Sniðug leið til að fá börn til að hjálpa til

Ég held að við flest séum þannig að okkur finnst þægilegt að geta strikað eitthvað út af listanum þegar við höfum lokið einhverju, að hafa hlutina sjónrænt getur skipt öllu. Ég er rosalega skotin í þessari lausn til að fá krakka til að hjálpa aðeins til heima, læra heima eða bara það sem fylgir þessu daglega lífi. Hún er einföld, kostar ekki handlegginn (bara litlafingur) og þú getur hannað þetta nákvæmlega eftir þínum þörfum.

Það eina sem þarf er svona skilti fyrir hurðarhúna, málning, stafalímmiðar (eða góður tússpenni) og nokkrar viðarklemmur. Ég málaði skiltin og klemmurnar og notaði merkivélina mína (label maker) til að skrifa verkefnin öðrum megin á klemmuna og hinum megin setti ég lokið. Ég setti svo á „ólokið“ öðrum megin á skiltið og „lokið“ hinum megin. Ég hafði einhvetímann „rænt“ svona hrærara eins og eru á öllum kaffihúsum, málaði hann og notaði til að skilja að. Þetta er svo einfaldlega sett á hurðarhún, krók eða bara einhversstaðar sem krakkarnir sjá til,og þegar þau hafa klárað eitthvað af verkefnunum sínum þá er klemman einfaldlega færð yfir í „lokið“.

Mín börn eru með svona kerfi og ég hefði ekki getað trúað því hvað þetta virkar vel. Reyndar þá er ég með gulrót, þau geta unnið sér inn eitthvað sem þau hafa sjálf valið (getur bæði verið ótrúlega sætur bangsi sem þau sáu síðast í Hagkaup og hreinlega verða að eignast eða snjókast með pabba) og það er yfirleitt nóg að minna þau á verðlaunin ef mótmæli eru við það að brjótast út.

SHARE