Rokkgoðið Joe Cocker (70) er látinn

Rokkgoðið og stórsöngvarinn Joe Cocker er látinn, sjötugur að aldri. Banamein hans var lungnakrabbamein og hafði Cocker lengi barist við skaðvaldinn áður en hann laut í lægra haldi þann 22 desember 2014, en þekktastur var Joe Cocker fyrir ballöðurnar You Are So Beautiful og Up Where We Belong. Síðarnefnda ballaðan, sem Cocker flutti með Jennifer Warnes og var jafnframt titillag stórmyndarinnar An Officer And A Gentleman, færði þeim Cocker og Warnes jafnt Grammy sem Óskarskverðlaun.

Cocker, sem var þekktur fyrir hrjúfa röddina sem ljáði flutningi hans tilfinningaþrungna dýpt, hóf ferilinn á búllum og barknæpum í Sheffield á sjötta áratugnum, áður en hann sló í gegn fyrir alvöru og skaut upp á stjörnuhimininn.

Þá skilaði endurflutningur hans á Bítlaballöðunni With A Little Help From My Friends Cocker heimsfrægð og skaut honum upp í fyrsta sæti allra vinsældalista er hann endurflutti lagið fyrir fjölmörgum árum síðan.

Þrátt fyrir harðvítuga baráttu við ólæknandi lungnakrabba hélt Cocker reisn sinni og glæsilegri sigurgöngu í tónlistarheiminum allt fram á síðasta ár og sló þannig sín fyrri aðsóknarmet að eigin tónleikum víðsvegar um Evrópu og rataði á topp þýska vinsældarlistans með breiðskífu sinni.

Rokkgoðið hélt sína allra síðustu tónleika í Hammersmith, London í júní á þessu ári og syrgir tónlistarheimurinn ákaft Joe Cocker, sem er af flestum sagður einn merkasti tónlistarmaður rokksögunnar sem Bretland hefur alið af sér; ef ekki væri fyrir annað en að hafa ávallt verið sjálfum sér samkvæmur í eigin listsköpun fram á allra síðasta dag.

Með því að smella á tengla sem finna má í frétt hér að ofan má hlýða á margar af þekktustu ballöðum Joe Cocker, en hér má hins vegar hlýða á ódauðlega smellinn You Can Leave Your Hat On sem allt gerði vitlaust og Joe Cocker á heiðurinn að, í kvikmyndinni 9 og hálf vika – en kvikmyndin skilaði einnig þeim Mickey Rourke og Kim Basinger viðurkenningu og frægð:

BBC greindi frá

Tengdar greinar:

Grammy 2015: Þessi eru tilnefnd til verðlauna

Svona er Óskarinn búinn til – Myndir

SHARE