Var borinn röngum sökum – Ragnar Þór segir okkur sína sögu

Hann Ragnar Þór Pétursson hafði starfað sem kennari hjá Reykjavíkurborg, nánar tiltekið í Norðlingaskóla, þegar hann fékk símtal frá skólastjóranum. Skólastjórinn tjáði Ragnari að hann þyrfti að mæta á „neyðarfund“ uppi í skóla. „Slík tilfelli eru ekki óalgeng og sem kennari lendir maður í að tækla allskyns aðstæður. Ég hélt að eitthvað hefði komið fyrir hjá samstarfsmanni eða nemanda og bjó mig undir það versta,“ segir Ragnar Þór í samtali við Hún.is.

Var sakaður um að hafa áreitt börn

Í samtali við skólastjórann fær Ragnar að vita að þeim hefði borist til eyrna að Ragnar hefði gerst sekur, í starfi sem kennari í öðrum skóla, um að áreita börn. Ragnar segist hafa orðið forviða til að byrja með og þetta hafi verið súrrealísk reynsla: „Smám saman vék furðan fyrir reiði. Ekki mín vegna heldur vegna þess að ofbeldi gegn börnum er málaflokkur sem snertir okkur kennara meira en flestar aðrar stéttir. Það eru oftar en ekki við sem sjáum afleiðingarnar og það er oft hjá okkur sem grunsemdirnar vakna. Það er líka algengt að börn leiti til okkar eftir stuðningi,“ segir Ragnar Þór.

Hann segist vita það af reynslunni hversu erfitt það er fyrir barn að segja frá ofbeldi og hversu erfitt líf þess verður í framhaldinu. „Ég veit það líka að öll fórnarlömb ofbeldis þurfa að horfa fram á það að þeim er ekki alltaf trúað og að mjög erfitt er að sanna nokkuð. Vegna þessa varð ég reiður. Það er nógu erfitt að eiga við þessi mál í dag þótt einhverjir geri sér það ekki að leik að ljúga svona,“ segir Ragnar en hann segist bara hafa mætt skilyrðislausum stuðningi frá konu sinni þegar hann kom heim. „Þetta hefur aðeins styrkt okkar samband. Hún þekkir mig best og veit nákvæmlega hvaða mann ég hef að geyma,“ segir Ragnar Þór.

Ásökunin kom ekki frá barni

Fjölskylda, vinir, fyrrverandi nemendur, foreldrar þeirra og jafnvel ókunnugir hafa sýnt Ragnari Þóri gríðarlegan stuðning og segist hann hvergi hafa fundið annað en meðbyr, svo mikinn að honum fannst nóg um á tímabili: „Sá hluti málsins sem eftir er snýst fyrst og fremst um að laga hluti sem eru bilaðir – ekki að bæta fyrir það sem gerðist. Það er ekki hægt.“

Ragnar Þór fékk ekki að vita hvaðan ásökunin kom og veit ekki enn. Það eina sem er orðið alveg ljóst er að hún kom ekki frá barni. Hún kom frá einhverjum fullorðnum aðila sem vildi koma höggi á Ragnar. „Ég vissi ekkert hvaðan. Viðkomandi er líklega sjúkur og á bágt. Það varð síðan fljótt greinilegt að ásökunin var svo óskýr að til þess að fylgja henni eftir þurfti að rannsaka alla starfsævi mína mjög nákvæmlega.“

„Skárra að verða fyrir ranglæti en að beita því sjálfur“

„Ég hef ekki alið með mér reiði eða neikvæða tilfinningar gagnvart þeim sem gerði þetta. Og þrátt fyrir allt þá trúi ég að það sé rétt að það er skárra að verða fyrir ranglæti en að beita því sjálfur,“ segir Ragnar. „Málið allt var þó mikil æfing í að komast að því hvaða mann ég hefði raunverulega að geyma og hvort ég væri fær um að hafa vald yfir tilfinningum mínum og viðbrögðum. Það hefði verið auðvelt að sökkva í reiði, heift og gremju eða hefnigirni. Mér hefur þó tekist það hingað til að tækla þetta með sæmd held ég,“ segir Ragnar Þór.

Þetta atvik segir Ragnar Þór að hafi ekki breytt neinu varanlega í lífi hans. Vissulega hafi þetta verið áfall en hluti af lífinu sé að glíma við áföll: „Svo er spurning hversu vel við nýtum áföllin til að verða aðeins reynslumeira og betra fólk,“ segir Ragnar Þór.  „Ef ég væri á einhvern hátt hræddur eða fælinn við að tækla þetta verkefni þá hefði ég aldrei opinberað það. Það hefði bara horfið í þögnina. Ég treysti mér til að vinna úr þessu áfalli eins og ég vona að ég muni geta unnið úr öðrum áföllum sem ég mun mæta.“

Það þarf að sinna öllum nemendum

Þegar við víkjum talinu að starfi kennara nú til dags segir Ragnar Þór, að vissulega séu verkefni kennara viðameiri en þau voru hér áður og fyrr. „Kennarar geta ekki lengur mætt á staðinn, þulið staðreyndir, prófað og látið það nægja. Þeir hafa ekki lengur möguleikann á að hunsa vanda nemenda og sinna aðeins þeim sem standa sig vel. Þeir þurfa að sinna öllum,“ segir Ragnar Þór. „Þessi breyting hefur ekki orðið á tíu árum, heldur hægt og rólega yfir miklu lengri tíma. Kennsla er miklum mun erfiðara starf en það var.“

Að Ragnars mati eru agamál alls ekki verri nú, en þau voru og segir hann að meirihluti nemenda komi vel fram og sé til fyrirmyndar. „Það þýðir þó ekki að þeir glími ekki við allskyns erfið mál sem reyna mikið á kennarann. Það er eflaust mismunandi eftir kennurum, hópum og skólum – en samskipti kennara og nemenda eru almennt séð góð og uppbyggileg fyrir alla,“ segir Ragnar Þór.

Meira um að nemendur séu undirseldir dyntum kennara

„Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það þurfi að valdefla nemendur mun meira, því nemendur hafa ekki sérlega sterka stöðu. En um leið kenna þeim að axla ábyrgð,“ segir Ragnar Þór aðspurður um stöðu nemenda og kennara. Hann segir jafnframt að nemendur séu oft á tíðum undirseldir dyntum kennara frekar en að kennarar séu á valdi nemenda.

Ragnar Þór segir að, að sjálfsögðu, eigi börn eiga að njóta ríks réttar. „Það sem er að í kerfinu er að það virðist ekki vera gert ráð fyrir þeim möguleika að kennarar geti orðið fórnarlömb árása eða ofbeldis. Það er samt algjör heimska að gera ekki ráð fyrir því,“ segir Ragnar Þór „Sjálfur veit ég um mörg dæmi. Í slíkum tilfellum er kennarinn varnarlaus því kerfið treystir sér ekki til að taka á málum sómasamlega. Það vantar þessa ferla og þessi viðbrögð. Fyrir því er ég að berjast. Það á ekki að stilla þessu upp sem slag milli kennara og nemenda. Það á að horfa á þetta sem almenna, raunverulega vernd gegn ofbeldi og kúgun. Fyrir alla“

Of lítið framboð af hjálp

Það sem Ragnar segir að sé erfiðast við að starfa við kennslu í dag er að kerfið er að mörgu leyti illa í stakk búið til að fást við þyngstu og erfiðustu málin. Stoðkerfið utan skólanna, t.d. barnavernd og barnageðvernd, er að vinna við skilyrði sem eru ekki ásættanleg. „Það er of lítið framboð af hjálp og gríðarleg eftirspurn. Það verður til þess að erfið mál batna oft ekki heldur versna sífellt. Margir lenda í þeirri stöðu að gefast upp,“ segir Ragnar Þór.  „Það er erfitt verk að hjálpa börnum í miklum vanda og raunar ekki á færi venjulegra kennara. Það er líka hættulegt að gefast upp á börnunum.“

Ragnar Þór segir að það séu of mörg börn sem sitja heilu skóladagana og fá ekkert nám við hæfi vegna þess að þau hafa ekki verið móttækileg fyrir því sem skólinn hefur getað boðið. Börn í vanlíðan munu svo á endanum yfirleitt alltaf sýna vanlíðanina í hegðun: „Og þótt hegðunin reyni oft á kennara, stuðningsfulltrúa og samnemendur þá eru þeir erfiðleikar í raun aukaatriðið. Það má margfalda hinar neikvæðu afleiðingar hegðunar fyrir aðra með tíu og samt ekki vera kominn með þann skaða sem barnið sjálft er að verða fyrir,“ segir Ragnar Þór réttilega og bætir því það vanti meiri væntumþykju í skólakerfið og minna af kerfisbundnum aga.

Spennandi en erfitt að vera kennari

„Það á frekar að byggja upp góðar manneskjur sem hafa heilbrigða sjálfsmynd og góð tengsl við aðra en að rembast við utanbókarlærdóminn. Best er þó ef metnaðarfullt nám og mannræktandi umhverfi fer saman,“ segir Ragnar Þór. „Kennarar í dag hafa margvísleg verkefni en um leið opnast möguleiki á skapandi þróun í starfi. Það hefur aldrei verið meira spennandi að vera kennari, en um leið sjaldan verið erfiðara heldur,“ segir þessi metnaðarfulli kennari að lokum.

SHARE