Sjúkdómar og skaðar á taugakerfi vegna vímuefnaneyslu

Þau læknisfræðileg vandamál, sem eiga fyrst og fremst rætur að rekja til neyslu áfengis og annarra vímuefna, eru margvísleg. Hér á eftir verður drepið stuttlega á nokkur þau helstu og þeim raðað upp eftir því til hvaða efna þau eiga rætur að rekja.

Vínandi

Wernicke-Korsakoff’s heilkenni einkennist af Wernicke-þrenndinni (ruglun, truflun á samhæfingu vöðva, augnvöðvalömun) og Korsakoff’s-geðveikinni (mikilli truflun á nærminni þar sem sjúklingurinn skáldar í eyðurnar). Aukin dánartíðni fylgir heilkenninu þegar það er á alvarlegasta stigi, en á vægasta stigi geta einkenni þess farið fram hjá manni.

Skortur Tíamíns veldur miklu um tilurð þessa ástands. Það er því vel réttlætanlegt að gefa hverjum þeim áfengissjúklingi, sem er svo illa haldinn eftir langvarandi áfengisofneyslu, að hann þarfnast innlagnar, einn 50-100 mg skammt af tíamíni í æð eða vöðva, a.m.k. einu sinni. Þegar um er að ræða fullskapað Wernicke-Korsakoff’s heilkenni, svarar Wernicke-hlutinn venjulega vel meðferð með Tíamíni, en Korsakoff’s-hlutinn hins vegar ekki.

Úttaugaskemmdir eiga einnig að verulegu leyti rætur að rekja til skorts á Tíamíni, en ef til vill einnig skorts á öðrum fæðuefnum. Þetta eru samhverfar skemmdir á skyn- og hreyfitaugum. Þær koma fyrst í ljós þar sem taugaþræðir eru lengstir, í endum útlima, oftar í ganglimum en handleggjum. Síðar teygja þær sig nær mænu. Missir viðbragða í Achilles-sin, eða tap á titringsskyni yfir fjarlægari enda fyrsta ristarleggs (metatarsus), eru oft með fyrstu einkennum.

Heilarýrnun hjá miklum ofneytendum áfengis skerðir heilabörkinn meira en hún víkkar út holrúm heilans. Sýnt hefur verið fram á, að rýrnunin getur að nokkru leyti gengið til baka eftir að ofneytandinn hefur haldið sig frá neyslu áfengis um lengri tíma. Sú sjúkdómsmynd, sem fram kemur vegna heilarýrnunar, getur spannað allt frá minniháttar skerðingu á skynjun og greind yfir í greindarskerðingu á hæsta stigi.

Þegar rýrnun litla heila (cerebellum) tengist ofneyslu áfengis kemur hún fyrst og fremst fram í vermis. Afleiðingar þess verða ataktiskur gangur, en önnur stjórnun litla heila, svo sem samhæfing hreyfinga handa (t.d. fingur-nefpróf), þarf ekki að vera verulega trufluð.

Ástand er líkist Parkinsons sjúkdómi sést stundum hjá ofneytendum áfengis. Einstök einkenni sjúkdómsins, eða öll einkenni hans, geta verið fyrir hendi (skjálfti, stífleiki vöðva, hægar hreyfingar o.sv.frv.). Þau hverfa hins vegar af sjálfu sér þegar neysla áfengis hættir.

Subdural hematoma koma tiltölulega oftar fyrir hjá þeim, sem ofnota áfengi, en hjá öðrum hópum, jafnvel eftir mjög smávægilega höfuðáverka, sem ekki var veitt nein sérstök athygli. Þar sem fyrir hendi er rýrnun á heilaberki eru bláæðar heilabastsins teygðar og bresta því við minnsta hnjask. Því er rétt að vera á varðbergi gagnvart slíkum blæðingum hjá þeim sjúklingum, er kvarta undan höfuðverk, eru syfjulegir án þess að augljósar ástæður séu fyrir því, eru áberandi seinir og sljóir í hugsun, eða sýna einhver einkenni frámiðtaugakerfi, er ekki tengjast beinlínis ölvun eða fráhvarfi. Hafa ber í huga, að einkenni hjá þeim, sem eru með heilabastsblæðingu, geta verið sveiflukennd og einkenni um aukinn þrýsting innan kúpu eru ekki algeng hjá þessum sjúklingum. Leiki einhver vafi á um sjúkdómsgreininguna er rétt að fá CT-skönnun af heila.

Sjá einnig: Matarfíkn er sjúkdómur

Truflanir á starfi maga og meltingarfæra, er tengjast ofneyslu áfengis:

Algengar eru bólgur í vélinda og maga af völdum ofneyslu áfengis, sérlega bólgur í maga. Þær valda ýmsum meltingartruflunum og geta valdið bráðum blæðingum, eða hægfara blóðtapi, vegna ýrings úr fleiðrum á bólginni slímhúðinni.

Ofneysla áfengis getur haft neikvæð áhrif á sjúkdómsástand þeirra sjúklinga, sem þjást af maga- eða skeifugarnarsárum og stuðlað að því að sár þeirra ýfist upp.

Þegar einstaklingar, sem eru áfengisofneytendur, eru meðhöndlaðir vegna magabólgu eða maga- og skeifugarnarsára, og notuð eru til þess lyf, sem blokka histaminviðtækið (H2), er rétt að hafa í huga, að RANITIDÍN getur haft ákveðna kosti fram yfir Címetidín. Það veldur síður því að sjúklingur ruglist og framkallar síður stækkun á brjóstkirtli (gynecomastia), en það er mikilvægt hjá þeim sjúklingum, sem eru með lifrarsjúkdóm af völdum áfengisneyslu eða er verið að meðhöndla með spírónólaktón-lyfjum. RANITIDÍN hindrar ekki starfsemi microsomal hvata lifrarinnar, svo eiturverkanir lyfja, sem kunna að vera notuð eða misnotuð samtímis áfenginu, eykst ekki.

Sukralfat (Súkral) er fjölsykrungur með staðbundna, verndandi verkun á yfirborð sára og fleiðra í maga. Það bindur sýrur, hækkar ph í maga, dregur úr áhrifum pepsins og bindur gallsýrur, en hefur lítil eða engin áhrif utan magans. Þetta efni kemur einnig til greina í meðferðinni í stað Címetidíns.

Lifrarsjúkdómar eru algengir fylgikvillar ofneyslu áfengis. Þeim má skipta í þrjá aðgreinda sjúkdóma, sem þó oft skarast hjá sama sjúklingi:

Lifrarbólga getur verið á ýmsum stigum, allt frá því að valda litlum eða engum einkennum yfir í það að vera bráður sjúkdómur með mjög svæsnum einkennum, svo sem hita, gulu, kviðverkjum. Hún getur jafnvel dregið sjúklinginn til dauða. Vægari myndir sjúkdómsins er þó algengari.

Fitulifur er algeng hjá þeim, er stunda daglega neyslu áfengis. Hún getur valdið verulegum truflunum á starfsemi lifrarinnar, ef mikil fita safnast í lifrarfrumur. Fitan hverfur aftur úr frumum lifrarinnar og lifrin endurheimtir eðlilega starfsgetu, hætti ofneytandinn neyslu áfengis.

Skorpulifur er sjúkdómsástand, sem ekki batnar. Það þarf þó ekki að versna eða valda verulegum truflunum hjá þeim ofneytendum, sem hætta neyslu áfengis. Stundum getur skorpulifur þó verið erfitt og lífshættulegt sjúkdómsástand. Vökvasöfnun í kviðarholið, háþrýstingur í portæðinni, æðahnútar í vélinda og truflun á heilastarfsemi vegna lifrarbilunar eru meðal afleiðinga hennar.

Hvorki hin kliniska sjúkdómsmynd né blóðrannsóknir geta skorið úr því með vissu hver þessara lifrarsjúkdóma er fyrir hendi hjá áfengisofneytandanum. Til þess að skera úr um það þarf lifrarástungu.

Briskirtilbólgur koma fyrir hjá ofneytendum áfengis. Stundum koma þær sem skyndilegt kast af bráðri briskirtilsbólgu, en stundum sem bráðabriskirtilbólgukast ofan í langvarandi bólgu, eða sem áframhaldandi og langvarandi eyðilegging briskirtilsins án bráðra kasta. Hvort heldur sem er, getur það leitt til þess að kirtilvefurinn verði smám saman ófær um að framleiða nægan meltingarsafa. Langerhan’s-eyjarnar kunna þá að eyðileggjast einnig, en það getur leitt til sykursýki. Meir en 90% af kirtlinum þarf að eyðileggjast svo afleiðingarnar verði veruleg fituskita (steatorrhea).

Köst af bráðri briskirtilbólgu byrja yfirleitt með skyndilegum verk ofarlega í kviðarholi og er hann verri þegar sjúklingurinn liggur, en dregur úr honum ef hann sest upp. Kviður er ekki nær alltaf spenntur. Einhver þarmalömun (ileus) er gjarnan fyrir hendi, en í misjafnlega miklum mæli. Þegar kastið er svæsið, getur sjúklingurinn tapað miklum vökva út úr blóðrásinni, farið í lost, og nýrnastarfsemi bilað.

SERUM AMYLASI hækkar venjulega snemma í kastinu, en hjá sjúklingum, sem hafa haft langstæða briskirtilbólgu, og fá bráða briskirtilbólgu ofan í hana, þarf serum amylasi ekki að hækka verulega. Rétt er þó að hafa í huga, að aðrir sjúkdómar í kviðarholi geta einnig valdið hækkun á serum amylasa ( t.d, ef gat kemur á maga eða þarma, hengislagæðar lokast, þarmar stíflast, eða við bólgu í eggjaleiðurum). Stundum sjást kalkskellur í briskirtli ef tekin er röntgenmynd af kviðarholi, vinstri hluti þindar getur staðið hátt, vökvi verið í kviðarholi og brjóstholi. Oft sést einnig hypocalcemia (blóðkalsínlækkun).

Breytingar í blóði tengdar ofneyslu áfengis:

Blóðskortur (anemia) hjá þeim, sem ofnota áfengi, er oft næsta flókið fyrirbrigði og getur átt sér marga orsakaþætti.

Til dæmis getur vínandi sem slíkur valdið því, að rauðu blóðkornin verða óeðlilega stór (macrocytosis), svo venjuleg þýðing macrocytosu, sem vísbendingar um uppruna blóðskortsins, minnkar.

Járnskortur er algengur vegna taps á blóði við blæðingar frá fleiðrum á slímhúð magans.

Skortur á fólinsýru sést stundum, að sumu leyti vegna lélegrar næringar, að nokkru vegna þess, að vínandinn truflar upptöku og nýtingu fólinsýru.

Skortur á B12 er sjaldgæfur, en getur þó komið fyrir hjá þeim ofneytendum áfengis, sem hafa briskirtilsjúkdóm á háu stigi (geta ekki klofið B12-R proteinbindinginn).

Sideroblast anemia er talin stafa af því að vínandi geri pýridoxín fósfat óvirkt.

Stytt æviskeið rauðra blóðkorna getur komið fyrir hjá þeim sjúklingum, sem þjást vegna starfstruflunar milta (HYPERSPLENISMA). Þeim veldur háþrýstingur í portæðakerfinu af völdum lifrarskemmda. Stundum, en ekki alltaf, fylgir skortur á hvítum blóðkornum og blóðflögum.

Skortur á blóðflögum (trombocytopenia) vegna eituráhrifa vínanda getur stöku sinnum orðið mjög mikill og getur stundum valdið einkennum, svo sem húðblæðingum (petecchium). Hann stafar af því, að vínandinn truflar starfsemi MEGAKARYOCYTA . Blóðflöguskortinum léttir oftast fljótlega ef áfengisofneytandinn hættir neyslu áfengis, en stundum fjölgar blóðflögunum þá óeðlilega mikið í bili.

Fjölgun hvítra blóðkorna getur stundum stafað af lifrarbólgu vegna ofneyslu áfengis.

Truflanir á efnaskiptum og starfsemi innri kirtla, er tengjast ofneyslu áfengis:

Stundum stafar vangeta í kynlífi af ofneyslu áfengis. Skortur á ANDROGENHORMÓNI er algengari hjá körlum, sem hafa sjúkdóm í lifur, en vínandi, með sínum beinu áhrifum á kynkirtlana, getur einnig átt sök á honum. Þá er rétt að hafa einnig í huga að „áfengið vekur girndina en svæfir getuna.“

Sjúkdómsmynd, er líkist CUSHINGS-sjúkdómi, getur komið fram vegna örvunar á heiladinguls-nýrnahettu ásnum eftir langvarandi ofneyslu áfengis. Einkennin hverfa þegar áfengisofneytandinn hefur haldið sig frá neyslu áfengis um hríð.

Sykursýki getur fylgt í kjölfar langvarandi briskirtilbólgu og svæsnar lifrarskemmdir geta leitt til minna þrúgusykursþols.

Þvagsýrugigt getur leitt af ofneyslu áfengis vegna þess, að aukin þvagsýrumyndun fylgir bruna vínanda í líkamanum.

Blóðsykurlækkun og ketoacidosa (ketónblóðsýring) geta komið í kjölfar mikillar áfengisneyslu samfara svelti. Sveltirinn tæmir þá GLYCOGEN geymslur líkamans. Eðlileg viðbrögð við því væru aukin GLUCONEOGENESIS(glúkósanýmundun), en vínandi hindrar gluconeogenes. Afleiðingarnar verða því skortur blóðsykurs, sem síðan kann að valda einkennum, er krefjast meðferðar. Svörun líkamans við ómeðhöndluðum skorti blóðsykurs er sú að draga úr framleiðslu insulins, en framleiða í staðinn mótvirkandi hormon. Þau leitast síðan við að auka blóðsykurinn. Um leið losa þau fríar fitusýrur, sem hvarfast ófullkomlega í lifrinni í ketosýrur. Afleiðingin verður því KETÓNBLÓÐSÝRING. Af óþekktum ástæðum gerist þetta fremur hjá konum en körlum.

Hafa ber í huga að ACETEST bregst ekki við beta-hydroxy-butyrötum og er af þeim sökum ekki hægt að treysta á þetta próf til þess að dæma um hve mikil ketóneitrunin er. Því þarf að mæla KETÓN og LACTÖT í blóði, ásamt blóðgösum og blóðsykri, þegar efnaskiptablóðsýring kemur fyrir hjá áfengisofneytendum. Ástandið lagast oftast af sjálfu sér þegar sjúklingurinn hættir að drekka og byrjar að nærast. Sé ástæða til þess að gefa næringu í æð er það fyrst og fremst þrúgusykur, sem þörf er fyrir.

Stundum tengist metabolisk alkalosis alkohol ketoacidosis hjá þeim sjúklingum, sem hafa einnig haft langvarandi uppköst. Í slíkum tilfellum þarf oft að bæta NaCl (+K) við þrúgusykurgjöfina.

Sjá einnig: Hvað er heimilisofbeldi?

Truflanir á hjarta, æða- og öndunarkerfi, er tengjast ofneyslu áfengis:

Veiklun hjartavöðvans (Cardiomyopathia) og hjartsláttaróregla geta verið afleiðingar ofneyslu áfengis og fráhvarfs frá henni. Þær geta verið það alvarlegar að leitt geti til dauða. Oft hverfa þær þó, ef ofneytandinn hættir neyslu áfengis.

Háþrýstingur sést hjá mörgum þeim, sem ofnota áfengi, sérlega á fráhvarfsstiginu og stafar af aukinni losun katekólamína í blóðið. Yfirleitt fellur blóðþrýstingur niður í eðlileg gildi þegar fráhvarfseinkenni eru um garð gengin og þarfnast ekki sérstakrar meðferðar.

Áfengisneysla getur framkallað kæfisvefn eða aukið hann. Hugsanlegt er, að sá súrefnisskortur, sem af honum leiðir, geti átt þátt í skemmdum á heila, lifur og hjarta hjá þeim áfengisofneytendum er sofa kæfisvefni.

Sýkingar og ofneysla áfengis:

Hjá þeim, sem ofnota áfengi, er aukin hætta á sýkingum:

1) vegna þess að starfsemi hvítra blóðkorna truflast,
2) vegna röskunar á þætti ónæmiskerfisins,
3) vegna óhollra lifnaðarhátta ofneytandans.
Oft valda sýklar, sem ekki eru algengir sjúkdómsvaldar hjá öðrum, svo sem t.d. klebsiella og anerob bakteriur, lungnabólgu hjá áfengissjúklingum,

Krabbameinsvekjandi áhrif áfengis:

Sýnt hefur verið fram á aukna tíðni krabbameins í munni, koki, barkakýli og vélinda hjá ofneytendum áfengis, svo og lifrarkrabbameins (hepatoma). Vera kann þó, að þar sé einnig um aðra meðverkandi þætti að ræða.

Fósturskemmdir af völdum áfengisneyslu:

Sýnt hefur verið fram á að áfengisneysla ófrískra kvenna getur valdið fóstursköðum. Ekki er með öllu ljóst, hve mikið það magn þarf að vera, sem neytt er, svo það valdi skaða, né nákvæmlega hvenær á meðgöngutíma hættan er mest. Þau einkenni, sem fram koma hjá sköðuðum fóstrum, eru t.d.: Óeðlilega lítil lengd og þyngd við fæðingu. Óeðlilega lítið höfuð. Missmíði á andlitsbeinum (stuttar hvarmagáttir augna, þröngur neðri kjálki, söðulbakað og uppbrett nef), sléttað úr efri vararrennu, þunn efri vör, og húðfellingar í innri augnkrókum (epicenthal fellingar), vöðvaslekja (hypotonia) og léleg samhæfing hreyfinga. Skortur greindar og eirðarleysi.

Önnur vímuefni Sýkingar í tengslum við misnotkun annarra vímuefna:

Sýkingar af völdum lifrarbólguveiru, einkum hepatitis B, eru fremur algengar hjá þeim, sem sprauta sig í æð með vímuefnum og deila nálum og sprautum með öðrum, en slíkt er algengt hjá neytendum heróínis. Sýkingar af völdum lifrarbólguveiru B sjást einnig hjá AMFETAMÍNNEYTENDUM hér á landi og hefur tíðni sýkinga farið vaxandi svo og tíðnihepatitis C, en það er mun alvarlegri sýking.

Sjúkdómsmyndin getur spannað frá því að vera einkennalítil yfir í að vera mjög svæsin og ógna lífi sjúklingsins. Flestir sjúklinganna ná sér, en þó er nokkur hætta á því að sjúkdómurinn verði viðvarandi og endi í skorpulifur og/eða hepatoma, ekki síst þegar um lifrarbólgu C er að ræða.

Sjá einnig: Er unglingurinn að neyta vímuefna?

Þegar einkenni, er benda til lifrarbólgu, koma fram hjá misnotendum, sem sprautað hafa sig í æð með vímuefnum, þarf að mæla hjá þeim mótefni, bæði HBs Ag (vegna hepatitis B), IgM Ab (vegna hepatitis A) og HCV Ab. Hjá þeim, sem reynast HBsAg-jákvæðir, þarf svo að mæla HBcAg, HBeAg og anti-HBe. Hið síðasttalda er mælikvarði á smithættuna af hinum sýkta.

Hjá öllum, sem reynast hafa HBsAg-jákvæðir, þarf að endurtaka mælingar eftir 3-6 mánuði, til þess að ganga úr skugga um að þeir séu ekki með sjúkdóminn mallandi eða á smitberastigi, jafnvel þótt þeir virðist hafa náð fullum bata. Rétt er að mæla um leið anti-HBs því ef þau eru fyrir hendi gefur það til kynna myndun ónæmis fyrir sjúkdómnum. Hjá HBsAg-jákvæðum smitberum er e-antigen sæmilega góður mælikvarði um smitbera stig og/eða mallandi sjúkdóm. Þá er og rétt að mæla um leið mótefni gegn lifrarbólguveiru C því sýkingum af völdum hennar hefur farið ört fjölgandi hér á landi meðal þeirra neytenda vímuefna er sprauta þeim í æð.

Hjá sjúklingum, sem smitaðir eru af lifrarbólgu B og C, þarf að hafa „blóðgát“ vegna hættu á smitun, en þeir þurfa hins vegar ekki að vera í einangrun, nema þeir hafi blæðingar frá maga eða endaþarmi.

Hepatitis B immunglobulin (með háum títer af anti-HBs) er efni, sem nota má til fyrirbyggjandi ónæmisaðgerðar hjá þeim, sem óvart stinga sig á einhverju, sem atast hefur blóði sjúklinga með hepatitis B, t.d. sprautunálum. Einnig er völ á hepatitis B vaccini (bólusetning) til virkra ónæmisaðgerða hjá þeim einstaklingum, er þurfa að eiga mikil og náin samskipti við sjúklinga, sem smitaðir eru af lifrarbólgu B veiru.

Eyðni (AIDS (Acquired Immune Deficency Syndrome)) er sjúkdómur, sem stafar af sýkingum af völdum retroveiru HIV-1. Hún ræðst á T-lymphocytana (eitlafrumur) hjá þeim, sem af henni sýkjast. Smit berst fyrst og fremst með blóði þess, sem sýktur er. Sums staðar, þar sem mikið er um misnotendur, er sprauta sig í æð með vímuefnum og erfitt er fyrir þá að nálgast hreinar nálar og sprautur, hefur borið á sýkingum af völdum þessarar veiru.

Hjartaþelsbólga af völdum sýkla (bacterial endocarditis) kemur stundum fyrir hjá misnotendum, sem sprauta sig í æð með vímuefnum og þá fremur hjá körlum en konum. Yfirleitt er um að ræða sömu sýklana hjá þessum hópi og þá, sem valda almennt sýkingum í hjartaþeli og lokum. Þó sjást stundum hjá þeim sýkingar af völdum staphylococcus aureus, sem er sjaldgæfur sýkingarvaldur við hjartaþelsbólgur hjá fólki almennt.

Ígerðir í stungustöðum á húð og undir húð koma oft fyrir hjá miklum misnotendum og kærulausum þegar þeir sprauta sig með vímuefnuinu í æð, án þess að gæta nægilegs hreinlætis. Þessum ígerðum valda venjulega sýklar úr hópi staphylococca eða streptococca.

Þegar misnotendur vímuefna eiga í hlut er betra að gleyma ekki aukinni hættu á smitun hjá þeim hvað varðar kynsjúkdóma og berkla. Henni veldur sá varasami lífsstíll, sem þeir hafa tamið sér.

Sjá einnig: Hvernig skaða vímuefni líkama þinn?

Aðrar líkamsskemmdir af völdum misnotkunar vímuefna:

Lungnaskemmdir, t.d. talcosis og granuloma, sjást hjá þeim misnotendum, sem sprauta sig í æð með vímuefnum, þegar íblöndunarefni, sem notuð eru til þess að drýgja vímuefnin, fara inn í æðarnar og flytjast með blóðstraumnum til lungnanna.

Hjá neytendum heroins getur komið fyrir lungnabjúgur vegna þess að ópíumefni geta aukið gegndræpi háræða í lungunum.

Heimild

Jóhannes Bergsveinsson, yfirlæknir.
Meðferð ofneytenda og misnotenda áfengis og annarra vímuefna (handrit).
Reykjavík.1997.

 

Fleiri heilsutengdar greinar má finna á doktor.is logo

 

SHARE