Óvæntar áskoranir í kennarastarfinu

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is. Ef þú vilt deila reynslu þinni í Þjóðarsálinni, mátt þú endilega senda okkur póst á hun@hun.is og saga þín verður birt. Þú ákveður hvort hún eigi að vera nafnlaus eða ekki. 

Eitt sinn birtist á hun.is athyglivert viðtal við Ragnar Þór Pétursson, formann Kennarasambands Íslands, þar sem hann greinir frá áburði um kynferðislega misnotkun á nemendum sínum. Það er engan veginn nýlunda í mannlífinu að reynt sé að koma höggi á náungann með slúðri og rógi. Stundum er slík hátterni knúið af hreyfiafli sefasýkinnar eins og nornaveiðar miðalda og ofsóknir samtímans eru ágæt dæmi um. Því miður er Ragnar Þór ekki eina fórnarlambið. Hér er sagt frá tveim starfsbræðrum hans, öðrum í Kanada, hinum í Bandaríkjum Norður-Ameríku, sem urðu fyrir svipaðri reynslu.

Henri hafði verið leikfimikennari um þrjá áratugi í Quebec. Nokkrar stúlkur á aldrinum átta til tólf ára ákærðu hann fyrir óviðeigandi, kynferðislega snertingu, árið 2008. Henri var þá fimmtíu og fjögurra ára. Hann var eini karlkennarinn við skólann. Henri var handtekinn og settur í varðhald. Þar dúsaði hann í heila viku. Honum var umsvifalaust skipað í launalaust leyfi. Gróa á Leiti fór á kreik, kjaftasögurnar stigmögnuðust, meðan lögreglan rannsakaði málið um tveggja ára skeið. Tvær stúlknanna drógu ákærur sínar tilbaka, þannig að þær urðu bara þrjátíu og fjórar. Dómari mat þær allar tilhæfulausar. Henri fékk stöðu sína aftur, en hvorki sárabót fyrir tveggja ára tekjumissi né lögfræðingskostnað. Samkennararnir studdu starfsbróður sinn.

„Fangelsisvistin reyndi á. Því næst tóku gróusögurnar við. Þegar fólk gjóaði á mig auga og hugsaði, að ég væri sekur. Í svona tilvikum er komið fram við mann eins og sekur væri,“ sagði Henri.

Sjá einnig: Íslenska heilbrigðiskerfið hefur brugðist mér

Það eru engar áreiðanlegar tölur aðgengilegar um fjölda falskra ákæra á hendur kennurum. Þeir sem gerst til þekkja, telja, að síðustu tvo áratugi síðustu aldar hafi ákærum um ótilhlýðilegt hátterni kennara aukist. Rannsókn í Bretlandi leiddi í ljós, að af 1.782 árkærum, var réttað í níutíu og sex.

Í kanadískri rannsókn frá árinu 2010 „Skýrsla um starfsframa karlkyns grunnskólakennara í Ontario (A Report on the Professional Journey of Male Primary-Junior Teachers in Ontario), sögðu um þrettán af hundraði karlkennara, að þeir hefðu legið undir gruni um ótilhlýðilega snertingu við nemendur.“ Það má teljast sennilegt, að þetta hlutfall sé of lágt.

Hið almenna viðhorf er, að nemendur segi satt (börn ljúga ekki). Þetta á sérstaklega við, sé um ákæru stúlku á hendur karlkennara.

Jon Bradley, lektor við kennaradeild McGill háskólans í Kanada, segir karla fimm af hundraði þeirra, sem hefja nám við deildina. Í grunnskólum Kanada (2011) eru karlkennarar tuttugu af hundraða kennara, í framhaldsskólanum þrjátíu og fimm af hundraði.

Sjá einnig: Rannsóknir á skjóli kvennanna

Hann hefur fylgt nokkrum karlnemendum, eftir að þeir luku námi og hófu störf í grunnskólanum.  Innan fimm ára hafa þeir allir gefist upp. Sumir þeirra  hafa að fastri venju, að vera aldrei einir með nemanda í kennslustofu og loka henni aldrei. Þeir eru logandi hræddir við falskar ákærur.

Jon segir: „Nemendur mínir – af báðum kynjum – eru þess albúnir að takast á við uppeldislegar áskoranir, sem fylgja í kjölfar breyttra viðmiða og samsetningar nemenda. En engu að síður stuðlar útbreitt ofbeldi og falskar ákærur að hættu, sem sannarlega vekur hroll – hið fyrrnefnda hjá kvenkennurum, hið síðarnefnda sér í lagi hjá karlkennurum.“

Jon kennir nemendum sínum eftirfylgjandi varúðarreglur: Snertu aldrei nemanda; vertu aldrei einn með nemenda eða í lokaðri kennslustofu; notaðu aldrei tungutak eða hljómfall, sem túlka mætti á skjön við atvinnumennsku; notaðu aldrei samfélagsmiðla til að spjalla við nemendur; hafðu engin tengsl við nemenda eða fjölskyldu utan skóla; vertu sífellt á verði.

Í Bandaríkjum Norður-Ameríku virðist staðan svipuð og í Kanada. Greg Lawler, lögfræðingur kennarasamtakanna í Colorado (Colorado Education Association) hefur skrifað bók um reynslu sína af endurteknum afskiptum af málum félagsmanna, sem hafa verið kærðir á fölskum forsendum. Bókina kallar hann; „Saklaus uns sekt er sönnuð“ (Guilty Until Proven Innocent). „Nemendur líðandi stundar þekkja fullvel afleiðingar misnotkunarákæru, og þeir kunna að leika á kerfið. Þeir vita, hvernig beita á fölskum ákærum til að láta reka kennara. Og því miður gera það nokkrir,“ segir hann.

Ron Mayfield var hálfsextugur, atorkusamur, reyndur enskukennari í Virginíu, Bandaríkjum Norður-Ameríku. Hann hafði gott samband við nemendur sína. Það  var árið 2004, að hann var ákærður fyrir líkamsárás af hendi þrettán ára pilts. Ron var tímabundið vikið úr starfi á launum.  Gróusögur fóru á kreik. Rannsókn var hleypt af stokkunum. Áður en henni lauk, tveim vikum síðar, hafði drengurinn dregið ákæru sína tilbaka. Ron svipti sig lífi. Deginum áður hafði löggæslan metið ákæruna tilhæfulausa, en ekki hirt um að tilkynna Ron niðurstöðuna.

Í kveðjubréfinu til konu sinnar skrifar hann: „Elskan! Ég skrifa þetta til að hreinsa mannorð mitt … Ég þoli ekki að sjá andlit mitt í sjónvarpi og í dagblöðum vegna þessa atviks, þegar ég reyndi að kenna Abdul [drengnum, sem kærði hann] lexíu og hrista upp í honum. … Ég er svo þreyttur og taugaveiklaður, hér um bil haldinn aðsóknarkennd í þá veru, að lögreglan muni berja að dyrum hjá okkur og handtaka mig.“

Í fjórtán ára gamalli grein frá Þjóðarsamtökum kennara (National Education Association), skrifuð af ofangreindu tilefni,  segir:  „Þó að sjálfvíg [ákærðra] kennara séu  tiltölulega fátíð, eru falskar ásakanir það ekki. Jafnvel þótt sýnt sé fram á, að ákærurnar séu tilhæfulausar og kennara sé veitt uppreisn æru, er skaðinn þegar skeður.“

Samtökin hafa gefið út bækling með heilræðum, Segðu til, en snertu ekki (Teach But Don‘t Touch). Ágrip: „Sé því við komið, skaltu forðast að vera einn með nemenda – hvorki í skólastofu né húsi, og alls ekki í farartæki. Skutlaðu nemenda aldrei heim. Sé ekki hjá því komist að vera einn með nemenda, skaltu gera svo fyrir opnum dyrum og í augsýn. 

Sýndu ævinlega atvinnumannslega framkomu í [hæfilegri] fjarlægð. Í því felst ekkert daður, stríðni eða kynspaug. Gefðu ekki gjafir, nema þær séu gefnar öllum í bekknum. Dragðu ekki einstakan nemenda í dilk til að sýna sérstaka athygli eða skjall. Sendu aldrei tölvupóst, símboð eða kort til nemenda, sem ekki snerta skólastarf. Inntu nemendur ekki eftir félagslífi og komdu ekki með athugasemdir um útlit þeirra.

Það er sérlega snúið að eiga við snertingu. Yngri börn leita oft og tíðum eftir henni, þarfnast huggunar hjá kennara sínum. Í yngstu bekkjunum er faðmlag trúlega í lagi. Engu að síður er almenna reglan sú, að affararsælast sé að forðast flest tilbrigði við snertingu, sérstaklega að kyssa, strjúka um hár, kitla og faðma innilega (frontal hugging). Og notaðu heilbrigða skynsemi; það er í lagi að gefa fimmu fyrir góða frammistöðu; klapp á sitjandann er það ekki.

Kæfðu stundarhrifningu strax í fæðingu. Leyfðu aldrei, að nemandi verði gagntekinn af þér. Þó að skot geti kitlað hégómagirndina, geta þau einnig orðið afdrifarík. Ófullnægjuhugarórar geta leyst úr læðingi taumlausa hegðun í því skyni að öðlast athygli eða hefna fyrir hunsun.

Segðu ákveðið „nei,“ játi nemandi ást sína. Svaraðu ekki tvírætt og bættu ekki olíu á eldinn með því að láta í ljósi velþóknun með athyglina. Það er einnig hyggilegt að veita öðrum fullorðnum hlutdeild  og upplýsa stéttarfélagsfulltrúa. Í sumum tilvika kann að vera við hæfi að tala við leiðbeinanda og biðja um, að nemandinn verði fluttur um set.“

Arnar Sverrisson. Þýðingar eru höfundar.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here