„Þegar hann hélt ég væri hætt að anda, öskraði ég“

ATH. Þessi grein er aðsend. Lesendum er frjálst að senda inn greinar undir nafnleynd í Þjóðarsálina, en þær skoðanir sem birtast hér í Þjóðarsálinni endurspegla hvorki ritstjórnarstefnu né skoðanir HÚN.IS 

Mig langar til að stíga fram og segja frá minni upplifun af kynferðislegu ofbeldi, ofbeldi í sambandi og afleiðingar þess.

Ég var í sambandi með manni í ca. þrjú og hálft ár, vorum trúlofuð og áttum von á barni. Þetta var haustið 2019 og við vorum þá á leið í hjónaband.

Þegar ég kynnist þessum manni lá ég inni á spítala þar sem ég braut á mér ökklann og brotnaði það illa að ég þurfti að fara í aðgerð til að negla saman brotið. Ég eyddi 11 dögum á spítala, ein í Noregi, en öll fjölskyldan mín var heima á Íslandi og voru meðal annars að passa strákana mína fyrir mig. Stuttu eftir að ég kem út af sjúkrahúsinu komu synir mínir út til mín aftur og við eyddum restinni af sumarfríinu saman út í Noregi í 3 vikur.

Þegar ég og þessi maður höfðum talað saman oft á dag í síma, í nokkrar vikur ákváðum við loks að hittast. Vá ég hafði aldrei fundið fyrir eins miklum áhuga …vá athyglin sem hann sýndi mér frá fyrsta samtali. Loks ákváðum við að hittast þegar drengirnir voru farnir heim aftur til pabba síns. Þar sem ég var að jafna mig eftir aðgerðina og þurfti aðstoð þá bauð hann fram hjálp sína og bauð mér að koma og vera hjá sér og sagðist vilja hugsa um mig. Þegar við vorum búin að vera saman í 3 mánuði og ég búin að sýna honum að ég færi ekki frá honum þrátt fyrir að hann beitti mig þessu ofbeldi, bað hann mig giftast sér. Hann sagði að hann hefði dreymt um það síðan hann var lítill að hann myndi eignast íslenska konu. Ég sagði honum að við yrðum að bíða með það þar sem 3 mánuðir væru alltof stuttur tími til að fara í hjónaband. Þessi tími er tíminn sem ég myndi hiklaust vilja stroka út úr lífi mínu. Ég vil nota þessa reynslu til að miðla til annarra kvenna sem hugsanlega gætu lent í því sama.

Fyrst, þegar við vorum rétt að kynnast þá leit hann bara út eins og þessi fínasti maður, hávaxinn, myndarlegur og í góðu líkamlegu formi. Hann virkaði mjög heilbrigður, drakk hvorki né reykti. Hann var þvílíkur sjarmör sem fangaði athygli mína. Ég var fljót að falla fyrir honum. Það liðu ekki margar vikur þar til að hann var byrjaður að ráðast á mig að ástæðulausu. Það leið heldur ekki langur tími eða bara um leið og ég var flutt inn til hans sem gerðist mjög fljótt. Það leið ekki langur tími þar til hann var farinn að beita mig andlegu ofbeldi; kalla mig ljótum nöfnum, skipa mér fyrir, gagnrýna mig, gera lítið úr mér og tilfinningum mínum, einangra mig og því næst fór hann að beita mig grófu líkamlegu ofbeldi.

Hann átti alltaf erfitt með að stjórna skapinu sínu. Hann tók reiðina út á mér, ég varð í hvert skipti fyrir barðinu á henni. Ef ég gerði ekki eins og hann vildi var ég lamin, hann sparkaði í mig, tók mig kverkataki og kastaði mér fram og til baka. Ég var kölluð ýmsum ljótum nöfnum, klipin, ýtt og hótað öllu illu. Hann hótaði mér einnig oft og mörgum sinnum að hann myndi drepa mig ef ég gerði ekki eins og hann sagði mér að gera, þá sérstaklega eftir að hann hafði lamið mig þá átti ég bara að láta eins og ekkert hafi gerst. Þegar hann byrjaði að láta höggin dynja á mér þá hætti hann aldrei sama hversu hrædd og óttaslegin ég var. Ef ég grét barði hann fastar, ef ég byrjaði að titra úr hræðslu þá sagði hann þoldi ekki fólk sem var hrætt og taugaveiklað, það væru aumingjar og hélt áfram að láta höggin dynja á mér. Sama hvað, hann hætti ekki fyrr en hann var búin að fá útrás fyrir reiðina og réttlætti ofbeldið væri afleiðingar af því ég hagaði mér ekki eins og hann vildi því ég sagði ekki nákvæmlega það sem hann vildi. Oft fraus ég og kom ekki upp orði þá réðst hann á mig. Hann barði mig, sparkaði í mig og hló að mér þar sem ég lá og hélt fyrir andlitið, útgrátin, með ekka, hágrátandi á gólfinu yfirleitt huldi ég höfuð mitt og andlit. Hann tók oft utan um hálsinn á mér og þrýsti og sleppti ekki fyrr en ég var farin að hósta, skellti höfðinu á mér í veggina, hótaði mér með hníf, hrinti mér hingað og þangað, kallaði mig allskyns ljótum nöfnum, kleip mig og gerði grín af mér. Ég reyndi eins og ég gat að forða mér, ég reyndi oft að hlaupa út eða ég reyndi að læsa mig inná baðherbergi en stundum náði hann mér. Þá fékk ég virkilega á finna fyrir því og ofbeldið varð bara mun verra.

Eitt skipti var ég orðin virkilega þreytt og uppgefin. Ég gekk inn í svefnherbergið og lagði mig í grúfu undir sængina hann gengur inn í herbergið, lokar hurðinni, slekkur ljósið og dregur svo niður gardínurnar. Því næst gengur hann í áttina að mér og rífur af mér sængina og fleygir mér í rúmið mitt þar sem hann berst við mig til að ná mér úr buxunum og nærbuxunum sem honum tekst svo á endanum. Það næsta sem hann gerði get ég ekki farið ítarlega útí en ég get sagt það að ég myndi ekki óska mínum versta óvini að upplifa þetta. Hann sagði að ég skuldaði honum að vera hlýðin og ekki mótmæla hvert skipti fann ég að tárin láku niður á meðan hann lauk sér af.

Mig langaði alltaf til að trúa því að hann gæti breyst og orðið betri, en svo varð aldrei. Á þessum tíma sem ég var í sambandinu taldi ég sjálfri mér trú um að þetta væri bara venjulegt, að það væri ekkert svakalegt í gangi og ég gerði mér enga grein fyrir því að ég væri í ofbeldissambandi. Lengi vel kenndi ég sjálfri mér um framkomu hans og hélt að eitthvað hlyti að vera að mér sjálfri, að ég væri svona geðveik, treg, leiðinleg, pirrandi og óþolandi og þess vegna væri hann svona. Í dag hef ég gert mér grein fyrir því að þetta var ekki mér að kenna og ég gerði ekkert rangt. Þessu fylgir svo mikil reiði og skömm. Öllu ofbeldi fylgja afleiðingar. Í mínu tilfelli sökk ég í mikið þunglyndi og kvíða og þróaði með mér mikla átröskun og sjálfshatur. Mig langaði oft til að hverfa úr þessum heimi og nokkrum sinnum reyndi ég að taka mitt eigið líf, en af einhverjum ástæðum tókst mér það aldrei, guði sé lof. Það var eins og mér hefði birst einhver ósýnileg hjálparhönd sem ég greip í, sem ég er mjög fegin yfir. Reyndi oft að fara frá honum vildi að við færum í sundur í smá tíma. Alltaf þegar ég náði að fara úr landinu og hingað heim í frí til fjölskyldunnar, sem ég fékk takmarkað að vera í samskiptum við eða hitta, kom hann og sótti mig. Barnsfaðir minn var ógn fyrir honum og þess vegna þurftu öll samskipti sem vörðuðu börnin að fara í gegnum hann. Mér var bannað að tala við barnsföður minn.

Eitt skipti eftir að hann hafði hrætt úr mér líftóruna, sem kom nokkrum sinnum fyrir á þessu tímabili, þurfti ég að flýja heimili okkar og í eitt skiptið þurfti ég að dveljast nokkrar nætur á Kvennaathvarfinu í Noregi. Ef ég náði að flýja land fann hann sér ástæðu til að koma til Íslands. En í rauninni var hann bara að koma til þess að ná mér aftur til baka og sækja mig til að fara með mig heim. Hann taldi sig eiga mig og ég væri hans eign. Ég mátti ekki vinna en hann vildi samt að ég borgaði helminginn af íbúðinni og öllum útgjöldum heimilisins. Ég var því háð honum fjárhagslega en hann vildi helst að yrði öryrki og helst óvinnufær.

Sjá einnig: Þórunn íhugaði sjálfsvíg til þess að vera ekki byrði á sínum nánustu

Hann var mjög afbrýðissamur út í aðra karlmenn, jafnvel út í vinkonur mínar sagði þær hafa slæm áhrif á mig og ég ætti ekki að vera í samskiptum við sumar af þeim. Í gegnum allt þetta þá tókst mér að halda mér edrú allan tímann, fyrir utan eitt skipti. Ég kom heim eftir að hann hafði frelsissvift mig í marga daga. Hann hafði farið erlendis og ég nýtti tækifærið og reyndi að fara frá honum. Kom heim og fór í gamla félagsskapinn, féll í 2 dag í desember 2017. Fór strax í meðferð og er því komin með 2 ára edrúmennsku. Ég lokaði á öll samskipti við hann í 3 mánuði en gerði þau mistök að byrja að tala við hann aftur. Ákvað að gefa honum sjéns því ég trúði að hann virkilega elskaði mig . Var sannfærð um að hann myndi leita sér aðstoðar og hann lofaði mér að hann væri að fá hjálp og vildi ekkert eins heitt eins og við myndum byrja aftur saman. Hann lofaði að hann myndi aldrei meiða mig aftur. Ég trúði honum og fór aftur til baka til hans eftir að hafa náð 3 mánaða edrúmennsku. Ég hélt hann væri breyttur maður og ofbeldinu væri lokið. Ég var komin í vinnu á Íslandi og varð að segja upp vinnunni minni og íbúðinni hér heima. Ég trúði að hann væri stóra ástin í lífi mínu.

Stuttu eftir að ég kom út og flutti inn til hans aftur byrjaði ofbeldið því ég átti að taka afleiðingum gjörða minna, því ég særði hann svo mikið þegar ég yfirgaf hann. Fljótlega kom hann með þá hugmynd að við ættum skilið að fara út í sólina, bara tvö. Við ættum að fara til Tælands í nokkrar vikur og ég mætti alls ekki segja neinum frá því að við værum að fara erlendis og það væri mjög mikilvægt var að ég myndi skilja símann minn eftir og ég ætti að halda mig frá öllum samskiptamiðlum. Þegar við erum komin til Tælands kemst ég að því að hann er eftirlýstur af Interpol og hann var að flýja land. Hann átti að fara að afplána dóm sem hann fékk fyrir 10 árum síðan. Hann sagði að ég væri samsek því ég vildi fara heim og ef lögreglan mundi elta mig uppi og jafnvel kæra mig fyrir að hafa aðstoðað hann við að flýja. Það varð úr að við vorum í Asíu í 11 mánuði. Ég hafði verið í 10 ár í fitness og ákvað því að taka þátt í móti í því á meðan við vorum þarna úti. Ég var þrisvar lögð inn á spítala í undirbúningnum fyrir keppnina. Læknirinn sagði að ég ætti ekki að taka þátt og ég yrði að hvíla mig. Hann varð brjálaður þegar hann heyrði þetta og réðst á mig. Hann sagðist ætla að drepa mig, treður skeið ofan í hálsinn á mér og setur púða yfir andlitið á mér og reynir að kæfa mig. Ég hélt þarna að ég myndi deyja. Þegar hann hélt að ég væri hætt að anda náði ég að öskra og þá var bankað á dyrnar hjá okkur.  Ég lauk þessu ferðalagi náði mér á Brons á stórmóti í Fillipseyjum. 

Nú eru 4 mánuðir síðan ég tók skrefið og fór frá honum. Þegar ég flutti út frá honum í eigin íbúð, man að þá grét ég nokkra klukkutíma man svo tilfinninguna þetta var eins og að sleppa úr fangelsi þvílíkt frelsi. Eftir að hafa verið haldið í gíslingu allan þennan tíma. Nú ætla að standa uppi sem sigurvegari. Hann fær ekki að sigra mig. Aldrei aftur. Ég er betri en hann. Ég er með galopið sár á sálinni sem ég berst við að loka og með aðstoð fagfólks, fjölskyldunnar og dýrmætu vina minna.

Sjá einnig: Bráðamóttakan er í rúst og búin að vera lengi

Með því að stíga fram og segja mína sögu vonast ég til að hafa áhrif. Ég vona að ég geti hjálpað öðrum einstaklingum sem berjast við svona sambönd, að koma sér úr þeim. Þetta er ekki fórnalambinu að kenna og ég hvet fórnalömb að leita sér hjálpar – það er mikilvægt.

Ég er búin að vera edrú í 25 mánuði er að hefja síðustu önnina í snyrtifræðináminu og er að fylgja draumum mínum. Er í endurhæfingu hjá Hugarafl og stefnan er að byrja að starfa sem snyrtifræðingur á snyrtistofu á höfuðborgarsvæðinu. Maðurinn hefur verið ákærður af lögreglunni í Noregi og mun vonandi fá dóm fyrir að brjóta á mér. Er búin að finna mig sjálfa á ný og er bara í mikilli andlegri og sjálfsvinnu uppbyggingu til að geta orðið besta útgáfan af sjálfri mér. Vonast til að með tímanum muni ég öðlast bata og fá sjálfsvirðingu mína til baka. Ég lít svo á að ég hafi fengið nýtt tækifæri í lífinu og öðlast lífslöngun á ný og mitt markmið í lífinu er að verða besta útgáfan af sjálfri mér. Svo ég geti verið til staðar fyrir aðra. Langar að þakka íslenska heilbrigðiskerfinu og öllum þeim sem hafa verið til staðar fyrir mig er ykkur ævinlega þakklát. Ég vil einnig þakka ykkur kæru lesendur fyrir að lesa þessa upplifun mína þetta er bara ein af mörgum. Ég vona að þið hafið gert það með umhyggju og skilningi. Ég vil skila skömminni því hún er ekki mín. Rjúfum þögnina, því þögnin næstum drap mig og gerði sárið í sálu minni mun dýpra og stærra. Ég er sigurvegari en ekki fórnarlamb! Ást og Friður ❤️ 

Ester Soffía

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here