Skilnaðir og tengsl foreldra og barna

Samfélagsumbrot síðustu áratuga hafa haft margt jákvætt í för með sér en einnig ógnað fjölskyldutengslum, ekki síst foreldra og barna. Það virðist sem menn séu að átta sig á því að þessi umbrot sem svo mjög hafa teflt viðkvæmum tilfinningaböndum í tvísýnu verði ekki stöðvuð.

Þróuninni verður ekki snúið við né spornað við áframhaldandi hraða, breytileika og síbreytilegum fjölskylduformum. Það sem máli skipti fyrir uppbyggingu heilbrigðs samfélags við slíkar aðstæður er að bregðast við breytingum með sveigjanleika og opnum hug fyrir nýjum lausnum en festast ekki í hugmyndum um gömul form og stirnaða farvegi. Það er nauðsynlegt að styrkja hinn innsta kjarna hverrar manneskju og það gerist með því að hlúa að traustum tengslum foreldra og barna – í hvaða form sem þau flokkast.

Sjá einnig: Skilnaður í uppsiglingu?

Skilnaðir, börn og kynhlutverk

Ný vitund ungs fólks um uppeldisábyrgð og gildi foreldrasamstarfs tengist tvímælalaust opnari og upplýstari umræðu um þau mál ásamt áhrifum víðtækra rannsókna, m.a um áhrif skilnaðar á börn. Félagsvísindamönnum ber saman um að ekki sé hægt að skoða skilnaðaráfallið sem einn einstakan atburð heldur sé um langtímaferli að ræða þar sem heppileg viðbrögð og aðgerðir geti skipt sköpum um þann skaða sem það veldur. Því hafa skilnaðarrannsóknir í vaxandi mæli beinst að greiningu langtímaáhrifa á börn og orsakavalda þeim tengdum.
Skilnuðum fjölgar en gömlu gildin eru lífsseig. Barnafjöldinn og þétt óformlegt fjölskyldunet á Íslandi verka bæði til hins betra og hins verra. Þannig á mikið ytra álag og tilfinningaleg togstreita milli gamalla og nýrra gilda oft sinn þátt í hjónaskilnuðum meðal yngra fjölskyldufólks. Skilnaðartíðni jókst á Íslandi um nánast helming á tímabilinu 1950- 1980, mest á áttunda ártugnum en hefur verið nokkuð stöðug síðustu tvo ártugi. Hún er nú um 40% vígslna, með minni háttar sveiflum milli ára.
Umönnun barna hefur lengst af verið í höndum mæðranna í hjónabandinu. Ennþá er tilhneiging til að þær haldi því áfram eftir skilnað hvort sem þær fara einar með forsjá barnanna eða hún er sameiginleg. Sá samningur sem gilti í hefðbundna hjónabandinu um kynbundna verkaskiptingu og umönnunar- og valdastöðu í samræmi við það, leysist upp við skilnað – enda oft eitt af orsakavöldunum. Þá ýmist heldur gamla mynstrið áfram óbreytt eða ringulreið skapast. Ringulreiðin stafar af leit fólks eftir nýjum leiðum í nýju samfélagslandslagi þar sem skortir bæði nýja farvegi og leiðsögn. Þetta kann að hafa þau áhrif að feður sem í hjónabandinu nutu umhyggju konunnar missa mikið, bæði umönnunarhlunnindin og þá áhrifastöðu sem húsbónda- og föðurhlutverkið tryggði þeim. Á hinn bóginn missa konurnar þann stuðning og þar með oft sálfélagslegt öryggi sem fjárframlag föðurins veitti heimilinu. Til skamms tíma hefur reyndin líka verið sú að mæður hafa ekki aðeins haldið ábyrgð og skyldum gagnvart uppeldi barnanna hjá sér bæði fyrir og eftir skilnað, heldur hefur verið tilhneiging í þá átt að þær stýrðu nær einráðar samskiptum feðra og barna eftir skilnað. Þannig geta foreldrar ekki endurskipulagt líf sitt með börnunum á jafnræðisgrundvelli nema ytri stuðningur og skýrari lagsetning komi til skjalanna. Þau vita oft heldur ekki hvernig þau eiga að geta endurskoðað og mótað samskipti sín útfrá breyttum forsendum nema til komi ráðgjöf og aðstoð í því efni.

Skilnaðarrannsóknir og meðferðarreynsla

Í félagsvísundum hafa menn glímt við að rannsaka hvaða áhrif samfélagsbreytingarnar hafa á líðan fólks og aðstæður og þá ekki síst barnanna. Umfangsmiklum langtímarannsóknum á skilnuðum frá síðustu tveimur áratugum ber saman um eftirfarandi: þegar á heildina er litið eru skilnaðarbörn líklegri til að eiga við meiri erfiðleika að stríða en börn úr öðrum fjölskyldugerðum og andleg heilsa þeirra er í fleiri atriðum lakari þegar á heildina er litið.

Sjá einnig: 12 raunverulegar ástæður skilnaða

Rannsókn á ungu fólki sem hafði reynt skilnað foreldra sýndi langtímaáhrif fram á fullorðinsár. Þau komu fram í erfiðleikum í skóla, hegðunarvandkvæðum og þörf fyrir meðferð. Einnig áttu þau óuppgerð foreldratengsl m.a vegna engra eða takmarkaðra tengsla við föður.. Samanburður á áhrifum skilnaðar á unglinga í ólíkum fjölskyldugerðum (fráskildar mæður einar með forsjá, endurgiftar fráskildar mæður með forsjá í samanburði við foreldra í sambúð) sýndi að unglingar sem bjuggu áfram með fráskildum mæðrum sínum glímdu við aðlögunarerfiðleika í 4-6 ár og áttu í meira mæli en aðrir unglingar í togstreitu og tengslaerfiðleikum við mæður sínar. Nýlega var birt umfangsmikil rannsókn þar sem svarendur voru fullorðnar konur sem í bernsku höfðu reynt skilnað foreldra sinna. Niðurstöður sýndu að erfiðleikar þeirra og vanlíðan birtust í meiri líkum á að eiga í tengslaerfiðleikum, fresta því að binda sig og hafna sjálfar í hnappheldu skilnaðarátaka.

Rannsóknarniðurstöður ber ávallt að taka með vissum fyrirvara og hafa þarf í huga að oftast er verið að skoða afmarkaða þætti og aðstæður. Einnig þarf að minna á að í vissum tilvikum hafa börn sýnt hegðunarerfiðleika líka áður en skilnaður kom til. Það sem máli skiptir er þó að heildarmyndin sýnir mynstur sem bendir í sömu átt.

Sjá einnig: Það sem ég vildi að ég hefði vitað fyrir skilnað – Einlæg frásögn karlmanns og ráð hans til eiginmanna

Það er fagnaðarefni að allra nýjustu rannsóknir á þessum sömu þáttum benda til að talsverðar breytingar séu að eiga sér stað. Ber rannsóknar- og meðferðarfólki saman um að það tengist að hluta auknu algengi og viðurkenningu á skilnuðum í samfélaginu en um fram allt aukinni fræðslu og möguleikum á aðstoð ásamt áhrifaríkari greiningu og meðferðartækni.

Umbrot og sársauki fylgja áfram skilnaði en foreldrar eru að læra að höndla skilnað öðruvísi en á síðasta áratug. Æ fleiri foreldrar hafa sjálfir reynt skilnað foreldra sinna og bera oft með sér sársauka sem þeim er í mun að hlífa sínum eigin börnum við þótt þeim hafi ekki tekist að komast hjá skilnaði. Þeir finna til meiri ábyrgðar, nýta sér þekkingu um hvernig sé hægt að undirbúa börnin, hvernig þau geta gert upp málin sín á milli og byggt upp jafnara foreldrasamstarf.

Þótt rannsóknir sýni að erfiðasti tíminn fyrir börnin afmarkist oftast við tveggja ára tímabil geta langtímaeinkenni verið viðvarandi. Það er nú líka vitað að í þeim tilvikum eru þau tengd öðrum þáttum. Það sem vegur þyngst er sá skaði sem hlýst af brostnu eða ófullnægjandi foreldrasamstarfi og óhagstæðum lífskjörum.. Þessi þekking segir mikið um hvaða máli það skiptir að vinna að bættum kjörum einstæðra foreldra og styðja við foreldrasamstarf með áþreifanlegum hætti.

Foreldrasamvinna og skilnaður

Skilnaður felur í sér að barn hefur yfirleitt ekki daglega umgengni við báða foreldra sína áfram. Við skilnað reynir á foreldra að skipuleggja umgengni útfrá þörfum barnsins og aldri, hvert sem forsjárfyrirkomulagið er.
Það þarf alltaf að hafa samráð, endurmeta aðstæður og taka ákvarðanir um daglegt líf barnsins hvort sem foreldrar fara sameiginlega með forjsá eða hafa skipt henni þannig að lagaleg og formleg ábyrgð sé hjá öðru foreldrinu. Hin siðferðilega og tilfinningalega ábyrgð hlýtur ávallt að vera hjá báðum foreldrum svo framarlega sem þau eru heilbrigð og fær um að axla hana.
Skilnaður foreldra er alltaf áfall fyrir barn. Skilnaður er líka í flestum tilvikum erfiður missir fyrir barn. Í versta tilfelli getur missirinn falið í sér að annað foreldrið hverfur algjörlega út úr lífi barnsins og fyrir kemur að það sama gerist með ytri fjölskyldu, afa og ömmu. Það eiga sér oftast stað búferlaflutningar og mikil breyting verður á efnahagsafkomu fjölskyldunnar. Stundum flyst barnið með öðru foreldri sínu eða er um kyrrt með hinu. Stundum fylgjast systkini að, stundum ekki. Stundum þurfa allir aðilar að flytja búferlum. Þetta rof splundrar tilveru barnsins. Þannig er mikilvægt að halda stöðugum eins mörgum öðrum öryggisþáttum í lífi barnsins og unnt er.
Öll viðleitni foreldra til að stuðla að því að rætur barnsins raskist sem minnst í þessari „umpottun“, til að fylgjast með viðbrögðum þess og hlúa að þörfum þess skiptir sköpum um möguleika barnsins til að aðlagast og bera sitt barr á ný við breyttar aðstæður. Vinir og upprunafjölskylda geta myndað skjólvegg fyrir barnið sem hlífa því fyrir skaðlegum átökum og tilfinningasviptingum. Það er hægt að undirbúa barnið öðruvísi ef það er komið á legg og hægt er að nota málið á ýmsan hátt til að útskýra fyrir þeim. Lestur og spjall um táknræn ævintýri eða leikir með dýr og fígúrur geta oft verið góð leið til að miðla boðskap um hluti sem of erfitt er að skýra í beinum orðum fyrir litlum börnum. Þetta á t.d við um sögur af margvíslegum áföllum og uppákomum í lífinu sem leysast farsællega þrátt fyrir vonbrigði, sorg og andstreymi.

Sjá einnig: Óæskileg hegðun er frekar orsök skilnaða en framhjáhald

Þótt almennar þroskakenningar komi að gagni og hægt sé að styðjast við og hægt sé að gefa almennar leiðbeiningar á grundvelli þeirra, má aldrei gleyma að hvert barn er einstakt. Það er háð sínum meðfæddu og mótuðu eiginleikum og forsendur þess einnig háðar umhverfi og aðstæðum í lífi þess. Því er nauðsynlegt að foreldrar einskorði sig ekki of við hið almenna heldur finni í sameiningu út það fyrirkomulag sem þau telja henta einmitt þeirra barni, sem þau sjálf þekkja best. Í þessu sambandi kemur sérfræðileg ráðgjöf hjá félagsráðgjafa eða öðrum oft að góðu gagni.

Í raun má segja að skilnaður breyti engu um foreldraábyrgð öðruvísi en að það er flóknara að ráða fram úr hvernig á að rækja hana og að barnið er í ennþá meiri þörf fyrir nærgætni og umhyggju beggja foreldra.

Á næstu vikum er væntanleg bókin Áfram foreldrar. Rannsókn um sameiginlega forsjá og velferð barna við skilnað foreldra. Hún er eftir undirritaða og meðhöfundinn Nönnu K. Sigurðardóttur félagsráðgjafa.
Hún er að hluta samanburðarrannsókn við rannsókn sem höfundar unnu ásamt sálfræðingunum Friðriki H. Jónssyni og Sigurði J. Grétarssyni Barnafjölskyldur. samfélag-lífsgildi-mótun, 1995, og fjallar um uppeldisaðstæður barna í fimm ólíkum fjölskyldugerðum á íslandi. Í hinni væntanlegu bók er fjallað um skilnað, rétt barna og forsjármál í víðara ljósi. Í lok hennar er viðauki þar sem fróðleik og ráðum er beint til foreldra í skilnaði.
Í þessum tveimur bókum er að finna þær heimildir sem byggt er á í umfjölluninni hér á undan en hún er að nokkru byggð á fyrri skrifum okkar Nönnu.

Fleiri áhugaverðar greinar eru á doktor.is logo 

SHARE