„Sumt fólk getur bara verið eins og eitur“

ATH. Þessi grein er aðsend. Lesendum er frjálst að senda inn greinar undir nafnleynd í Þjóðarsálina, en þær skoðanir sem birtast hér í Þjóðarsálinni endurspegla hvorki ritstjórnarstefnu né skoðanir HÚN.IS 

Ég hef glímt við sjálfshatur í mörg ár. Mér hefur aldrei fundist ég nógu góður, alltaf viðbúinn því að ég geri ekki hlutina nógu vel eða bara einfaldlega viðbúinn að ég klúðri öllu á einhvern hátt. Sjúkt, ekki satt? Eins held ég að það hafi aldrei liðið dagur þar sem ég hef ekki sagt við sjálfan mig; „Ég hata mig“. 

Eina lækningin við sjálfshatri er sjálfsást: Þegar ég byrja að sjá verðmæti mitt sem manneskju og þykja vænt um mig og bera virðingu fyrir mér. Síðustu mánuði og ár hef ég verið að vinna með þetta, að læra að þykja vænt um mig, að vera stoltur af mér og fá trú á mér og fá kraft til að fara eftir því sem ég vil í lífinu. 

Ég hef áttað mig á því að ég þarf að passa mig á því hverjum ég gef „tilfinningalegan aðgang að mér“.

Sjá einnig: „Af hverju ertu að taka Concerta?“

Sumt fólk getur bara verið eins og eitur sem drepur mig hægt og rólega með neikvæðni sinni og jafnvel ofbeldi.
Hve mikið elska ég mig? Af því ef ég skil verðmæti mitt og heilbrigði þess að elska sjálfan mig, þá mun ég aldrei leyfa mér að dragast inn í félagsskap neikvæðs og sjálfskemmandi fólks. Og þá mun ég að sjálfsögðu aldrei leyfa neinum að beita mig ofbeldi. Ég loka á svona fólk og aðstæður.

Að elska sjálfan mig snýst um að þekkja verðmæti mitt og gildi sem manneskju. Það snýst um að ég geti elskað sjálfan mig ÓHÁÐ því hvort einhver annar elski mig.
Eina lækningin við sjálfshatri er sjálfsást. 

Hegðun mín í stórum hluta lífs míns hefur sýnt mér það að ég hef aldrei raunverulega elskað mig eða þótt vænt um sjálfan mig. Ég hef sótt í félagsskap fíkniefna, drykkju, siðblindingja og annarra niðurrífandi afla. Enginn sem raunverulega elskar sjálfan sig leitar í svona félagsskap, enginn.

Sá sem elskar sjálfan sig, ber virðingu fyrir sjálfum sér, leyfir sér aldrei að vera í kringum fólk sem talar illa um aðra. Því sá hinn sami veit að þetta fólk talar líka illa um sig þegar hann/hún er ekki nærri.

Sjá einnig: Að lifa með alkóhólisma

Ef ég heyri aðra manneskju tala illa um mig og viku seinna býður sú sama manneskja mér í matarborð, mæti ég í það? Nei, að sjálfsögðu ekki. Ef ég ber virðingu fyrir sjálfum mér, þykir vænt um mig og sé verðmæti mitt sem manneskju að þá loka ég á fólk sem talar illa um mig. Þetta fólk fær ekki lengur „tilfinningalegan aðgang að mér lengur“.

Allt þetta er partur af listinni að elska sjálfan sig. Ég loka á neikvætt fólk og einstaklinga sem sýna niðurrífandi og sjálfskemmandi hegðun. Svona rugl þjónar mér ekki lengur.

Ég vill hamingjusamt líf, líf fullt af gleði og sköpun. Líf sem byggir mig upp þar sem ég get stefnt að því að verða alltaf betri og betri útgáfa af sjálfum mér. Ég vil líf með tilgang þar sem ástríða mín fyrir því sem ég hef áhuga á fær að blómstra.

Elskar þú sjálfa/n þig? Því þú átt það svo sannarlega skilið. Við eigum bara eitt líf. Og ég ætla ekki að sóa því lengur. Ég vona að þessi litla grein hafi haft jákvæð áhrif á einn lesanda. Því þá er tilgangi mínum með þessum skrifum náð.

Það er enginn eins og þú í allri veröldinni. Þú ert einstakt sköpunarverk. Gefðu þér gjöf; Skiptu út sjálfshatri fyrir sjálfsást.
Elskaðu sjálfa/n þig.

Kveðja, vinur á veginum. 

Ef þú lesandi góður vilt deila reynslu þinni hér í Þjóðarsálinni hvetjum við þig eindregið til að senda okkur þína sögu á hun@hun.is.

SHARE