Þegar aðrir sjá ramma og mjög einfaldan kertastjaka, þá sé ég allt annað.

Sumir halda ábyggilega að ég hljóti að vera með mjög sérstakar linsur, vegna þess að ég sé mjög oft allt annað en aðrir. Ég meina, hver annar fer inn í Fjölsmiðjuna (sem er búð hérna á Akureyri sem selur notaða hluti), kaupir mjög einfaldan viðarramma og ennþá einfaldari kertastjaka, til þess að sameina þessa hluti í eitthvað ótrúlega flott?

Jæja, tölum um hvað þú þarft. Þú þarft ramma, kertastjaka, spotta/reipi, glasamottur úr við (ég keypti þessar á útsölu, 6 stykki saman á 10 krónur! hef varla gert betri kaup, hugsið ykkur möguleikana!), gráa og hvíta málingu, bursta (ég elska þessa svampbursta), 4 íspinnaspýtur (já, þegar börnin mín fá íspinna þá hirði ég stundum spýturnar…. ég veit, ég er skrítin), trélím, límbyssu og límstauk. Það voru 2 hlutir sem mættu of seint í myndatökuna (lesist; ég bætti þeim við eftir á) en þið sjáið það síðar.

Ég byrjaði á því að fjarlægja bakið, glerið og klemmurnar sem halda glerinu af rammanum og málaði hann fyrst gráan og svo þurrmálaði ég hann hvítan. Þurrmálun er þegar þú málar eiginlega með þurrum bursta, þekur ekki allt yfirborðið.  Glasamottan var aðeins of stór fyrir ramman þannig að ég sagaði hana til áður en ég málaði hana á sama hátt og rammann. Ég mældi íspinnaspýturnar, klippti þær til og málaði þær eins. Ég vildi gera standinn fyrir kertið aðeins öruggari þannig að ég bætti við 2 viðarkubbum sem ég málaði hvíta.

Ég notaði trélímið til að líma spýturnar á það sem þekktist áður sem glasamotta en er núna orðið kertastandur og viðarkubbana á rammann. Ég leyfði þessu svo að bíða í nokkra klukkutíma áður en ég límdi standinn á rammann.

Núna er komið að kertastjakanum sjálfum. Ég notaði límbyssuna mína til að festa/líma reipið við glerið. Ég setti litla doppu af lími neðst glerið, festi reipið við, vafði nokkra hringi, setti doppu af lími… þið náið myndinni. Þegar ég var komin hæfilega langt upp (að mér fannst) þá klippti ég og festi endann niður með doppu af lími. Mér fannst stjakinn þurfa eitthvað meira, og bætti við blómum og perlu fyrir miðjuna á blóminu.

Svo var bara að finna veggpláss…..

SHARE