Stefanía tekur þátt í undankeppni Eurovision – Þrusu flott söngkona, aðeins 20 ára.

Stefanía Svavarsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1992 og alin upp í Mosfellsbæ. Hún hefur sungið frá blautu barnsbeini
og komið fram opinberlega frá 14 ára aldri.
Stefanía vakti fyrst verulega athygli eftir sigur í söngkeppni Samfés árið 2008, þá 16 ára, með laginu Fever og í kjölfarið á því hóf hún samstarf með Stuðmönnum en með þeim söng hún lagið „Ruglið“ sem gefið var út sumarið 2009 og naut mikilla vinsælda.
Þá hefur hún sungið inn á hljómplötu með Björgvini Halldórssyni og Jóhanni G. Jóhannssyni og sungið bakraddir með Dúndurfréttum og Bubba Morthens. Stefanía söng einnig með Gunnari Þórðarsyni á vísnaplötutónleikum 2010. Stefanía tók þátt í afmælissýningu tónlistarmannsins Magnúsar Kjartanssonar, „My Friends and I“ og söng frábærlega mörg af þeim lögum sem hin rómaða söngkona Shady Owens söng á sínum með Óðmönnum, Trúbrot og Hljómum.
Hin unga söngkona vakti síðast verðskuldaða athygli þegar hún söng á ABBA tónleikum í Hörpunni í vetur og gaf eldri og reyndari söngkonum ekkert eftir.

Hefur þú verið í einhverju námi tengdu tónlistinni ?
Já aðeins, ég var í 2 annir í söngskóla Maríu Bjarkar og Siggu Beinteins þegar ég var lítil og færði mig svo yfir í Sönglist í Borgarleikhúsinu þegar ég var 12 ára, en ekkert markvisst eftir það.

Á söngurinn allan þinn tíma eða ertu að gera eitthvað samhliða tónlistinni?
Ég syng allan daginn alla daga, en er að vinna skrifstofuvinnu samhliða söngnum á meðan ég safna mér fyrir heimsreisu.

Hvernig kom það til að þú sért að fara keppa í undanúrslitum í eurovision á Íslandi?
Sveinn Rúnar, lagahöfundurinn, hefur viljað fá mig til að syngja lag eftir sig í einhvern tíma skilst mér. Hann hafði augastað á mér fyrir Euro í fyrra og svo var það bara neglt þetta árið.

Máttu segja okkur eitthvað í sambandi við lagið sem þú flytur ?
Það er þrusuflott

Hefur það verið draumur að keppa í eurovision og eitthvað sem þú hefur unnið að?
Já það mætti segja það, ég hef alltaf talað um það að mig langi að taka þátt og ég hef verið eurovision nörd alveg frá því ég var svona 8 ára.
Frænka mín tók keppnina upp árið 2000 og ég man eftir að hafa horft á þessa spólu svona trilljón sinnum heima hjá ömmu.
Það mætti segja að áhuginn hafi kviknað þá, ég kann öll lögin úr þeirri keppni.

Nú ert þú töluvert yngri en mikið af fólki sem þú hefur unnið með, er komið öðruvísi fram við þig vegna þess?
Já ég finn alveg fyrir því en alls ekki mikið, mesti munurinn er auðvitað reynslan, ég hef unnið með mestu reynsluboltunum í bransanum, og hef lært heilan helling af þeim.
Annað sem mætti nefna er kannski húmorinn, hef ekki tölu á bröndurunum sem ég hef heyrt og hreinlega ekki skilið eða fundist bara ekkert fyndnir, en öllum öðrum finnst þeir hilarious!
Ég bara glotti út í annað og þykist hafa skilið þá.
Ég hef aldrei fundið fyrir því að eitthver komi öðruvísi fram, ég er bara oft kölluð beibíið í hópnum

Hvernig myndir þú lýsa þér í þremur orðum?
Kærulaus, ástrík og glaðlynd.

Ertu búin að ákveða kjól eða fatnað sem þú ætlar að vera í á keppninni?
Nei ekki enn.. en það verður eitthvað hrikalega gordjöss.

Ertu búin að plana eitthvað í sambandi við tónlistina í framtíðinni ?
Mig langar til að mennta mig meira í söng og tónsmíðum og gefa svo út fullt af flottum plötum með æðislegu fólki.

Hvernig eyðir þú frítímanum þínum ?
Ég reyni að mæta eins oft og ég get í ræktina, heimsækja vini og vandamenn og svo eftir að ég flutti út frá mömmu er ég alveg rosalega dugleg að bjóða mér þangað í mat og slappa af þar með fjölskyldunni.

Hér má heyra lagið ,,Til þín” sem Stefanía og Jogvan flytja í undankeppninni.

http://www.ruv.is/login/til-thin

Ljósmynd: Ruth Örnólfsdóttir

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here