Sótt á „limmó“ í kirkjuna á fermingardaginn

Photo by David Castillo Dominici
Photo by David Castillo Dominici

Það hefur ekki farið framhjá neinum að nú eru fermingar í fullum gangi. Nú er fermt bæði á laugardögum og sunnudögum, svo ef maður er á ferðinni á þessum dögum er nánast bókað mál, að þú sérð prúðbúin fermingarbörn á ferðinni. Sum eru á leið í kirkju eða úr kirkju, önnur á leið í þessa sívinsælu fermingarmyndatöku. Ég segi „sívinsælu“ því þessar myndir eldast alltaf einstaklega vel og ég held ég þekki voðalega fáa sem eru ánægðir með fermingarmyndina sína. Ég er reyndar alveg ánægð með mína í dag, en var það ekki áður og fyrr, en það er nú önnur saga.

Ég fór í fermingu fyrir stuttu, sem er nú ekki beint óeðlilegt nema að það var eitt sem vakti athygli mína. Þegar við komum útúr kirkjunni og fólk var að fara með sín börn út í bíl og í myndatöku eða hvað það nú var sem þau voru að gera, þá var svartur eðalvagn beint fyrir utan kirkjuna. Ég veit ekki af hverju, en það fyrsta sem ég hugsaði var, voða er þetta skemmtilegt, öll börnin sótt á „limmó“ bara! En auðvitað var þetta ekki þannig. Ég sá fljótt að „auðvitað“ var þetta ekki svoleiðis. Þetta voru bara nokkrir krakkar sem áttu að fara í „limmóinn“.  Einn pabbinn stóð þarna voða grobbinn, greinilega hann sem borgaði reikninginn, og benti þeim krökkunum að fara í bílinn. Á meðan fóru hin krakkagreyin út í bíl til foreldra sinna, haldandi hárinu í skefjum og gjóandi augunum að krökkunum sem skelltu sér sigri hrósandi inn í „limmóinn“.

Ekki misskilja mig. Það er frábært ef fólk hefur efni á því að eyða peningum sínum í eðalvagna fyrir barnið sitt og vinina á fermingardaginn og ég samgleðst þeim innilega. Ég er samt þeirrar skoðunnar að það, að vera að sýna mátt sinn og meginn á fermingardag barnsins þíns sé ekki til eftirbreytni. Það er ótrúlega kostnaðarsamt að ferma barn í dag og ég held að „venjulega“ fólkið eigi alveg fullt í fangi með að greiða allt sem þarf að kaupa og gera fyrir svona veislu.

 

SHARE