Taka upp íslenska kvikmynd á 8 dögum – Frumsýnd um páskana

Tökur eru hafnar á kvikmyndinni Fiskar á þurru landi í stúdíói Sagafilm við Laugaveg en myndin verður sýnd í tveimur hlutum á RÚV um páskana. Það eru ánægjulegar fréttir að RÚV hyggst taka virkan þátt í kvikmyndavorinu með því að bjóða upp á frumsýningu á glænýju íslensku efni um páskana. Fá fordæmi eru fyrir því og er þetta vonandi merki um það sem koma skal í ljósi aukinnar fjárveitingar til kvikmyndagerðar.

Fiskar á þurru landi gerist á gistiheimili í litlu plássi úti á landi en myndin er byggð á leikriti eftir Árna Ibsen. Handritið skrifuðu þeir Óskar Jónasson og Sjón en Óskar er enn fremur leikstjóri myndarinnar. Óskar er Íslendingum góðkunnur og hefur meðal annars leikstýrt sjónvarpsþáttaseríunum Pressa, Svartir englar og Stelpurnar.

 

Það er töfrum líkast að kíkja inn í stúdíóið í Sagafilm þessa dagana því búið er að byggja gistiheimilið í heild sinni þar inni. Það er gríðarlega mikil vinna sem liggur á bak við þessa metnaðarfullu sviðsmynd en upptökur á myndinni taka aðeins átta daga sem er talsvert styttra tökutímabil en gerist og gengur.

 

Fjórir leikarar gæða persónur í Fiskar á þurru landi lífi. Það eru þau Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Hilmar Guðjónsson, Sara Margrét Nordahl og Davíð Guðbrandsson.

 

Myndin er framleidd af Sagafilm, stærsta framleiðslufyrirtæki landsins á sviði sjónvarpsþáttagerðar, sjónvarpsauglýsinga, kvikmyndagerðar og viðburða. Sagafilm hefur framleitt margar verðlaunuðustu sjónvarpsseríur landsins eins og Vaktarseríurnar, Pressu, Rétt, Ástríði og Svarta engla sem og kvikmyndirnar Bjarnfreðarson og Köld slóð.

Það verður gaman að fylgjast með og horfa á þessa mynd um páskana!

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here