Öl er ANNAR maður – Alkóhólisti eða ekki?

Á mínum yngri árum þá heyrði maður oft hugtakið “öl er innri maður” og þegar það var sagt var átt við að þegar fólk drykki áfengi kæmi þeirra rétta manneskja í ljós. Ég hef samt með árunum og reynslunni komist að því að þetta er svo fjarri sannleikanum. Þið þurfið ekki að vera sammála mér og hafið kannski allt aðra upplifun en ég er á því að “öl er ANNAR maður”.

 

Við þekkjum öll einhverja sem ættu helst ekki að drekka áfengi. Fólk sem verður fullt eftir eitt glas, drekkur hraðar en allir hinir og þessi sama manneskja endar oftast sem “fyllsta manneskjan” og sú sem “lendir” alltaf í þvílíku rugli og þeir sem eru í kring hrista bara hausinn og skilja ekki hvers vegna þessi manneskja hætti ekki bara að drekka! Ástæðan er einföld, þessi manneskja er að öllum líkindum alkóhólisti.

 

Ég hef í gegnum tíðina séð marga rústa lífi sínu og fjölskyldu sinnar vegna áfengis, mæður og feður yfirgefa börnin sín til að komast á fyllerí, fólk missir vinnu, hjónabönd fara hraðleið til helvítis og því miður hef ég líka séð fólk deyja útaf alkóhólisma. Í þeim tilvikum hefur verið um að ræða bílslys, sjálfsvíg og jafnvel manndráp. Allt hefur þetta mátt rekja til neyslu á áfengi.

 

Mér finnst ekki nógu mikið hamrað á því hversu hættulegt þetta er, við vitum öll að fíkniefni eru stórhættuleg en það er ekki mikið rætt hversu skaðlegt og eyðileggjandi áfengi er, bæði fyrir líkama og sál. Cory Monteith úr Glee er nýjasta dæmið um manneskju sem lést fyrir aldur fram vegna þess sem byrjaði sem ótæpileg áfengisneysla og þegar áfengið hættir að virka fer fólk í harðari efni. Amy Winehouse er annað dæmi, Kurt Cobain, Chris Farley, Marilyn Monroe, Elvis Presley, Anna Nicole Smith, Heath Ledger, Jim Morrison, Billie Holliday, Whitney Houston og miklu fleiri létust af völdum þess sem hófst sem áfengisneysla. Sorgleg staðreynd!

 

Ég er ekki að segja að ENGINN eigi að drekka! Það er til fólk sem getur drukkið án þess að skaða sig eða aðra og þá er það bara flott fyrir þá. En þeir sem geta það ekki án skaða ættu að hætta því, því fyrr því betra.

 

Alkóhólismi er viðurkenndur sjúkdómur og hefur verið það í tugi ára og við skulum aldrei gleyma því….

SHARE