Rauða hrafnsfjöðrin: Sex forvitnilegustu kynlífslýsingar ársins 2014

Lestrarfélagið Krummi kynnir tilnefningar til Rauðu hrafnsfjaðrarinnar sem veitt er fyrir forvitnilegustu kynlífslýsingu ársins 2014 í íslenskum bókmenntum. Tilnefningarnar eru sex að vanda.

Óvenju mikið er um kynlífslýsingar í skáldverkum ársins og má eflaust þakka Rauðu hrafnsfjöðrinni þá ánægjulegu þróun, enda hefur kynlífslýsingum fjölgað jafnt og þétt frá því verðlaunin voru fyrst veitt fyrir átta árum.

Rithöfundurinn Sjón hlaut Rauðu hrafnsfjöðrina 2013 fyrir Mánastein og í þakkaræðu sinni við afhendingu viðurkenningarinnar sagðist hann einmitt hafa hugsað til Rauðu hrafnsfjaðrarinnar er hann skrifaði kynlífslýsingarnar í bókinni, en á forsíðumynd má sjá Sjón með Rauðu hrafnsfjöðrina. Hjá honum stendur Karl Blöndal sem afhenti viðurkenninguna.

Rauða hrafnsfjöðrin hefur verið veitt átta sinnum áður og eru fyrri vinningshafar:

2006 Eiríkur Örn Norðdahl fyrir Eitur fyrir byrjendur

2007 Elísabet Jökulsdóttir fyrir Heilræði lásasmiðsins

2008 Hermann Stefánsson fyrir Algleymi

2009 Steinar Bragi fyrir Himininn yfir Þingvöllum

2010 Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir og Magnús Þór Jónsson, Megas, fyrir Dag kvennanna – ástarsögu

2011 Sigríður Jónsdóttir fyrir ljóðasafnið Kanil

2012 Auður Ava Ólafsdóttir fyrir Undantekninguna

2013 Sjón fyrir Mánastein

Rauða hrafnsfjöðrin verður afhent á aðalfundi Lestrarfélagsins Krumma í febrúar næstkomandi.

 

Tilnefningar 2014:

.

„Amma er með krækiberjasafa á rassinum. Hún lokar augunum til að fá ekki ofbirtu í augun. Guð hefur fullkomið typpi. Ekki of stórt og ekki of lítið. Það er alveg hreint afbragð. Amma breiðir út faðminn í berjalynginu. Gefur sig alla. „Þú mátt eiga mig,“ segir amma. Guð brosir blíðlega og sleikir krækiberjasafann af rassinum á henni.“

Soffía Bjarnadóttir, Segulskekkja. Mál og menning.

.

„Yfir þvaður er Þura hafin

þar liggur samt hundurinn grafinn

að hún væri mey

hefði hún ei

hrasað um göngustafinn.“

Siðsöm kona í Hverafuglum eftir Einar Georg. Mál og menning.

.

„Og það sem á milli þeirra var: þau hin fegurstu og þroskuðustu kynfæri, sem ég hafði fram til þessa augum litið á manni af hvítum kynþætti. Kviðarhárin náðu yfir lítið svæði, en voru samt óvenju þétt og dökk. Eistu og pungur sömuleiðis dökk, og þroski þeirra slíkur, að svo virtist sem hvort eista um sig gæfi ekki eftir miðlungs eggi að stærð. En það sem var þó kóróna alls þessa var sjálfur limur piltsins, sem nú var í fullri spennu, tinandi í takt við hjartslátt hans, og beið snertingar minnar – á hvern þann hátt sem mér helst þóknaðist. Óvenjulega dökkur, allt að því svartur í hálfrökkrinu; forhúðin uppbrett og reðurhöfuðið gljáandi af frygð; þykkt hans í fögru samræmi við lengdina – hann náði vænan spöl uppfyrir nafla.“

Gestur á nýársnótt i Elíasarmálum, Sögum og greinum Elíasar Mar.

 .

„Sara nýtur þess að láta alvörukarlmann handleika sig. Hún er afslöppuð. Púlsinn hækkar. Spenna losnar úr læðingi og hún fær djúpa kröftuga fullnægingu. Hún hélt að það væri ekki í mannlegu valdi að fullnægja konu með þessum hætti. Þetta var eins og eldgos á Jónsmessunótt.“

Rogastanz eftir Ingibjörgu Reynisdóttur

.

„Hárið er um allt rúm, glansandi makkinn á Gemmu er í ástarleik, hylur helminginn af mér, helminginn af henni, ég strýk henni um makkann vel og vandlega, hann er merkilega grófur viðkomu, allar þær stundir sem ég hef unað mér við að strjúka faxið á Stjörnu, faxið á Nökkva …“

Gæðakonur eftir Steinunni Sigurðardóttur

 .

„Á örskotsstund upplifði hún samneyti þeirra allt. Heita og mjúka tungu hans með bragði af reyk og vodka. Fálmandi fingur og lim inni í henni; nema að sú minning var svo óraunveruleg að það var meira eins og ímyndun. Sársaukinn eins og verstu túrverkir í heimi og sönnunin fyrir verknaðinum allt annað en tilkomumikil; blóð hennar útþynnt af slímugum vökva sem sat eftir á sölnandi grasi og stráum þetta óvenjuhlýja og stillta kvöld í lok september.“

Englaryk eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur

.

„Þau rifu hvort annað úr fötunum og féllu á rúmið hennar svo ískraði í því, heit og sveitt, uppfull af ákafri girnd. Garún fann hann upp við sig, harðan og spenntan, og ákefðin magnaðist upp þar til þau gáfu undan og runnu saman í hvort annað. Hljóð, stunur, andköf, guðlast; hold upp við hold, rakt og ljúffengt og hungrað.“

Hrímland eftir Alexander Dan Vilhjálmsson

.

„Hún hló. Fór hjá sér. Bað hann um að fara. En honum varð ekki hnikað, hann sagðist vilja skila við hana með skopparakringluna á fullum snúningi. Svo sneri hann hring eftir hring með tungunni litla gúmmíhúðaða koparhnúðnum. Smurði málminn svo snúningurinn yrði nægur til að fyrirgefningin næði eyrum hennar. Fyrirgefðu mér. Já, hvíslaði hún í frygðinni. Ekkert að fyrirgefa.“

Ástarmeistarinn eftir Oddnýju Eir Ævarsdóttur

Þá og nú: Svona var að vera Playboy Leikfélagi á árum áður

Sex mýtur um konur sem njóta kynlífs

50 hlutir sem þú VERÐUR að gera í kynlífinu áður en þú deyrð

SHARE