Pönnukökurnar hennar ömmu minnar

Ljósmynd: Þóra Breiðfjörð

Þegar ég helli í pönnukökur þá get ég stólað á að fá heimsókn. Ilmurinn af nýbökuðum pönnukökum er náttúrulega bara ómótstæðilegur og skil ég vel fólkið sem sogast inn um dyrnar til mín um leið og ég byrja. Þessi uppskrift kemur upprunalega frá henni Hönnu ömmu minni en hún notaði mjög sjaldan nákvæmar uppskriftir. Mamma mín tók hana upp eftir henni og ég eftir mömmu minni. Allaveganna er eitt víst að uppskriftin kemur beint frá hjartanu og þá er næsta víst að hún bragðist vel.

Best finnst mér að setja brúnan kókossykur ofan á mínar pönnukökur, sulta og rjómi er náttúrulega klassík eða síróp en dóttir mín toppaði þetta þrennt á mæðradaginn og bakaði handa mér pönnukökur  sem hún bar fram með hnetusmjöri og berjum. Já svona þróast uppskriftir kynslóð fram af kynslóð.

Uppskrift:
3 bollar fíngert spelt eða hveiti
½ tsk salt
2 egg
50 grömm smjörlíki
½ tsk vanilluduft eða 1 tappi vanilludropar
4-5 dl mjólk
Slatti af kaffi til að þynna út með í lokin, ef ykkur finnst kaffi vont þá er líka gott að nota hnífsodd af chai í staðin.

Aðferð
Þurrefni sett í skál og þynnt út með mjólk, egg hrærð útí. Smjörlíki brætt og hellt útí ásamt kaffinu. Passa þarf að hræra vel í allan tíman svo ekki komi kekkir. Í staðin fyrir kaffi er líka gott að setja chai duft sem gefur mjög gott bragð.

Verði ykkur að góðu.

 

SHARE