„Pabbi, ég vil ekki stríð, ég vil bara leika mér“

sárt er að sjá barn sitt gráta.

Nú eru umgengnis- og forræðisdeilur í opinberum umfjöllunum og mikil reiði skapast í kringum þá umræðu. Karlar sem telja á sér brotið með tálmunum og konur sem segja að þær  séu að vernda börnin fyrir ofbeldi þessarra sömu karla. Þeir virðast hafa fundið einhverja glætu í því að koma þessum konum í umræðuna með því að flokka þær sem tálmunarmæður. Flestir eru þessir menn með langa sögu um ofbeldi, en þeir þræta fyrir það, þó gögn tali öðru máli og saga barnanna og móður er gerð að engu í því að hún sé að beita barnið “tálmunarofbeldi”.

Ekki finnast neinar rannsóknir um hvernig börnum reiðir af í forræðisdeilum. Það er mikið talað um hvernig skilnaður hefur áhrif, og það hefur alltaf djúpstæð áhrif á börn. Og enn meiri áhrif ef þau upplifa ofbeldi og ef ekki er staðið við umgengni. Ekki gleyma því að karlar tálma líka. 

“For more than five thousand years, men—fathers—were legally *entitled* to sole custody of their children. Women—mothers—were *obliged* to bear, rear, and economically support their
children. No mother was ever legally entitled to custody of her own child”

“Today more and more mothers, as well as the leadership of the shelter movement for battered women, have realized that battered women risk losing custody if they seek child support or attempt to limit visitation. Incredibly, mothers also risk losing custody if they accuse fathers or physically or sexually abusing them or their children—even or especially if these allegations are supported by experts.”

MOTHERS ON TRIAL
Phyllis Chesler phsychologist
Published August 05, 2011 

Tálmun er vond. Hún er vond fyrir foreldrana og börnin. En hún er réttlætanleg í tilfellum þar sem börn, sem ekki geta staðið með sjálfum sér eru beitt ofbeldi. Þau eru jafnvel búin að tjá sig um það í leikskóla og skóla, mæður hafa þurft að leita til kvennaathvarfs og barnaverndar eftir aðstoð.  Það er ekki nema í þeim svæsnustu málum, þar sem barnið hefur þegar hlotið gífurlegan skaða af ofbeldinu að barnavernd stekkur til og hjálpar.  Fram að því er konunum sagt að halda þessum mönnum sjálfum frá heimilinu, fá sér neyðarhnapp, öryggiskerfi og hringja í lögregluna.  Þær standa í því jafnvel í mörg ár. Þurfa að hringja í lögregluna ótal sinnum í niðurlægandi neyð, með einhvern bandóðan mann fyrir utan, berjandi allt að utan, þeir brjótast inn og ráðast á, niðurlægja þær fyrir framan börnin, nágranna og ókunnuga.

Svo loks ná þær að koma þeim út af heimilinu, því þeir voru að skaða börnin með ofbeldi og vera hreinlega ömurlegar fyrirmyndir um framkomu.  En það vita flestir að um leið og þeir hafa misst tökin inni á heimilinu að þá missa þeir virkilega stjórn á sér, og aðferðirnar sem þeir nota verða harðari og lævísari og ógeðslegri.

En það sem almenningur veit ekki, er að eftir nokkur ár í svona samböndum eru konur orðnar kengbognar og klikkaðar af kvíða yfir því hvað gerist næst.  Þær eru oft mörgum árum seinna að gá í kringum sig hvort þeir séu þarna. Barnavernd er einhvernveginn ekki með tak á þessum mönnum. Þeir eru ekki skráðir með lögheimili barnanna og þar af leiðandi eru þeir ekki ábyrgir. Þannig að konurnar eru gerðar ábyrgar fyrir þessu ofbeldi.  Körlunum er mögulega vísað í Karlar til ábyrgðar, sem eitthvað úrræði til þess að sýna fram á að vera að gera eitthvað.  En þeim eru ekki settir neinir úrslitakostir. En konum er sagt að ef þær losna ekki undan þessu verði farið í að taka börnin af þeim.

Staðan er þannig að þær biðja um aðstoð og það sem er í boði er ekki að hjálpa, og þær þurfa sjálfar í lifa í hryllingnum og martröðinni á hverjum degi. Þær þurfa að fá nálgunarbann, sem er bara pappír sem gerir ekki neitt fyrir menn á þessum kalíber. Þær upplifa sig algjörlega einar og þeim er hótað af ættingjum mannanna jafnvel líka. Kvennaathvarfið er statt í Reykjavík og þar eru konur að koma úr öllum áttum, oft erfitt og þrúgandi ástand þar inni með börnin, brotin börn, innan um önnur brotin börn og aðrar brotnar konur. Þær þurfa svo að fara þaðan með börnin í skóla og sjálfar í vinnu, þar sem þær eru eins og bráð á skotvelli. Þær þurfa að hafa áhyggjur af fjölskyldu sinni alltaf og hvort mennirnir standi við hótanirnar. Þeim er í raun aldrei borgið.

Þegar svona er ástatt, er streitan svo mikil, og áfallið svo viðvarandi að konur missa tengingu við allt sem veitir ánægju, njóta þess ekki að vera mömmurnar sem þær ætluðu að vera börnunum sínum, frjáls og glöð. Það er búið að svipta börnin því að alast upp í öryggi og trausti. Börnin sjálf verða fótalaus í þessum málum og þetta endar ekkert bara þar.  Þegar þau fara í umgengni til svona manna upplifa þau ofbeldi þar og koma brotin til baka trekk í trekk. Þau eru kvíðin og jafnvel með sjálfsvígshugsanir útaf þessu.

En samt. Þrátt fyrir þetta, er karlanna réttur að fara í forræðisdeilur ofan á allt þetta og þar geta þeir, með kerfinu, haldið áfram að lumbra á þessu konum og börnum. Þeir þræta fyrir allt ofbeldið sem gerðist árunum áður, þó það standi svart á hvítu í gögnum. Þeir skrifa greinar í fjölmiðla og titla þær tálmunarmæður, jafnvel þó þær hafi bara í örfáum tilfellum reynt að koma í veg fyrir umgengni vegna þess að börnin hafa  ekki viljað það sjálf, vegna ofbeldis. Eða jafnvel þó  börnin séu logandi hrædd við feður sína.

Sumir karlar fara í hverja forræðisdeiluna á fætur annarri, þó þeir séu jafnvel með umgengni, sameiginlega forsjá og þeim séu boðnar sáttaleiðir ítrekað. Þeim er jafnvel boðin sáttameðferð af færum sálfræðingum sem sjá um að sætta svona deilur, en þeir slá allt út af borðinu og einblína fast á það að taka börnin af konunni sem þeir hata svo mikið fyrir að hafa hafnað sér mörgum árum áður.

En þetta er ekki leikur. Ef þeir væru færir um að líta inn á við og hugsa fyrst og fremst um öryggi og velferð barna sinna, ef þeir gætu bara hætt að hugsa um að knésetja þessar konur sem þeir hafa þráhyggju fyrir að meiða. Ef þeir gætu bara andað djúpt og reynt að komast að einhverju samkomulagi. Fengið sér þroskapillu og hugsað um börnin. Þeirra litlu ómótuðu sálir eru sérstaklega opnar fyrir áreiti og áföllum sem þessum og mörg ár af þessu rugli skaðar þau til frambúðar. Þau eru jafnvel ung farin að ræða um það að þau vilji ekki lifa, því þau þurfa stöðugt að búa við þetta. Karlarnir láta þau vita að þeir séu að berjast fyrir því að fá þau, þau eru leidd fyrir dómara og þurfa svo að bíða í marga mánuði eða ár eftir úrskurðum.

Börn eiga rétt á að umgangast báða foreldra sína, en það er ekki börnum í hag að vera hjá foreldrum sem ítrekað beita þau ofbeldi. Það er engum til góðs að stunda netníð á móðurina, þó það kitli hefndarþörfina. Stoppið núna. Andið djúpt, og hugsið. Þetta er ekki leikur. Þið lifið aðeins einu sinni og börnin líka. Ekki skemma lífið þeirra. Ef þau eru raunverulega það kærasta sem þið eigið, fáið þá lánaða skynsemi.

Áður en það er orðið of seint.

SHARE