Sumt fær maður ekki að vita

Ég held að ég hafi verið barn sem spurði mikið. Ég man oft eftir því að hafa farið til mömmu og spurt hana út í eitthvað sem mér fannst bara að hún ætti að vita. Mér fannst mamma mín vita flesta hluti og ég myndi alltaf fá að vita það sem ég þurfti að vita ef ég bara spyrði hana.

Ég spurði hana einu sinni hvar geimurinn endaði. Hvað myndi gerast ef maður færi á geimflaug útí geim og ekkert stoppaði mann? Myndi maður enda á vegg? Eða fara í hring? Hvað væri þá hinum megin við vegginn? Eða fyrir utan þennan hring? Mamma auðvitað gat ekki gefið mér 100% svar en sagði mér að menn hefðu giskað á hitt og þetta og talið sig vita þetta og hitt. Mér fannst þetta engan veginn fullnægjandi svör og þetta var í fyrsta sinn sem ég upplifði að það væri ekki hægt að vita allt. Mér fannst það ekki góð tilfinning. Mig langaði að geta fengið svör við öllum þeim spurningum sem ég hafði. Ég hafði hingað til alltaf fengið svör við því sem mig langaði að vita.

Auðvitað varð ég að sætta mig við að sumt vitum við mannfólkið ekki. Til dæmis hvað gerist þegar maður deyr? Hvort viljum við trúa að allt verði svart eða að himnaríki sé til þar sem við lifum í hamingju og gleði að eilífu? Eða viljum við trúa að hinir látnu séu enn á sveimi í kringum okkur, bara í annarri vídd? Eða að það fæðist aftur sem önnur manneskja? Ég veit eiginlega ekki hvað af þessu er líklegast. Það er misjafnt hverju fólk trúir. En ég held að það sé ómögulegt að fá svör við þessu, allavega á meðan við lifum 😉

 

 

SHARE