Það sem ekki má ræða

Mig hefur lengi langað til að skrifa einhverjum um mín mál, bara til að losa. Mér hefur alltaf fundist eins og ég megi ekki tala um þetta, fólk má vita að ég er ein af þeim mörgum sem lent hafa í þessu, en ég virðist aldrei mega segja hvað. Sumir sem ég hef talað við, hafa spurt mig, ,,hvað var það sem hann gerði?” Og ég veit yfirleitt ekki hverju ég á að svara.

Nú munu eflaust margir hugsa, ,,en til hvers að segja frá smáatriðum? Af hverju þurfum við að vita það?” Nú, það er kannski ekkert nauðsynlegt fyrir ykkur að vita það, en það er virkilega nauðsynlegt fyrir mig að tjá mig um þetta. Ég vona líka, að einhver haldin barnagirnd sé að lesa þetta, og þó það séu litlar sem engar líkur á því að aðili, með barnagirnd sem lesi þetta, hætti að finna fyrir barnagirnd, þá vona ég samt að þetta muni hafa áhrif, og fái þann aðila til að hugsa hvað hann er að gera, næst þegar hann ætlar að eiga við barn.

Þegar ég var barn, var ég misnotuð kynferðislega á hrottalegan hátt, fyrir 3gja ára aldur. Ég, lítið barn, með lítinn kropp, upplifði eitthvað sem ég hefði aldrei þurft að upplifa. Eitthvað sem barn á aldrei að þurfa að upplifa. Eitthvað sem enginn þarf að upplifa. Nauðganir. Ekki eina, ekki tvær heldur margar. Ég man ekki eftir öllu, ég var nú ekki gömul en ég fæ svona myndir í hugann. Þetta hætti á þessum tíma, þegar ég hafði loksins vit á því að segja frá. Og þegar ég tala um að hafa loksins vit, nú, ég var bara smábarn. Ég vissi ekkert hvað þetta var.

Hann var náinn ættingi, mjög náinn. Og kannski þess vegna sem foreldrar mínir treystu honum. Það var líka ástæðan fyrir því að hann var aldrei kærður. Það mátti ekki “skemma” fjölskylduna. Þetta var víst svo erfitt fyrir alla aðra en mig. En hann játaði, margoft. Fyrir foreldrum mínum og fyrir mér. Í mörg ár eftir þetta, sá ég hann á hverjum degi. Ég mætti honum í búðinni, þegar ég var á leið úr skólanum, og svosum alveg sama hvar ég var. Þetta var lítið samfélag, allir vissu af þessu, en enginn gerði neitt. Ég hef alltaf verið frekar reið við foreldra mína fyrir að hafa ekki gert neitt í þessu, annað en að láta hann hætta umgangast okkur. Ég reið að ég fékk aldrei að finna fyrir réttlæti. Það er sorglegt að vita til þess að þetta sé svona algengt, ekki bara ofbeldið gegn börnum, heldur að þessi mál skuli oft ekki fara lengra en þetta.

Árin liðu og reiðin stigmagnaðist eftir því, einhvern daginn ætlaði ég að taka málin í eigin hendur. Ég var reiður krakki. Ég man að ég gekk til sálfræðings, margoft sem barn. Hann mat það svo, að þetta myndi ekki hafa áhrif á mig í framtíðinni. Hvernig getur sálfræðingur spáð svona fram í tímann? Hvernig gat hann sagt til um það að ég myndi bara jafna mig á þessu og halda áfram með mitt líf? Þetta gerði mig enn reiðari. Mér fannst ég aldrei mega tala um þetta, fékk margsinnis að heyra ,,til hvers, þetta er búið og gert, það er ekkert að fara breyta þessu.” Það stakk mig að heyra þetta. Þegar ég loks varð 18 ára tók ég stórt skref, eitt það stærsta sem ég hef á ævinni tekið. Ég fór sjálf og lagði fram kæru. Ein míns liðs. Ég sagði frá öllu. Hann var kallaður í skýrslutöku og játaði allt. Og hikaði ekkert við það. Ég veit að margir voru ekki sáttir með mig, ég var að rífa upp gömul sár. En mér fannst engum koma það við, ég var að rífa upp mín sár. Sár sem í raun og veru greru aldrei. Ég hafði kynnst yndislegum strák fyrir þann tíma sem studdi mig. Við höfðum ekki verið saman lengi, en hann var minn sterkasti klettur á þessum tíma.

Vikurnar liðu, og ég beið og beið eftir svari frá lögfræðingnum mínum. Svo fékk ég bréf inn um lúguna hjá mér, frá Ríkissaksóknara, og mér tilkynnt það að málið þótti ekki líklegt til sakfellingar og því var það fellt niður. Lögfræðingurinn minn tjáði mér að það hefði verið fyrnt. Ekkert væri hægt að gera, en ég gæti þó verið ánægð með sjálfa mig að hafa tekið stóra skrefið og kært þetta. Hvernig átti ég að vera ánægð með þetta svar? Hvernig gat ég verið ánægð að hafa lifað í reiði og gremju öll þessi ár til að fá þetta svar? Þetta var eins og köld tuska í andlitið, sem hefði verið slegin framan í mig, aftur og aftur og aftur. Þangað til mér fór að blæða. Ég skellti á lögfræðinginn minn, reif bréfið í tætlur og braut held ég allt sem brothætt var nálægt mér. Ég rauk út í bíl, keyrði af stað, og var staðráðin í því að hitta hann. Horfa í augun á honum á meðan ég segði honum frá því hvað hann væri ógeðslegur. Hann rústaði lífi mínu. Ég keyrði hratt, svo hratt að bíllinn hristist. Mér var í raun alveg sama hvort ég kæmist á leiðarenda eða hvort ég færi útaf veginum. En af einhverjum ástæðum, stöðvaði ég bílinn. Sem betur fer. Ég snéri við. Ég ákvað að ég ætlaði ekki að láta hann hafa meiri áhrif á mig. Það var ekkert meira sem ég gat gert. Ég var alveg búin. Búin með alla orku.

Ég eyddi alltof mörgum árum í reiði, sem stálu frá mér allri orku, allri gleði og lífsvilja. Þarna ákvað ég að nú væri komið að mér. Ég ætlaði að lifa lífinu og njóta þess. Ég flutti í burtu og hóf nýtt líf á nýjum stað. Í dag á ég yndislega fjölskyldu, mann sem er ómetanlegur og dóttur sem er mér allt. Hann er dáinn. Tók eigið líf fyrir einhverjum árum síðan. Mörgum mun örugglega finnast ljótt af mér að segja þetta, en daginn sem hann dó, fann ég loksins fyrir þessari réttlætistilfinningu sem ég hafði þráð svo lengi. Ég þarf aldrei að sjá hann aftur. Þrátt fyrir það finn ég til með fjölskyldunni hans. Gjörðir hans höfðu ekki bara áhrif á mig, heldur alla í kringum hann. Hann var sonur, bróðir, frændi, vinur. Ég fæ sting í hjartað þegar ég hugsa til foreldra hans og systkina. Vegna þess, að þegar ég horfi á dóttur mína, þá hugsa ég oft að það er alveg sama hvað hún gerir í lífinu, ég gæti aldrei hætt að elska hana. Hún er barnið mitt. Hún óx inn í mér, ég fæddi hana og ól hana upp.

Margir kalla þetta sálarmorð, ég geri það ekki. Það fer eiginlega í taugarnar á mér þegar fólk gerir það. Ég er hamingjusöm í dag, mér líður vel. Ég á allt lífið framundan.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here