Snillingurinn Snæbjörn Ragnarsson sem er einn af meðlimum Skálmaldar póstaði þessari æðislegu færslu á Facebook hjá sér og við fengum leyfi til að birta hana:
Á flandri mínu um Facebook fyrr í kvöld rakst ég á enn eina myndina af einhverjum sem var úti að hlaupa. Ég náði að láta það fara soldið í taugarnar á mér þrátt fyrir að mér þyki Magnús einn af okkar betri mönnum. Svo hvarflaði það að mér, eins og annað slagið undanfarna mánuði, hvort ég ætti kannski að drulla mér sjálfur út að hlaupa? En nei, það er alltaf eitthvað sem stendur í veginum, ég á vitanlega enga skó eða föt í þetta og svo var ég nýbúinn að gúffa í mig einhverjum djöfuldómi af pastadrullu sem ég eldaði og drekkti í Hunt’s-tómatjukki (jebb, einn heima) og var djöfull þungt í maga. Næst bara. Meira Facebook.

Nei andskotinn, hugsaði ég svo. Nú geri ég eitthvað! Átti ég ekki einhverjar ógeðslegar æfingabuxur inni í skáp? Ég lokaði Facebook (faldi gluggann bara, að sjálfsögðu lokaði ég því ekkert) og stormaði inn í herbergi. Í svartholi skápanna fann ég það sem ég leitaði að, flík sem ég skil ekki hvernig ég hef eignast. Næfurþunnar, svartar æfingabuxur með tveimur hvítum röndum á hliðunum. Þær eru með svona beinu sniði og aðeins of stuttar svo þær flaksast kjánalega þegar maður gengur og/eða hleypur. Og til að bæta gráu ofan á svart hefur hönnuðurinn ákveðið að það væri töff að bródera orðin „BETTER BODIES“ neðst á vinstri skálmina. Fullkomið! Þarna var kominn hugur í mig og ég skellti mér í buxurnar. Babb í bátnum, engin reim, og þær gamlar og teygjulausar. Nú var ég kominn á það að hugsa frekar í lausnum en vandamálum. Í svartholinu fann ég það sem mig vantaði, svartan poka sem ég hef sennilega fengið fyrir að spila á einhverju tónlistarfestivalinu fullan af auglýsingavörum, merktur „Jägermeister“, svartur með appelsínugulum reimum. Já, ekki ólíkur bláa Adidas-sundpokanum sem ég átti í æsku. Snipp, önnur reimin laus og hannyrðamaðurinn ég ekki lengi að þræða hana á sinn stað með harðfylgi og hárspennu.

Ég á engan jakka sem hentar til útihlaupa, leður- og gallajakkar eru víst ekki góðir til slíks. En ég á hettupeysur í bunkum. Ég valdi peysu sem ég nota aldrei, Skálmaldarpeysu sem var framleidd af útgáfufyrirtækinu okkar erlendis, skartar stóru Skálmaldar-logoi að framan og óskaplegri grafík með áletruninni „SANNIR ÍSLENSKIR VÍKINGAR“ að aftan. Þeir töldu að þetta væri söluvænlegt ofan í útlendingana. Það reyndist alls ekki rétt. Og hvað á hausinn? Lopa- og þykkar prjónahúfur eru ekki sniðugar til útihlaupa en svartholið varð mér úti um Buff sem er þrælmerkt hvalaskoðunarfyrirtækinu Norðursiglingu sem ég hef unnið fyrir mörg undanfarin sumur. Buff eru allt annað en kúl en fyrst Flosi vinur minn gat verið með nákvæmlega eins óskapnað (sorry Norðursiglingarvinir mínir) um hálsinn á promo-myndatöku fyrir HAM þá lét ég þetta slæda.

Skór. Síðast þegar ég var á kenderíi heima hjá Hilmari vini mínum rak ég augun í skó í forstofunni sem ég kannaðist við. Brúnir íþróttaskór sem ég hafði keypt í bjartsýniskasti og týnt. Hvernig svo sem þeir enduðu á fótum Himma veit ég ekki alveg en hann var búinn að ganga á þeim allt norðausturlandið þvert og endilangt með hundinn sinn. Já eða hundurinn með hann sennilega. Hann fékk einhvern voðalegan móral og heimtaði að ég tæki þá aftur, sem ég gerði og hef ekki hugsað um þá síðan fyrr en nú. Gatslitnir og ógeðslegir eftir hundaheilsuræktina, en eftir smávægilegar reimahnýtingar og mátun bara hreint ekki svo slæmir. Síðasta vandamálið var svo vasaleysi og þess vegna enginn eðlilegur staður til að geyma húslyklana. Já og símann, því ég ætlaði alls ekki í þessa þolraun án þess að hafa Spotify með mér. Verkfræðingurinn í mér tók þetta á sig, svartur sokkur, táin af með Jägermeister-skærunum og hin nýja flík þrædd upp á úlnlið vinstri handar. Þar undir þvældi ég svo lyklunum og símanum og fullkomnaði sköpunarverkið með svörtum prjónagrifflum frá mömmu.

Þar með var ég klár. Ég leit örsnöggt í spegilinn og sá að ég var asnalegur. Skíthallærislega merktur sjálfum mér, pínu feitur í asnalegum buxum, með fokking Buff á hausnum. Og ég skundaði út.

Ég vissi alveg hvert ég ætlaði að fara, ég er búinn að velta því svo djöfull oft fyrir mér undanfarið að drattast í þetta mál. Út að vitanum á Gróttu og til baka. Ég á heima á Seilugranda svo það er nú ekki langt að fara og ég einsetti mér að fara mér ekki um of. Ég valdi tónlistina, plötu sem ég hef ekki hlustað á mjög lengi, So Long and Thanks for All the Shoes með NOFX, og skottaðist af stað.

Lengi lifir í gömlum íþróttamannsglæðum og ég var bara frekar ánægður með mig svona framan af. Eftir fyrstu kannski 150 metrana fékk ég fyrsta verkinn, í vinstri sköflunginn. Minnti mig óþægilega á helvítis beinhimnubólguna sem maður barðist stanslaust við meðan maður æfði sem mest. En fjandinn hafi það, bráðabeinhimnubólga eftir örfá skref? Nei, varla. Ætli þetta hafi ekki frekar eitthvað með „BETTER BODIES“ að gera? Og svo komu verkirnir hver á fætur öðrum. Lungun fundu auðvitað fyrir þessu um leið og Hunt’s-sósan hóf fljótlega að leita upp vélindað með tilheyrandi sviða. Óafvitandi hífði ég axlirnar alveg upp undir eyru, pinnstífur og spenntur og þurfti að setja það á reglulegan reminder að slaka á þeim. Sá verkur sem var þó kannski mest stemningardrepandi kom mér á óvart. Ég er frekar vambstór orðinn og komst að því að tunnan á mér telur sennilega þónokkur kíló. Í hverju þunglamalegu skrefinu lyftist systemið í heilu lagi og við lendingu togaði Newton óskaplega í allt saman. Við þrálátar endurtekningar leið mér orðið eins og vömbin væri að rifna af festingunni. Í máttlausri tilraun til að berjast á móti virðist ég hafa spennt mína óvönu magavöðva óskaplega, og strax fyrir fyrstu labbpásu var ég orðinn logandi sár um mig miðjan, bæði að innan og utan.

Leiðina út að vita afgreiddi ég hlaupandi og gangandi á víxl. Ég gerði aðeins eitt stutt stopp til að freista þess að leysa vandamálið með hallærislegu buxnaskálmarnar og troða þeim ofan í sokkana. Skálmarnar voru hins vegar ekki nógu voldugar til þess að það gengi almennilega upp og svörtu herrasokkarnir úr H&M gerðu nú ekkert fyrir útlitið. Ég hefði sennilega átt að biðja svartholið um par af íþróttasokkum. Appelsínugula reimin toppaði síðan hallærislegheitin.

Sveittur og sár komst ég út að vita, stoppaði og teygði á.

Fyrir leiðina til baka skipti ég um tónlist og sá fram á að ég þyrfti eitthvað kröftugt til að halda í mér lífinu. Annað gamalt uppáháld, Clandestine með Entombed. Þrátt fyrir að vera þreyttur og sár var ég nokkuð góður með mig og skrifa ég það á gamalt keppnisskap. Ég ákvað fyrirfram að skipta leiðinni heim í þrennt – hlaup, labb, hlaup. Ég afgreiddi fyrsta hlutann af festu og hélt þónokkuð lengi út. Labbkaflinn var kærkominn en síðasta hlaupið varð mér næstum að aldurtila. Ég var með hausinn fullan af þungarokki og heyrði því ekki hljóðin í sjálfum mér, en af svip fólksins sem ég mætti að dæma hef ég sennilega blásið mjög ótæpilega. Og nú tók helvítið við. Síðustu nokkurhundruð metrana tók ég á reynslunni, starði á malbikið um 4 metra fyrir framan mig, hljóp í takt við Sinners Bleed (þvílíkt lag!) og reyndi að útiloka uppgjafar- og ógleðitilfinninguna. Og viti menn, ég hélt út. Örmagna studdist ég við vegginn á blokkinni minni, illt allstaðar en með sigurtilfinningu í hjarta, tilfinningu sem ég hef ekki fundið lengi. Eftir að hafa blásið helling og teygt á skrönglaðist ég upp stigana, réttum klukkutíma eftir að ég lagði af stað.

Nú sit ég í stofunni heima, í sloppnum sem ég erfði eftir pabba heitinn, nýbúinn í sturtu. Í hrúgu á gólfinu er útihlaupsgallinn minn, „BETTER BODIES“, „SANNIR ÍSLENSKIR VÍKINGAR“ og „NORÐURSIGLING“, slitnar reimar og appelsínugular og þrír sokkar, þar af einn táklipptur. Pastarétturinn minn brennir mig að innan, ég er að drepast í löppinni, lungun eru svo sár að ég get ekki andað nema hálfa leið niður og mér líður eins og spikið hafi rifnað frá sixpakkinu sem vísast er þarna undir einhverstaðar. Í stuttu máli er ég úrvinda og sár eftir að hafa gert mig að fífli.

En hey, ég fór út að hlaupa.

 

SHARE