Bráðamóttakan er í rúst og búin að vera lengi

Nú, þegar margir læknar hafa stigið fram og lýst yfir áhyggjum sínum með stöðuna á bráðamóttöku, þá má ég til með að deila minni reynslu síðan í sumar.

Þetta er ekki alveg ný staða og löngu tímabært að krefja ráðamenn um úrlausnir fyrir heilbrigðiskerfið!

Slysið:

Þannig var að ég varð fyrir því óláni að ökklabrjóta mig á vinstri og snúa hægri ökklan svo illa að hann var óvirkur. Þetta gerðist út á landi á uppáhaldsstaðnum mínum á öllu Íslandi.

Við hjónin vorum í afslöppun og endurhleðslu á Hótel Djúpavík í Árneshreppi. Þar er kyrrðin mögnuð og náttúran dásemdin ein auk þess að fólkið sem rekur hótelið og starfsfólk er einstakt.

Staðurinn sem hleður líkama og sál.

Ég verð sem sé fyrir því óláni að taka flækjuspor fyrir utan með þeim afleiðingum að ökklarnir fóru eins og áður er lýst.

Viðbrögðin á landsbyggðinni topp 10:

Fékk topp aðstoð frá starfsfólki hótels og var okkur hjónum skutlað með hraði á Hólmavík þar sem var mjög vel tekið á móti okkur á heilsugæslunni, ég mynduð og sett í gips á vinstri. Við brunum svo í bæinn en læknirinn á Hólmavík boðaði komu okkar á bráðamóytöku og lét vita að konan sem um ræddi gæti í hvorugan fót stigið.

Vinstri
Hægri

Bráðamóttaka:

Við komuna biðu okkar öryggisverðir sem náðu kellu úr bílnum og í hjólastól. Mér var svo skutlað inn á bráðamóttöku, inn í gipsherbergi og ég var látin liggja á hörðum bekk. Þar eyddum við mörgum klukkustundum, myndataka aftur á vinstri og svo kom niðurstaða.

Þetta er mjög slæmt brot, þríbrotinn og þarfnast aðgerðar en það gerist ekki fyrr en á mánudag, svo komdu aftur á morgun laugardag í skanna, það hringir einhver í þig með tímasetningu!

Ég spyr lækninn hvort þetta sé grín, þetta með að senda fótalausa konu heim. Nei ekkert grín ekkert pláss á spítalanum. Ég segi honum að við búum á annari hæð og maðurinn minn sé með 4. stigs krabbamein og geti engan veginn sinnt mér með klósettferðir og slíkt, hvað þá komið mér upp stigann.

Svarið sem ég fékk var að við fengjum sjúkrabíl og þeir myndu bera mig upp. Sjúkrabíll kom og ég var borinn upp og alla leið inn í rúm.

Svo kom að því að ég þurfti að pissa og við fórum að leita lausna við því. Ég er of þung til að maðurinn minn geti borið mig á klósettið svo við ákváðum að reyna að nota eldfastmót sem „bekken“, það tókst ekkert sérlega vel. Piss út um allt og það lenti á manninum mínum að þrífa það. Aftur þurfti ég að pissa og nú reyndum við aðra leið glas, nei sama saga piss út um allt og aftur þurfti hann að þrífa.

Deildarlæknir hringir:

Svo kom símtal frá manni sem kynnti sig sem deildarlæknir og var að gefa mér tíma í skannann næsta mánudag. Ég var alveg hissa enda fyrirhuguð aðgerð þá.

Nei þá kom í ljós að aðgerð yrði ekki strax. Nú var verulega fokið í mína enda ekki alveg skaplaus, svo ég spyr blessaðan deildarlækninn hvort það sé ásættanlegt að fótalaus kona sé heima í ummönnun hjá manni með 4. stigs krabbamein. Það kom á deildarlækninn þegar ég lýsti aðferðunum við þvaglát og hótaði því að lögsækja lækninn sem sendi mig heim í gærkvöldi þó hann liti út fyrir að vera 12 ára. Jebb ég var smá brjáluð!

Auk þess hefði hægri ökklinn aldrei verið myndaður svo í raun væri ekki vitað hvort þetta væri svona rosaleg tognun eða jafnvel brot.

Eymingjans deildalæknirin sagði mér að panta sjúkrabíl og koma og láta mynda hægri ökkla, sumir panta sjúkrabíl aðrir leigubíl….

Við hjón fórum aftur á bráðamóttöku og ég í röngen, en sem betur fer ekki brot en aftur átti að senda mig heim.

Ég neitaði og starfsfólkið á bráðadeildinni sem var á vakt kvöldinu áður lagðist allt á að styðja mig í því að ég færi ekki heim enda alveg galið að senda fótalausa konu heim og láta eiginmann með 4. stigs krabba í umönnunarhlutverk.

Sjúkrahúslega:

Lá þarna í viku og pissaði í poka

Það var fyrir þetta frábæra starfsfólk sem skellti mér í sjúkrahúsföt og settu upp þvaglegg svo ég gæti pissað, að ég fékk rúm á ákveðinni deild. Það merkilega var að ég lá inni í viku fyrir aðgerð því brotið var svo slæmt að það gat ekki hvaða bæklunarlæknir sem er farið í það. Þessa viku var alltaf allavega eitt laust rúm á stofunni og meira segja tvö um tíma.

Ég tek það fram að starfsfólkið er topp starfsfólk og ég er þeim þakklát og skurðlæknirinn sem skellti inn í ökklann þremur stálplötum og slatta af skrúfum er snillingur og ég er endalaust þakklát fyrir það hversu færa lækna við eigum.

En að þetta fólk sem vinnur þessi ótrúlega mikilvægu störf skuli þurfa að vinna við svona ömurlegar aðstæður þar fara skammarverðlauninn til ríkisstjórnarinnar.

Ferðakostnaður:

Bara svona í lokin. Eftir aðgerð fer ég heim með einum sjúkrabílnum en og viti menn þessir þrír sjúkrabílar kostuðu mig 21000 kr sem ég hefði alveg þolað að nota í mat eða nauðsynjavörur.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here