„Það skemmtilegasta sem ég geri“

Magnea Einars fatahönnuður fékk 3 milljóna króna styrk frá Hönnunarsjóði til að klára fatalínur næsta árs.

 

Styrkurinn hefur mjög mikla þýðingu fyrir mig og fyrirtækið mitt. Það tekur tíma að byggja upp fatahönnunarfyrirtæki og ég hef byggt það upp sjálf hingað til með góðri aðstoð, til dæmis frá Hönnunarsjóði en þetta er þriðji styrkurinn sem ég fæ þaðan,“ segir Magnea Einarsdóttir fatahönnuður sem fékk á dögunum 3 milljón króna styrk frá Hönnunarsjóði Íslands, en það var hæsti styrkurinn sem var úthlutað.

„Þessir styrkir gera mér kleift að taka mikilvæg skref í áttina að því að skapa sjálfri mér og vonandi fleirum atvinnu í fatahönnunargeiranum hér á Íslandi sem er enn frekar ungur. Þetta getur verið mikið hark en á sama tíma það skemmtilegasta sem ég geri – svo það er auðvitað ákveðin viðurkenning líka að finna fyrir stuðningi af þessu tagi,“ segir Magnea sem útskrifaðist sem fatahönnuður með áherslu á prjón, frá Central St. Martins í London árið 2012.

Hún sótti um styrk úr sjóðnum fyrir vöruþróun og markaðssetningu á næstu tveimur fatalínum, fyrir vor/sumar 2017 og haust/vetur 2017.
„Markmiðið er að kynna línurnar og um leið merkið á erlendum markaði og gerir styrkurinn mér kleift að láta þær áætlanir verða að veruleika,“ segir Magnea sem er að fara á fullt núna í að klára vor- og sumarlínu næsta árs, en til stendur að hún fari á sölusýningu í París í lok september. Þá er hún einnig að ganga frá pöntun á haustlínunni sem kemur í verslanir í ágúst.

Aðspurð segist Magnea ganga meira í sinni eigin hönnun í dag en hún gerði fyrst „Það gerðist aðallega eftir að ég hannaði draumakápuna mína, síðan hef ég varla farið úr henni.“

SHARE