Ég er mamma en barnið mitt á líka pabba

 

Nú langar mig til þess að tjá mig aðeins um skoðanir fólks sem hefur legið á mér í smá tíma.
Ég er móðir, nánar tiltekið einstæð móðir með 16 mánaða gamlan strák.
Við foreldrar hans höfum ekki verið saman frá því hann varð til.
Svoleiðis vill oft verða og fjölskyldumunstur í dag er oft á tíðum  heldur flókið fyrirbæri.

Hvað um það, faðir hans hefur alltaf tekið þátt og verið fullkomlega virkur í því hlutverki.
Hann á önnur börn fyrir, sem eru þó engin börn lengur svo hann er ekki nýr í þessu og þau eru einnig mjög virk.
Sonur okkar hefur alltaf dáð hann og systkini sín en við tókum góðan tíma öll saman meðan hann var ungabarn og fyrstu mánuðina hans. Allt hefur gengið vel og ungi drengurinn er hamingjusamur og dafnar vel.

Mikið hefur verið talað um jafnrétti kynjanna í foreldrahlutverki og virðast flestir vera á sama máli að mamma og pabbi hafi sama rétt til þess að umgangast barnið. Ég tek fullkomlega undir það enda annað væri sérstakt árið  2013.

Viðmót fólks virðist samt ekki alveg vera eftir því.
Mig langar að segja ykkur svolítið frá mínum hugsunum.
Við foreldrar hans búum ekki í sama bæjarfélagi svo það er ekkert skroppið yfir í kaffi eða beðið hitt foreldri að ,,passa‘‘ eitt kvöld.
Hinsvegar byrjuðum við snemma að hafa ,,pabbahelgar‘‘.
Tek það fram að ég mjólkaði ekki nema fyrstu þrjá mánuðina svo það var ekki að stoppa en ég hugsa að hann hafi verið 6 mánaða, þegar ég skildi hann fyrst eftir yfir helgi.

Til að byrja með fór ég með hann í bæinn, fórum með flugi saman.
Hann varð eftir hjá pabba sínum og systkinum en ég gat þá átt notalega og góða helgi eða kíkt út á lífið en var þá stödd í Reykjavík líka. Allt gekk vel og aldrei hefur komið upp vandamál eða annað og sonurinn hæstánægður.

Ég hef samt mjög oft fengið spurningar á borð við þessar:
Hvar er þá sonur þinn núna?
-Nú hann er hjá pabba sínum yfir helgina.
Já ókey svona ungur?

Mig minnir að hann hafi verið um 6 mánaða þegar fyrsta alvöru pabbahelgin var.
Þessar helgar hafa aldrei verið reglulegar heldur þegar það hentar fyrir okkur öll.
Yfirleitt verið að jafnaði einu sinni í mánuði.

Einnig hef ég af og til fengið setningar eins og:
En hvað þú ert góð við barnsföður þinn að leyfa honum að fá hann svona lengi!
Að leyfa honum? er það ekki pabbans og barnsins réttur að fá að vera saman ef mamman ætlar eitthvað, hefði verið eðlilegra að biðja ömmuna um pössun fyrst?

Nú um daginn fór ég í 8 daga í frí erlendis og þá var það sama sagan en hann er núna 14 mánaða.

Verður þú frá honum í 8 daga!!!!!!?
Hver er með hann á meðan?
Vó ætlarðu að vera svona lengi?

Svo er þetta ,,look‘‘ sem gjarnan fylgir og segir oft meira en mörg orð.

Ég veit ekki með ykkur en eru einhverjar reglur yfir það hversu lengi mæður mega fara frá?
Eru mæður betri kostur til þess að sjá um börnin?
Er í lagi að pabbinn sé ekki með barninu í 3-4 vikur, en hroðalegt að móðir barnsins skreppi í nokkra daga eða helgi frá?
Viðurkenni það fúslega að 8 dagar voru alveg í það hæsta fyrir mömmuhjartað engu að síður gæti ég ekki séð neitt athugavert við það þó móðir færi í 2 vikur ef hún, faðirinn og barnið treystu sér til.
Ég þarf stundum frí og á að geta tekið það án samviskubits og er ekki eðlilegt að pabbinn fái sumarfrí með syni sínum og sonurinn með pabba sínum?
Jákvætt fyrir alla ?

Snýst þetta ekki svolítið um að foreldrar dæma um það sjálfir, hvað þeir treysta sér til að vera lengi frá barninu sínu, hversu vant barnið er hinu foreldrinu og þar fram eftir götunum?
Mér finnst heldur ólíklegt að einhver myndi setja barnið sitt í hendur einhvers sem það þekkir ekki, í mínu tilviki ef það þekkti varla pabba sinn og systkini t.d.

Við gerum hluti öll saman, við gerum hluti í sitthvoru lagi en fyrst og fremst gerum við það sem er barninu fyrir bestu og það sem við teljum að sé fyrir bestu. Ég hef allavega ekki rekist á þetta í uppeldisfræðibókum.
Enda börn misjöfn, foreldrar og aðstæður almennt.

Held að við ættum örlítið að spá nánar í hvað við meinum með jafnan rétt foreldra.
Ef það eru fleiri sem hafa fengið slíkt viðmót trekk í trekk þá skora ég á ykkur að skrifa hér að neðan.

SHARE