Skvísubók í sumarfríið

Ef þú ert á leiðinni í sumarfrí, hvort sem það er hérlendis eða erlendis er alltaf gott að stefna á það að lesa í það minnsta eina eða tvær bækur. Bókin „Þessi týpa“ er ótrúlega skemmtileg og lífleg bók, eftir Björgu Magnúsdóttur. Bókin fjallar um ungar konur á mismunandi stöðum í lífinu á Íslandi og er sjálfstætt framhald bókarinnar „Ekki þessi týpa“ sem kom út á seinasta ári.

Það er vor í lofti í Reykjavík, með tilheyrandi væntingum. Hörkusókn fyrrverandi kærasta slær Bryndísi út af laginu, Regína fær langþráða stöðuhækkun, Inga skipuleggur stóra daginn með aðstoð manískra brúðkaupsbloggara og Tinna fer heim með manni sem sefur á gúmmílaki.

Við könnumst örugglega við alla þessa karaktera úr okkar lífi og erum jafnvel einhver þeirra líka og það er það sem er svo skemmtilegt við bókina.

Björg Magnúsdóttir, höfundur bókarinnar, er stjórnmála- og menningarfræðingur sem bæði hefur unnið í sjoppu og starfað sem fréttamaður. Hún hefur nú komið með bók 2 ár í röð og aðspurð um það hvort hún ætli að gefa út fleiri bækur segir hún:

„Já! Nú eru nokkrar hugmyndir að keppast um athyglina í hausnum á mér. Það er ekki alveg útséð hvað verður ofan á en ég get sagt að það verður ekki skvísubók. Ég ætla samt að lesa svona 50 bækur áður en ég skrifa næstu … og er í þeirri vinnu núna.“

Nú er um að gera að næla sér í eintak af þessari auðlesanlegu bók sem mun svo sannarlega vera hverrar krónu virði.

AR-706029935

 

SHARE