„Sjaldnast lognmolla í mínu lífi“ – Marín Manda ætlar að sleppa stífum áramótaheitum þetta árið

Árið 2013 var viðburðarríkt og stútfullt af breytingum hjá Marín Möndu Magnúsdóttur en hún segist alltaf taka breytingum fagnandi. „Árið var uppfullt af mikilli sjálfsskoðun, persónulegum sigrum og dramatískum óvæntum uppákomum. Það ætti kannski ekki að undra þá sem að þekkja mig vel því það er sjaldnast lognmolla í mínu lífi,“ segir Marín Manda. „Ég ferðaðist til borgar ástarinnar, Parísar og nartaði í sætar makkarónur, heimsótti Kaupmannahöfn í sólina og fór á minn fyrsta NBA leik í Boston fyrir jólin. Ferðalög næra mitt sálartetur.“

me

Eitt að því sem að Marín segir að standi upp úr á árinu var að hún var í spennandi námi og bauðst draumavinna upp úr þurru: „Þá stóð ég á tímamótum en ákvað ég að stinga mér í djúpu laugina og sé alls ekki eftir því. Að taka við umsjón Lífsins hjá Fréttablaðinu hefur verið einstaklega lærdómsríkt, gefandi og partur af miklu þroskaferli.“

Marín segist halda í þá dönsku hefð að stökkva inn í nýtt ár hvort sem það sé úr sófanum eða úr stól. „Það veitir furðulega vellíðan og og Danirnir trúa því að þetta hopp inn í nýja árið gefi manni forskot á sæluna þar sem maður hafi hoppað yfir hætturnar og þannig einnig lagt hið gamla ár til hliðar. Ég mun stökkva inn í árið með fjölskyldunni minni, skála í kampavíni á miðnætti og kyssa alla bak og fyrir.“ Hún segist alltaf strengja áramótaheit og gleymi þeim nánast daginn eftir en í ár hefur hún ákveðið að sleppa stífum áramótaheitum. „Ég ætla ekki í öfgafulla megrun eftir jólasteikina og ég ætla ekki skipuleggja allt í þaula. Ég vil helst slaka á kröfunum gagnvart sjálfri mér og lifa í sátt við alla gallana mína. Ég trúi að karma sjái um sína svo ég tek fagnandi á móti nýja árinu. Ég ætla hins vegar að njóta litlu stundanna betur, rækta fagurkerann í mér, segja orðin, “ég elska” upphátt oft á tíðum og leggja réttlætiskenndina til hliðar, öðru hverju.”

 

SHARE