„Pabbi minn er engin hetja“

Sigurður Pétursson komst í fréttir nýverið vegna sjávarháska sem hann lenti í á báti sínum á leiðinni frá Íslandi til Grænlands. Það sem hinsvegar vakti athygli lesenda var það, hversu mikill aldursmunur er á milli Sigurðar og barnsmóður hans sem er bara 19 ára, en hann er sjálfur tæplega sjötugur. Mikil umræða fór í gang og fólk virðist alls ekki vera sammála í þessum efnum. Sumir vilja meina að við eigum að virða venjur annarra landa, ekki skipta okkur af því sem okkur kemur ekki við. Aðrir segja að þetta sé níðingsháttur og eigi ekki að eiga sér stað.

 

Mynd frá Facebook síðu Iceman https://www.facebook.com/pages/Captain-Sigurdur-The-Iceman-Petursson/278218055546484
Mynd frá Facebook síðu Iceman

 

Við fengum Guðbjörgu Ýr, 35 ára gamla dóttur Sigurðar til að setjast niður með okkur og ræða hennar upplifun af þessu öllu saman. Hún segir okkur frá kynnum sínum af Önnu, litlu systur sinni og stormasömum samskiptum hennar við Sigurð, föður sinn.

 

Fór í fyrstu ferð til Grænlands með vinum sínum

 

„Þetta var að mig minnir um 1997 en hann hafði bara verið þarna í nokkra daga þegar hann ákvað að þarna myndi hann vilja búa. Hann kom heim til Íslands gekk frá sínum málum og flutti til Grænlands,“ segir Guðbjörg í samtali við Hún.is.

 

T il að byrja með var Sigurður að vinna hjá hreindýrabónda á suð- vesturströnd Grænlands en fluttist á austurströndina um 1998. Í bænum sem heitir Kuummiut og er á Ammasalik svæðinu er mikil fátækt og um 90% atvinnuleysi og Guðbjörg segir að fólkið á þessu svæði sé alveg einstaklega harðgert.

 

Kynntist ungu stúlkunni í gegnum fyrrverandi sambýliskonu

 

„Fyrsta konan sem hann átti var mun nær honum í aldri eða um fimmtugt en þau eignuðust aldrei barn saman,“ segir Guðbjörg og bætir því við að hann hafi kynnst Önnu, núverandi sambýliskonu sinni í gegnum fjölskyldu fyrri konu sinnar.

 

„Anna hafði verið mikið inni á heimilinu og ég man eftir henni frá því hún var bara bara barn. Hún var rosalega horuð sem barn og mikil eymd var í kringum hana í fjölskyldunni,“ rifjar Guðbjörg upp. „Móðir hennar fékk krabbamein, pabbi hennar er mikill drykkjumaður og bróðir hennar tók sitt eigið líf.“

 

Stúlkan svaf uppí hjá Sigurði

 

Um árið 2010, þegar Anna er svona um 13-14 ára aldurinn kemur Guðbjörg í heimsókn til Grænlands. „Ég gæti alveg sagt að ég telji að þetta samband hafi verið byrjað þá en ég veit það ekki 100%,“ segir Guðbjörg og bætir við að hún hafi fundið til með þessari smávöxnu ungu stúlku. „Það má alveg segja að ég hafi hvatt pabba til að vera í samskiptum við Önnu því hún átti bara svolítið bágt. Hann veitti henni hlýju og gaf henni að borða og kom meira að segja til Íslands með hana 14- 15 ára gamla.“

 

Þegar Sigurður og Anna komu til Íslands gistu þau hjá Guðbjörgu og það vakti athygli Guðbjargar að Anna vildi gista upp í rúmi hjá Sigurði: „Mér fannst þetta mjög spes en ég treysti pabba bara, en að sama skapi finnst mér ég vera samsek í þessu því tæpu ári seinna er Anna ófrísk.“

 

Var farin að skaða sjálfa sig

 

Samkvæmt Guðbjörgu fór hún út i júní árið 2011 og segir hún að það hafi verið augljóst að eitthvað var að hjá Önnu. „Hún var öll sundurskorin á handleggjunum og í bátsferð sem þau fóru í tekur hún upp haglabyssu sem var um borð og segist ætla að skjóta sig og hún var í miklu andlegu ójafnvægi.“

 

Eftir á varð Guðbjörgu það ljóst að á þessum tíma hefur stúlkan verið orðin barnshafandi.

 

„Maður fer í gegnum allan tilfinningaskalann. Það er verst að ég byrjaði á því að verja pabba og segja að Anna hljóti að hafa reynt við hann. Maður verður bara svo klikkaður að lenda í þessu í fjölskyldunni sinni,“ segir Guðbjörg og bætir við: „Hún var barn sem leitaði til hans í leit að hlýju og hann bregst þessu trausti.“

 

Janframt segir Guðbjörg að pabbi hennar hafi aldrei talað um þetta opinskátt við hana. Þeim feðginum lenti saman í þessari heimsókn og skildi Sigurður Guðbjörgu eftir á næsta bæ en hún fór svo með næsta flugi heim. „Hann höndlaði það bara alls ekki að ég væri að reyna að tala um þetta við hann,“ segir Guðbjörg.

 

Fótatak drauganna?

 

Sigurður veikist svo og kemur heim í byrjun árs 2012 og fær þá að dvelja hjá Guðbjörgu en þess má geta að þarna vissi hún ekki ennþá að Anna væri ófrísk. Sjálfstætt fólk heimsækir Sigurð til Grænlands og segir Guðbjörg að hún hafi einmitt tekið eftir áhugaverðu atviki í þættinum hjá Jóni Ársæli:

 

„Í þættinum heyrist fótatak uppi og Jón Ársæll spyr hann hvort þetta sé fótatak sem hann heyrir og þá svarar pabbi bara: „Nei ætli þetta séu ekki bara draugarnir?“. Þá hefur þetta væntanlega verið Anna, ófrísk á efri hæðinni,“ segir Guðbjörg. Hún segir jafnframt að hún hafi eftir þetta farið að heyra hér og þar að unga stúlkan væri ófrísk og svo fóru sögur að berast um að hún væri búin að eiga og að Sigurður væri pabbinn.

 

„Ég hélt að þetta væri bara kjaftæði og það var ekki fyrr en að ég rambaði inn á Facebook síðu Önnu í október að ég sá að það var komið lítið barn sem hafði fæðst í febrúar. Ef honum finnst hann ekki hafa verið að brjóta neitt af sér, af hverju var hann þá að fela þetta alla meðgönguna og barnið?“ veltir Guðbjörg fyrir sér.

 

„Hann er engin hetja“

 

„Pabbi minn hefur alltaf komið fram í fjölmiðlum og er látinn líta út eins og einhver hetja sem mér finnst hann ekki vera. Hann á að vita betur og við þurfum líka að gera það upp við okkur sem samfélag hvort okkur finnist þetta vera í lagi. Ef við setjum íslenska stelpu í stað Önnu í þessar aðstæður þá yrði allt brjálað!“ segir Guðbjörg og bætir við: „Hann er engin hetja. Það er engin hetjudáð að vera fyllibytta sem flytur til Grænlands og barnar barn.“

 

„Síðustu samskipti sem við áttum voru 2013 þegar hann sagði mér frá því að hann hefði tekið völdin af Önnu og lét hana fara í fóstureyðingu gegn hennar eigin vilja, en Anna varð aftur barnshafandi árið 2013. Hann sagði við mig: „Hún fékk að eiga eitt barn, hún fær ekki að eiga annað!“ Eftir það get ég ekki haft samskipti við hann. Mér finnst hann bara ógeðslegur!“

 

Vill ekki að sömu örlög bíði litlu systur sinnar

 

„Þetta er svo erfitt líka af því í þessu öllu er þessi litla stelpa, sem er litla systir mín. Mig langar að vera til staðar fyrir hana og hún eigi alltaf öruggt skjól hjá mér ef hún þarf á því að halda,“ segir Guðbjörg og bætir við: „Kannski eru þau öll hamingjusöm á sinn hátt en það breytir því ekki að það er rangt sem pabbi minn gerir. Anna leitar í hann að hlýju og öryggi og hann misnotar traust hennar.“

 

Guðbjörg segir erfitt til þess að hugsa að litla systir hennar sé að alast upp á þessum stað og hún megi ekki til þess hugsa að hún endi með rígfullorðnum manni um 14- 15 ára aldur. „Ég stórefa að pabbi vilji að dóttir hans hljóti þessi örlög þegar hún verður unglingur.“ Henni finnst líka erfitt að horfa upp á meðvirknina í fólkinu í kringum hann: „Fólkið sem að ver þetta er fólk sem er feður, mæður o.s.frv. sem myndi aldrei samþykkja að börnin þeirra eða barnabörn lentu í svona.“

 

———————-

 

Hvað finnst ykkur um þetta kæru lesendur? 

SHARE