feimin/n við” og þannig er nýtt trend risið á Instagram; frægar mæður sem brjóstfæða börn sín, afhjúpa eðlilega nekt og skora þannig tvöfalt siðgæði heimsbyggðarinnar á hólm.

Ef við höldum áfram að meðhöndla brjóstagjöf eins og gjörningurinn sé hluti af leynilegri athöfn, læsum konur inni á klósettum með ungabörn og þöggum niður umræðuna sem fylgir opinberri brjóstagjöf munu færri og færri ungabörn þar af leiðandi njóta næringarríkrar brjóstamjólkur og pelagjafir verða algengari.

Natalia Vodianova, rússnesk fyrirsæta sem einna þekktust er fyrir að sitja fyrir hjá Calvin Klein birti þannig nýverið fyrstu ljósmyndina af sjálfri sér og nýfæddum syni sínum, Maxim, sem kom í heiminn nú í maí sl. Og skyldi engan undra; en þau mæðgin eru undursamleg á að líta. 

SHARE