Sykurlausir gosdrykkir – Hvað erum við að drekka?

Sykurlausir gosdrykkir hafa náð mikilli hylli hjá almenningi og því miður eru of margir að neyta alltof mikið af þeim. Sú staðreynd að sykurlausir gosdrykkir hafi náð þessari hylli er að nokkru leyti skiljanlegt því það er margsannað að sykurmiklir gosdrykkir eru síður en svo heilsusamlegir.

Fyrsti sykurlausi drykkurinn sem kom á markað árið 1963 var TAB frá Coca Cola samsteypunni. TAB var sætt með gervisætuefninu sakkarín en Coca Cola hætti að nota það vegna vísbendinga um að það gæti valdið krabbameini. TAB er ekki lengur framleitt en drykkurinn tapaði vinsældum sínum þegar Coca Cola fór að framleiða Diet Coke árið 1982.

Margt virðist benda til þess að þau skipti að fara í  mikla neyslu á sykurlausum gosdrykkjum úr sykruðum gosdrykkjunum sé ekkert gæfuspor fyrir heilsu okkar. Því rannsóknir hafa m.a. sýnt að:

  • Gervisætuefni uppfylla þarfir fólks fyrir sætt bragð án hitaeininga en það blekkir líkamann sem er vanur hitaeiningum með hvaða bragði sem er.
  • Gervisætuefnin plata líkama okkar að vissu leyti. Líkaminn er vanur að fá alvöru mat sem gefur alvöru skynjanir. Þegar líkaminn fær svo ekki það sem hann gerir ráð fyrir, byrja vandræðin í líkamanum.
  • Þeir sem drekka mikið af sykurlausum gosdrykkjum eru yfirleitt þyngri en þeir sem gera það ekki.
  • Gervisætuefnin valda vanstarfsemi á  „verðlauna stöðvum“ í heila okkar og gera það að verkum að við verðum sólgnari í hitaeiningaríkar og sætar matvörur.
  • Þeir sem drekka mikið af gervisætudrykkjum, óháð þyngd, eru í meiri hættu á að látast úr sykursýki, hjartaáfalli og heilablóðfalli.

Sjá einnig: Af hverju er D-vítamín lífsnauðsynlegt fyrir barnið mitt?

Hvað er í sykurlausum gosdrykkjunum?

Það er mjög áhugavert að skoða gaumgæfilega hvað er í þessum sykurlausu gosdrykkjum sem við neytum svona mikið af. Hér eru innihaldslýsingar tveggja vinsælla sykurlausra kólagosdrykkja, Pepsi Max og Coca Cola án sykurs, sem er með gervisætuefnum.

  • Innihaldsefni Pepsi Max: Kolsýrt vatn, litarefni (E150d), sætuefni (aspartam, asesúlfam-K), sýra (E338, E330), sýrustillir (E331) og bragðefni (m.a. koffín). Inniheldur fenýlalanín
  • Innihaldsefni Coca Cola Án sykurs (Zero sugar): Kolsýrt vatn, litarefni (E150d), sýrustillar (E338, E331), sætuefni (aspartam, asesúlfam-K), náttúruleg bragðefni (m.a koffín).

Þessar upplýsingar eru fegnar af heimasíðum Ölgerðarinnar og Coca Cola European Partners á Íslandi.

Það er áhugavert að innihaldslýsingarnar eru með næstum nákvæmlega sömu innihaldsefni. Þó er önnur röðum á innihaldsefnunum. Í innihaldslýsingu er röð efna í minnkandi röð, þannig að þó að það séu sömu innihaldsefni eru þau samkvæmt innihaldslýsingu varanna í mismunandi magni.

Kolsýrt vatn

Þetta er líklega hollasta innihaldsefnið í sykurlausum kólagosdrykkjum þó auðvitað sé hreint vatn alltaf hollasti valkosturinn. Í kolsýrt vatn er búið að setja koltvísýring sem breytist í kolsýru í vatninu. Þetta lækkar aðeins sýrustig vatnsins og mögulega talið að það geti haft neikvæð áhrif á glerjung tanna.

Litarefni (E150d) – Ammóníað, súlfítað karamellubrúnt

E150 er mjög algengt litarefni í matvælavinnslu og gefur karamellubrúnan lit eins og er á þessum kóladrykkjum. Litarefnið er með númerið 150d og er með ammoníum og súlfítum og til samanburðar er 150b bara með súlfítum en ekki ammóníum.
Ammóníum (efnaformúla NH4+) er ólífrænt efni sem inniheldur jákvætt hlaðið köfnunarefni (nitur). Ammoníum efnasambönd innihalda fjölbreytt úrval af ammóníumsöltum og afleiðum. Ammónínum stendur sjaldnast eitt og blandast súlfítsöltum í þessu litarefni.  Ammóníum eitt og sér til inntöku er stórhættulegt en hér er það blandað öðrum efnum og heilsufarsáhrif þess óviss.
Súlfít (efnaformúla SO²⁻) er efnasamband sem er náttúrulega í ýmsum matvælum en er líka bætt í t.d. vín, sem rotvarnarefni. Taka þarf fram á umbúðum ef mikið magn er af súlfítum því það eru til einstaklingar sem eru með ofnæmi og óþol fyrir þeim. En magnið í þessum kóladrykkjum er það lítið að ekki þarf að taka það fram á umbúðum.

Ásættanleg  efri mörk daglegar neyslu (ADI – acceptable daily intake) af þessu litarefni erum 300 mg/kg líkamsþyngdar. Það er engin mannvera að ná þessum efri viðmiðum í neyslu á gosdrykkjum en þó er samt ekki sagt að þetta litarefni sé eitthvað hollustuefni.
Í E150d er efnið 4-methylimidazole (4-MEI) sem myndast í vinnslunni á litarefninu. 4-MEI myndast líka þegar kaffibaunir eru brenndar og kjöt er brennt eða grillað. Í rannsóknum á músum hefur 4-MEI talið vera orsakavaldur lungnakrabbameins en það hefur ekki verið staðfest í mönnum.

Sýra og sýrustillar (E330, E331 og E338)

Þessar sýrur og sýrustillar tilheyra aukaefnaflokknum (E-efni) þráavarnarefnum. Þeim er m.a. bætt í drykkjarvörur til að koma í veg fyrir litarbreytingar, bragðbæta og stýra sýrustigi.

E330 (sýra)= Sítrónusýra – Lífræn sýra og finnst náttúrulega í sítrusávöxtum.
E331 (sýrustillir) = Natríumsítröt –  Natríumsölt af sítrónusýru; monosodium citrate, disodium citrate og trisodium citrate (algengasta formið). Þessi natríumsölt geta stuðlað að bjúgsöfnun með því að binda vatn í líkamanum.
E338 (sýra, sýrustillir) = Fosfórsýra  –  Fosfórsýran gefur kóladrykkjum einkennandi súrt bragð og eru þeir stundum kallaðir fosfatgosdrykkir.
Fosfórsýra er þekkt fyrir að geta eytt glerjungi tanna og einnig að valda nýrnasteinum, sérstaklega hjá þeim sem hafa fengið nýrnasteina áður.
Mikil og langvarandi gosdrykkjaneyslu getur valdið beinþynningu í konum og er fosfórsýran talin einn af orsakavöldunum þar.

Gervisætuefni (aspartam og asesúlfam-K)

Hér eru innihaldsefnin sem eru hvað mest umdeild og eru talin hvað mest heilsuspillandi. Eins og var talið að ofan þá gefa gervisætuefnin sætt bragð en það fylgja engar hitaeiningar með þeim, eins og líkaminn er vanur í öllum mat. Í Pepsi-Max er samkvæmt innihaldslýsingu meira af gervisætuefnunum því þau eru framar í röðinni í innihaldslýsingunni.
Þessi sætuefni hafa verið svo umdeild að Pepsi samsteypan tók aspartam úr Diet Pepsi árið 2015 en kom svo með það aftur á markað 2016, eftir pressu frá neytendum (sama ástæða og þeir tóku það úr umferð ári fyrr).

Aspartam
Er gervisætuefni sem 200 sinnum sætara en venjulegur strásykur (súkrósi). Það brotnar niður í líkamanum í  amínósýrurnar fenýlalanín og apartiksýru. Um 10% brotna niður í metanól (tréspíritus).
Þeir sem eru með efnaskiptasjúkdóminn fenýlketónúríu (PKU) geta ekki brotið niður amínósýruna fenýlalanín og verða því að forðast aspartam og aðrar matvörur sem innihalda fenýlalanín. Því verður að taka fram á matvörum ef þær innihalda fenýlalanín, en þó hefur Coca Cola ekki gert það á heimasíðu sinni.
Sæta bragðið af aspartam endist mun lengur en sæta bragðið af venjulegum sykri og því er sætuefninu asesúlfan – K oft bætt saman við (eins og í þessa kóladrykki) til að reyna að ná betri bragðgæðum og líkari upplifun af venjulegum sykri.
Ásættanleg  efri mörk daglegar neyslu af aspartami er 40 mg/kg líkamsþyngdar.
Aspartam er ótrúlega mikið rannsakað efni og enn hafa ekki komið fram rannsóknir sem sýna fram á að það sé stórhættulegt mönnum þó að ýmsar vísbendingar séu um að það auki lýkur á offitu, sykursýki týpu 2, krabbameinum, brengli hormónastarfssemi og trufli heilaboðefni.

Asesúlfam-K
Asesúlfam-K er gervisætuefni sem er 200 sinnum sætari en venjulegur strásykur (súkrósi). K-ið í asesúlfan stendur fyrir kalíum (e. potassium) sem er með bókstafinn K í lotukerfinu. Það var uppgötvað af tilviljun af þýskum vísindamönnum árið 1967.
Asesúlfam-K er nær aldrei notað eitt og sér í gosdrykki og algengast er að því sé blandað við aspartam í sykurlausum gosdrykkjum til að líkja eftir „rétta“ sætubragðinu og virðist blanda þessara tveggja sætuefna henta vel til ná þessu bragði. Einnig er þetta sætuefni notað í mun fjölbreyttari vörur því það þolir hitun (en aspartam gerir það ekki) og má til gamans geta að hægt er að nota asesúlfam-K til að áætla hversu mikið af þvagi er í almenningssundlaugum.
Þetta gervisætuefni er ekki hollustuefni frekar en önnur gervisætuefni og ásættanleg  efri mörk daglegar neyslu er um 15 mg/kg líkamsþyngdar.

Bragðefni (m.a. koffín)

Í innihaldslýsingu beggja drykkjanna kemur fram að þau þær innihaldi koffín sem er reyndar undir bragðefnum. Koffín gefur nefnilega einkennandi beiskt bragð. Koffín er talsvert í kóladrykkjum og eru:

  • 65 mg koffín í 500 ml af Pepsi Max.
  • 48 mg koffín í 500 ml af Coca Cola án sykurs.

Þessar upplýsingar eru fengnar frá Bretlandi en ekki fundust nýlegar tölur um koffínmagn í þessum kóladrykkjum hérlendis.

Eins og flestir vita er koffín örvandi efni og hefur m.a. áhrif á miðtaugakerfið og meltingu. Í þessu samhengi má nefna að venjulegur kaffibolli (200 ml, uppáhelling) er með um 100 mg koffín og óhófleg koffínneysla er talin meira en 400 mg á dag fyrir fullorðna einstaklinga (eða fjórir kaffibollar).
Ef maður er að rýna í hvers vegna þessir drykkir og sérstaklega Pepsi Maxið sé svona ávanabindandi er varla hægt að benda á koffínið því þótt neyslan sé 2-3 L á dag þá er verið að tala um 260-390 mg koffín á dag. En vissulega er Pepsi Max með meira koffín en Coca Cola án sykurs en varla er þar munur sem ætti að útskýra mun meiri fíkn í það.

Sjá einnig: 20 einkenni ADHD hjá ungum stúlkum

Niðurstaða

Þessi grein er hugsuð sem fræðsla fyrir almenning sem drekkur ótrúlegt magn af gervisætudrykkjum án þess að gera sér í raun veru grein fyrir hvað er nákvæmlega í þessum drykkjum.
Þessir tveir kóladrykkir eru ekki hollustudrykkir að öðru leyti en því að meirihluti drykkjarins er vatn en það er of mikið af óæskilegum aukaefnum með vatninu.
Hvað það er sem veldur fíkn eins og sumir virðast upplifa af Pepsi Max er rannsóknarverki framtíðar vísindamanna. Er það magn gervisætuefnanna sem skiptir máli? T.d. er það meira í Pespi Max en í Coca Cola án sykurs a.m.k. samkvæmt innihaldslýsingu þar sem röð innihaldsefna á að vera í minnkandi röð. Er það sýrurnar og sýrustillarnir sem skipta máli eða koffínmagnið? Kannski er það nákvæmlega blanda allra þessara efna sem veldur þessari fíkn en það eru allt getgátur.

En í millitíðinni meðan við bíðum eftir niðurstöðum þá er um að gera að takmarka neyslu þessara drykkja og nota það þá sem spari, ef við viljum bera ábyrgð á eigin heilsu. „Ef við ættum að drekka mikið af gervisætudrykkjum þá væru vötn og ár fullar af þessum drykkjum“.

GERVIsætuefnadrykkir eru gervimatvörur og við ættum að reyna að vera alvöru mannverur og borða sem minnst af gervimat því hann platar bara líkama okkar. Forðumst mat sem krefst þess að við höfum doktorspróf í efnafræði til skilja nöfn innihaldsefnanna.

Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, næringar- og matvælafræðingi ritstjori@nlfi.is

Heimildir og frekari upplýsingar

https://vefverslun.olgerdin.is/vara?ProductID=26261_oes
https://www.cocacola.is/vorumerkin-okkar/coca-cola
https://en.wikipedia.org/wiki/Tab_(drink)
https://heilsuseigla.com/2020/09/gosdrykkir-med-og-an-sykurs/
https://www.visindavefur.is/svar.php?id=3419
https://www.mast.is/is/matvaelafyrirtaeki/efni-i-matvaelum/aukefni#litarefni
https://en.wikipedia.org/wiki/Phosphoric_acid
https://en.wikipedia.org/wiki/Phosphate_soda
https://en.wikipedia.org/wiki/Aspartame
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/05/17/aspartame_notkun_helst_obreytt/
https://www.mast.is/static/files/library/Listar/ListiAukefnimatvaelum1507KG.pdf
https://www.visir.is/g/2017664034d
https://en.wikipedia.org/wiki/Caramel_color
https://world.openfoodfacts.org/additive/en:e338-phosphoric-acid
https://en.wikipedia.org/wiki/Aspartame
https://en.wikipedia.org/wiki/Acesulfame_potassium
https://www.theguardian.com/lifeandstyle/2016/dec/12/studies-health-nutrition-sugar-coca-cola-marion-nestle
https://qz.com/718300/pepsi-is-putting-the-artificial-sweetener-aspartame-back-in-its-diet-soda-after-a-customer-revolt/
https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/34200310/
https://www.jacc.org/doi/pdf/10.1016/j.jacc.2020.08.075
https://www.tctmd.com/news/both-sugary-and-artificially-sweetened-drinks-linked-cvd
https://academic.oup.com/nutritionreviews/article/75/9/718/4101228?login=false
https://www.mast.is/static/files/Uploads/document/Skyrslur/koffinskyrsla2006-7.pdf
https://www.caffeineinformer.com/caffeine-content/uk-pepsi-max
https://www.caffeineinformer.com/caffeine-content/coke-zero
https://www.visir.is/g/20222222970d

Greinin er fengin af vef Náttúrulækningafélagsins www.nlfi.is og er birt með góðfúslegu leyfi þeirra.

SHARE