Perluskreyttur rósakertastjaki

Vitið þið hvaða lag mér datt í hug þegar ég var við það að klára þetta verkefni? Diamonds and pearls með Prince, eitt af mínum uppáhaldslögum. Það eru að vísu ekki demantar á þessum kertastjökum, en nóg af perlum.

Jæja, byrjum. Þessi hugmynd kviknaði við að ég var að róta föndurdótinu mínu og fann þessi rósablöð (já, það gerist, ég finn hluti sem ég keypti fyrir 5 árum síðan og gleymdi fyrir 3 árum) og vissi að ég yrði að fara að gera eitthvað úr þeim. Svo voru þessir kertastjakar á 70% afslætti þannig að ég greip þá, svo fór ég í Rauðakrossinn og fann perlufestar og 2 skotglös og 1 púrtvínglas (held ég, eina áfengið sem ég drekk er Breezer þannig að ekki spyrja mig um hvaða vínglös er fyrir hvað) og svo bætti ég við einum perlupoka úr Tiger og perlulímmiðum. Og til að koma þessu saman þá þarf lím og límbyssu og E6000 (uppáhaldið mitt). Og svo auðvitað kerti, mæli með batterískertum.

Ég stakk límbyssunni í samband og límdi rósablöðin á kertastjakana. Limið kom aðeins í gegnum rósablöðin en með því að láta bara límdropa neðst á blaðið og gera 2 raðir þá sást það ekki.

Ég seti perlulímmiða neðst á stjakana. Ég átti 2 stærðir þannig að stærri stjakinn fékk aðeins stærri perlur en hinir (enga öfundsýki, þið vitið að eldra barnið fær stundum að gera hluti sem yngra barnið fær ekki).

Ég setti perlur í skotglösin og það sem ég hef ákveðið að sé púrtvínglas.

Svo var komið að því að líma stjakana á glösin. Það sem mér finnst virka best er að láta fyrst E6000 á barminn á glasinu og svo heita límið. Ég setti svo bækur ofan á til að þrýsta öllu saman og lét það vera þannig í nokkra klukkutíma (E6000 er 24 tíma að taka sig fullkomlega).

Svo var bara að kveikja á kertunum og hlusta á Prince syngja um demanta og perlur (hann gæti þess vegna verið að syngja um þessa kertastjaka).

SHARE