Stöndum saman um réttindi allra – Svar til Friðriks

Eftir að hafa lesið nýjasta pistil Friðriks Vestdal var ég hugsi. Þó að ýmislegt megi til sanns vegar færa þá get ég ekki tekið undir allt sem þar kemur fram. Það er nefnilega eitt að verja mannréttindi allra, hvort sem um ræðir trú, skoðanir eða tjáningu þeirra, og hitt að gagnrýna það sem er gagnrýni vert. Það sem kannski má hins vegar skoða er hvernig sú gagnrýni er sett fram, ætli eiginkona hans sé að vísa til þess? Oft sé ég á Facebook þar sem slík gagnrýni er sett fram með þeim hætti að hún er í raun engu skárri en það sem verið er að gagnrýna, t.d. þegar umræðan um þarna bandaríska predikarann sem kom fram í Laugardalshöll hérna fyrir nokkru stóð sem hæst. Erum við eitthvað betur sett með slíkt?

Við eigum að standa vörð um gildi og viðmið samfélagsins. Við eigum að standa saman um að jafna réttindi allra, hvort sem um ræðir konur, fatlaða, húðdökka eða múslima. Á sama tíma eigum við ekki að líða að einn hópur nýti sér réttindi sín til að troða á öðrum, en besta leiðin til að berjast gegn slíku er að upplýsa viðkomandi hóp og koma honum í skilning um hver upplifun þolandans er. Til þess duga þó ekki gífuryrði, úthrópanir eða fordæmingar. Það er ekki upplýst umræða. Á því græðir enginn og eina sem gerist er að skotgrafirnar dýpka. Ef Friðrik og konan hans óttast íslam eða það sem þeim trúarbrögðum kann að fylgja þurfum við að upplýsa þau.

Ég tek hins vegar hjartanlega undir niðurlag greinarinnar, um að við eigum að lifa í sátt hvert við annað og kenna börnunum okkar það. Sú sátt þarf að byggjast á gagnkvæmum skilningi en ekki gagnkvæmum ótta, því það er ekki friður. Að lokum þá vil ég benda þeim á, að kannski er hægt að leita til annarra söfnuða en Þjóðkirkjunnar eftir „minna trúarlegri giftingu“, t.d. hjá Óháða söfnuðinum eða Fríkirkjunni.

 

Pistil Friðriks sem vísað er í, má lesa HÉR

SHARE