Persónulegt og fallegt lyklahengi

Ég viðurkenni fúslega að þessi snagi er eitthvað sem ég hefði aldrei litið tvisvar á úti í búð, en þegar snaginn fór á útsölu þá snéri ég við vegna þess að ég vissi að ég gæti gert eitthvað flott við þetta. Og svo sannarlega gerði ég það.

Ég byrjaði á því að losa snagana með skrúfjárni og reif svo efnið af (sem var reyndar léttara en ég bjóst við). Ég setti svo smá trélím ofan í holurnar eftir skrúfurnar þar sem snagarnir voru til að fela þær og pússaði svo til að fá sléttan hreinan flöt.

Ég málaði svo allt fjólublátt, beið þangað til að málingin þornaði, bar á efni sem heitir „crackle medium“, beið eftir að það þornaði og fór svo yfir með hvítri málingu. Ég veit að það að fylgjast með málningu þorna er ekki alltaf það mest spennandi í heimi, en í þetta skipti þá var það virkilega spennandi vegna þess að „crackle medium“ gerir það að verkum að seinni málningin brotnar og fyrri málningin kemur í gegn. Passaðu þig bara að hafa seinni málningarumferðina ekki of þykka og ekki fara 2 umferðir. Og já, ég notaði hárþurrkuna til að flýta fyrir, hvað get ég sagt? Ég var á leiðinni í afmæli, þetta var gjöfin og „crackle medium“ flaskan kom úr pósti deginum áður.

Svo var komið að textanum. Ég notaði sömu aðferð og þegar ég gerði https://www.hun.is/falinn-fjarsjodur/.

Í stuttu máli þá prentaði ég út “velkomin”, fór yfir á röngunni á blaðinu með blýanti, fór svo yfir útlínunar með blýanti þannig að þær fluttust yfir á skiltið og svo var það bara fjólubláa málinginn og mjög fínn pensill. Og smá ráð, ef þú átt börn, bíddu þangað til að þau eru farin í skólann, í heimsókn hjá vini eða sofnuð. Mín börn hafa verið alin upp af föndurmömmu, og vita hvenær föndurmamman þarf að einbeita sér.

Ég fór svo þetta allt með lakki. Maðurinn minn átti þessa króka sem voru fullkomnir fyrir lykkla, ég mældi út fyrir þeim, merkti og boraði þá inn. Dálítið flott ekki satt? Og þökk sé hárþurrkunni, tilbúið í tíma fyrir afmælið.

 

 

SHARE