Þessi pabbi er hetja

 

Foreldrar sem hugsa um börnin sín þurfa varla hrós fyrir það eitt og sér, hvort sem við erum að tala um feður eða mæður.
Hins vegar fólk sem veitir börnum sínum ást, öryggi og það sem börn þurfa eru góðir foreldrar.
Í sambandi við alla þá umræðu um rétt feðra á að umgangast börnin sín, umræða um mæður sem beita tálmun á barnsfeður og þá sem ekki fá að hugsa um börnin sín.
Þá er það ekki skref í rétt átt að tala um feður sem hugsa um börnin sín sem einhverskonar hetjur.
Feður sem eiga þá börn utan sambands einna helst.

Mín upplifun á þessu öllu saman er nefnilega oft þannig.
Ég heyri oft að barnsfaðir minn sé mikil hetja og hvað hann sé ótrúlega duglegur að taka son okkar, hann er alltaf tilbúinn að fá hann til sín og breytir sinni áætlun svo hann geti fengið tíma með honum.
Hann er líka duglegur að monta sig af honum, sýnir fólki myndir og þessháttar.

Munurinn er kannski sá að ég er með hann alltaf fyrir utan þau skipti sem hann einmitt fer til pabba síns. Ég er hins vegar engin hetja, ég er bara að sinna mínum skyldum og sjá um barnið mitt ekki satt?

Þegar ég segi fólki frá því að sonurinn sé hjá pabba sínum finnst mér oft eins og ég segi í öðrum pistli sem má finna hér að fólk sé hálfpartinn hneykslað á því að hann sé svo ungur hjá pabba sínum og að ég sé almennileg að leyfa honum að hitta hann. Ég fæ hinsvegar líka að heyra setningar eins og:

Frábært hvað hann er duglegur að vilja taka son sinn.
Hann er heppinn strákurinn að fá að fara til pabba síns.
Flott hvað barnsfaðir þinn er tilbúinn að taka þátt.

Hvað með mig sem móðir, er ég líka dugleg að vera með hann þrjár vikur í mánuði og stundum lengur án þess að hann fari yfir helgi til pabba síns?
Væri ekki heldur furðulegt að ég fengi þau hrós fyrir það eitt að ég væri dugleg að sinna barninu mínu og sonur minn sé heppinn að ég hafi áhuga á að hugsa um hann?
Við nefnilega lítum ekki eins á hlutina og það er það sem gerir foreldrahlutverkið milli mæðra og feðra ójafnt.

Skref í rétt átt að jafnrétti foreldra er að líta sömu augum á mömmuna og pabbann.
Mamman og pabbinn eiga jafn mikið í barninu og ættu bæði að hugsa um það.

Þið vitið hvernig barn kemur undir, undir eðlilegum kringumstæðum þarf tvo til og samþykki beggja aðila.
Barn kemur í heiminn og það er barn mömmu sinnar og pabba.
Það er alveg jafn mikið barn pabba síns og það er barn mömmu sinnar.

Vissulega eru til feður sem ekki vilja hugsa eða sjá um börnin sín en það eru líka til mæður í sömu sporum.
Við getum dæmt það hvernig sem okkur listir en dæmum góða foreldra jafnt hvort sem það er pabbi eða mamma.

Við ættum ekki að líta svo á hlutina að það sé furðulegt að pabbinn sé heimavinnandi eða pabbinn sé með barnið meira en mamman, eða það að pabbinn sé alveg ótrúlegur að taka virkilegan þátt í uppeldi barnsins síns svona utan sambands, sjálfviljugur og allt!

Við þurfum að líta á hlutina eins og við viljum sjá þá.

SHARE