Oreo bakað í súkkulaðibitaköku

Þetta er ein af mínum uppáhaldsuppskriftum. Ég er mikill aðdáandi Oreo. Ég fór til Ameríku árið 2005 og ég man að ég fyllti töskuna mína af Victoria´s Secret og Oreo á leiðinni heim. Mér finnst það bara sjúklega gott með öllu.

Mig langar að deila þessari uppskrift með ykkur, en þetta er mjög einfalt en ofsalega gott!!!

150 gr smjör
128 gr ljós púðursykur
225 gr sykur
2 stór egg
1 msk vanilludropar
745 gr hveiti
1 tsk salt
1 tsk matarsódi
340 gr súkkulaðibitar eða niðurskorið súkkulaði
1 pk Oreo kex

Aðferð:

Stillið ofninn á 180°hita uppi og niðri.

Hrærið púðursykur, sykur og smjör mjög vel saman í hrærivél. Bætið svo við eggjum og vanilludropum. Blandið þurrefnum saman í aðra skál og blandið rólega út í blönduna í hrærivélaskálina. Seinast er súkkulaðinu bætt út í.

Það er gott að nota ísskeið til að taka deig upp og setja ofan á eina Oreo kexköku í einu. Setjið svo aðra skeið af deigi undir kexkökuna. Klemmið varlega saman og látið kexið lokast inní deiginu. Setjið á smjörpappír á ofnplötu. Kökurnar munu þenjast út svo þær mega ekki vera of þétt á plötunni.

Bakist í 11-15 mínútur í miðjum ofninum þangað til þær eru gullinbrúnar. Gott að borða með ís meðan þær eru volgar. Eða bara hvenær sem er með mjólkuglasi eða kaffi.

Heimildir: Tablespoon

SHARE