Skemmtilegir leikir í afmælið

Hugmyndir að nokkrum ómissandi leikjum sem gleðja afmælisgesti.

Það er alveg bráðnauðsynlegt að bjóða upp á skemmtilega leiki í barnaafmælum, bæði til að hafa ofan fyrir gestunum og til að afmælið verði sem líflegast. Gott er að skipuleggja nokkra leiki fyrirfram, sérstaklega ef þeir krefjast einhvers undirbúnings. Hér eru hugmyndir að nokkrum gömlum og góðum leikjum sem krefjast ekki mikil undirbúnings og flestir hafa gaman af.

 

Stoppdans
Kosturinn við þennan leik er að hann krefst ekki undirbúnings og það eina sem til þarf er tónlist sem hægt er að slökkva og kveikja á eftir þörfum. En leikurinn fer þannig fram að þátttakendur dansa með frjálsri aðferð þangað til tónlistin er stöðvuð. Þá er mikilvægt að frjósa alveg því sá sem hreyfir sig á meðan tónlistin er stopp, hann er úr leik. Sá sem er síðastur á dansgólfinu hann stendur uppi sem sigurvegari.

 

Setudans
Leikurinn er mjög svipaður stoppdansinum, en í þessum leik á að setjast niður þegar tónlistin er stöðvuð. Sá sem er síðastur að setjast, hann er úr leik. Og þannig gengur það þar til einn þátttakandi situr eftir á gólfinu.

 

Pakkaleikur
Krefst smá undirbúnings en ætti að vera viðráðanlegt fyrir flesta. Það sem til þarf er lítið dót, sem er til dæmis hægt að kaupa í Tiger eða Söstrene Grene. Töluvert magn af dagblöðum, kannski plastpoka og límband. Litla dótinu er pakkað vel inn í pappírinn og plastpokana og límbandi vafið utan um. Það á að þurfa smá átök við að opna pakkann, en alls ekki ógerlegt. Þá verður leikurinn bara leiðinlegur.
Leikurinn fer svo þannig fram að börnin setjast á gólfið, tónlist er spiluð og pakkinn látinn ganga á milli. Þegar tónlistin stoppuð kemur það í hlut þess sem er með pakkann í höndunum að rífa eins mikið utan af honum og hann getur, þangað til tónlistin byrjar aftur. Og þannig gengur leikurinn þar til dótið kemur í ljós. Sá sem nær dótinu úr pakkanum fær að eiga það.

 

Sjá einnig: Elsti köttur í heimi fagnar 31 árs afmæli sínu

 

Limbó
Limbó er gamall og góður leikur sem mömmur og pabbar og ömmur og afar þekkja eflaust vel. Það eina sem til þarf er kústskaft eða einhverskonar langt prik. Svo þarf tvo til að halda skaftinu stöðugu á milli sín á meðan þátttakendur í leiknum reyna að beygja sig undir það. Skaftið er lækkað eftir hverja umferð og þeir sem komast ekki undir eru úr leik.

 

Flöskustútur
Annar gamall og góður leikur sem flestir þekkja. Það sem til þarf er tóm plastflaska. Leikurinn fer þannig fram að þátttakendur setjast í hring á gólfið og einn byrjar að snúa flöskunni á sama tíma og hann segir: „Sá sem flöskustútur lendir á, á að….“ og bætir við því sem viðkomandi á að gera. Eins og til dæmis hoppa á öðrum fæti fimm sinnum. Sá fær svo að snúa flöskunni næst.
Stólaleikur
Þessi leikur stendur alltaf fyrir sínu, og það eina sem til þarf er nóg af stólum. Stólunum er raðað upp í hring, bak í bak, og þeir þurfa að vera einum færri en þátttakendur í leiknum. Tónlist er spiluð og þegar hún er stoppuð er mikilvægt að setjast strax niður á stól. Sá sem ekki nær stól er úr leik. Og þá þarf að fjarlægja einn stól til að leikurinn geti haldið áfram.

 

SHARE