Raunverulegar konur – Brynja Dan

Við birtum í byrjun vikunnar fyrstu grein af nokkrum um raunverulegar konur. Okkur langar að vekja fólk til meðvitundar um hvað er raunverulegt og hvað eru glansmyndir. Áhrifavaldar birta myndir af sér, sem líta út fyrir að vera teknar án mikils undirbúnings og eru samt sem áður fullkomnar. Ungar stúlkur, sérstaklega, hafa óraunhæf viðmið um fegurð og hvað er venjulegt. Það er án efa erfitt að ímynda sér hvernig gullfallegt fólk getur verið myglað á morgnana, með stírur, koddafar og þornað munnvatn í munnvikunum. En sannleikurinn er sá, að við erum öll venjulegt fólk. Við erum með slit, hrukkur, appelsínuhúð, bauga, inngróin hár, húðþurrk, skelfilega hárdaga og fílapensla. 

Mér datt í hug að fá þekktar konur til að sýna hvernig þær eru ómálaðar og án allrar myndvinnslu og sendi skilaboð á nokkrar konur á Facebook. Viðbrögðin við skilaboðunum voru framar öllum vonum. Flestar voru alveg til í þetta og vildu endilega vera með.

Í dag ætlum við að birta mynd af Brynju Dan en ásamt því að vera áhrifavaldur er hún stofnandi og eigandi Extraloppunnar hér á landi. Ég bað hana, eins og Evu Ruzu, að senda mér mynd þar sem hún væri ómáluð og segja mér frá hennar „rútínu“ varðandi förðun og hvað er ómissandi að hennar mati.

„Ég þríf andlitið mitt tvisvar á kvöldin og skola svo þrisvar með ísköldu á morgnana. Svo nota ég vörur frá Comfort Zone, serum og dagkrem og á kvöldin nota ég augngel og næturkrem. Ég nota kannski ekki mikinn farða en mér finnst maskari og eyeliner must! Ef ég er dugleg að fara í brúnir þá ramma þær alveg andlitið vel inn, svo dökkar og „fluffy“ og svona gera mann minna nakinn í framan.“

Brynja sendi mér mynd sem Helgi Ómars tók af henni á dögunum þar sem hún var ómáluð og auðvitað alveg jafn sæt og vanalega.

SHARE