Læknar sendu frá sér yfirlýsingu síðastliðinn miðvikudag þar sem segir að skurðarhnífur sem þeir hafa unnið með í tilraunaskyni hjálpi þeim að sjá hvort þeir hafi fjarlægt allan krabbameinsvefinn sem átti að fjarlægja. Skurðlæknar nota venjulega hnífa sem hita vefinn sem verið er að skera. Vefurinn gefur frá sér gufu sem lyktar og umræddur hnífur greinir af efnum í loftinu hvort enn eru krabbameinsfrumur í því sem verið er að fjarlægja.
Skurðlæknar láta eftir sem áður rannsaka vefinn tilað fullvissa sig um ástand hans.
Dr. Zoltan Takats prófessor við Imperial College í London grunaði að reykurinn sem myndast við krabbameinsaðgerðir gæti gefið mikilvægar upplýsingar um krabbameinið. Hann hannaði “snjall” hníf sem hann tengdi massagreiningartæki sem greinir reykinn eða gufurnar frá vefnum sem verið er að hreinsa í burtu.
Svörin birtast á skjá og grænn litur merkir að vefurinn sé heilbrigður, rauður merkir að enn sé verið að skera krabbameinsvef og gult merkir að ekki sé hægt að greina stöðuna.
Læknar senda í öllum tilvikum sýni á rannsóknarstofuna til að fá hefðbundna greiningu. Það getur tekið um hálftíma á bestu sjúkrahúsum að fá svar. Þó að svarið sé á þá leið að allur krabbameinsvefurinn hafi verið fjarlægður fjarlægir læknirinn samt oft meira – Í öryggisskyni.
Dr. Emma King, sem er krabbameinsskurdlæknir og vinnur að rannsóknum á krabbameinum í Bretlandi segir að snjallhnífurinn sé merkilegt tæki sem lofi góðu. Hnífurinn og úrvinnslutækin kostuðu um 6 milljónir en fróðir menn telja að kostnaðurinn muni lækka verulega ef fraið verður að framleiða hnífinn og tilheyrandi tæki fyrir skurðlækna.
Það er mjög algengt að fólk sem fær krabbamein verði að fara í skurðaðgerð oftar en einu sinni svo takist að komast yfir meinið. Vísindamenn prófuðu hnífinn á árunum 2010-2012 og tóku sýni frá 302 sjúklingum til þess að mynda gagnagrunn um hvernig reykurinn eða gufan sýndu krabbameinsfrumur. Þeir rannsökuð reyk frá heilaæxlum, krabbameini í brjóstum, ristli,lifur,lungum og maga.
Greining hnífsins var svo borin saman við greiningu rannsóknarstofunnar á æxlum frá 91 sjúklingi og var greining hnífsins í öllum tilvikum rétt. Greint var frá niðurstöðunum í vísindatímaritinu Science Translational Medicine.
Hnífurinn var nýlega kynntur og sýndur í London og fengu læknar að prófa hann (á lifur úr svíni). Læknirinn sem stjórnaði kynningunni sagði að miklu meiri og ítarlegri rannsóknir yrði að gera á hnífnum og hvernig hann verður notaður áður en hægt er að samþykkja hann sem lækningartækji. Hann bætti við að þeir sem best þekktu til þessa tækis teldu að hægt yrði að þróa það til þess að greina einnig ýmsar skaðlegar bakteríur.
Allir læknar og vísindamenn sem tjáð sig hafa um hnífinn telja að hér geti verið um mjög merkilegt tæki að ræða en fari þurfi með gát og gæta þess að gefa ekki falskar vonir, hvorki sjúklingum né læknum þeirra.