Þetta fullorðna fólk er svo skrýtið

Ég fór á tónleika með Justin Bieber á föstudagskvöldið. Ég var með tvær litlar og einn ungling sem hafa beðið síðan um jólin eftir því að fá að fara á tónleikana en þær fengu miðana í jólagjöf. Við borguðum 15.900 fyrir hvern miða og keyptum einn miða aukalega til að einn fullorðin gæti farið með þeim. Næstum því 65 þúsund krónur fyrir miða á þessa tónleika.

Nú, ég kann ekki við óþarfa tuð og neikvæðni en núna get ég ekki orða bundist. Við komum í Kórinn mjög snemma því við ætluðum að finna okkur stað þar sem við gætum alveg pottþétt séð vel á sviðið og stelpurnar voru svo spenntar að þær réðu varla við sig. Unglingurinn var að vinna svo hún kom seinna og fann okkur ekki fyrr en við fórum heim eftir tónleikana.

Við byrjuðum á því að standa í svona 40 mínútur fyrir utan Kórinn til þess eins að láta rífa af miðanum okkar og fá að fara inn á svæðið í roki og rigningu. Við fórum svo inn í Kórinn og ætluðum að reyna að komast frekar nærri sviðinu. Það var draumurinn. Það endaði með því að við stóðum fastar í þvögunni. Ég hélt í hendurnar á stelpunum en sá þær ekki því það var svo troðið. Ég þurfti að troða mér til baka og biðja starfsmenn um að draga stelpurnar úr þvögunni.

Því næst fórum við aftast, fyrir miðju. Við sáum illa á sviðið og ég sá strax að þetta yrðu svakaleg vonbrigði fyrir stelpurnar. Ég sá rétt svo grilla í mann á sviðinu sem þeytti skífum og stelpurnar sáu engan á sviðinu… ég er jú aðeins stærri en þær. Ég fann einn starfsmann sem sagði mér að á tónleikunum kvöldið áður hefðu margir litlir krakkar staðið uppi á járnsnögunum aftast  svo þeir sæju goðið á sviðinu og hvatti okkur til að halda okkur þar.

Við fórum að veggnum með snögunum. Þar var fyrir mikið af fullorðnu fólki og krökkum og við stilltum okkur upp við hliðina á einhverri konu um fertugt sem virtist vera þarna ein.

Hún gargaði í gegnum hávaðann:

„Þið getið ekki verið hérna.“

Ég: „Nú? Af hverju ekki?“

Konan: „Ég er með þetta svæði frátekið, héðan og hingað“ og sýndi mér í leiðinni að hún væri að taka frá snagana næstu 2 metra.

Þarna fauk aðeins í mig og ég, sem svara aldrei fyrir mig, sagði: „Heldurðu í alvöru að þú getir tekið frá svæði hérna á gólfinu. Þetta virkar ekki svoleiðis!“

Konan: „Já það á fleira fólk eftir að koma…“

 

Ok þarna átti ég ekki til orð. Ég var, í einhverri örvæntingu að reyna að búa þannig um hnútana að stelpurnar mínar gætu séð Justin á sviðinu. Ekki bara á skjánum, heldur á sviðinu. Og þarna er kona sem er búin að taka frá svæði fyrir vini sína.

Gott og vel. Hún var heppin að hitta á mig á góðum degi þessi kona, því ég strunsaði með stelpurnar í burtu, án þess að fara í meira rifrildi og fann mér annað laust pláss við vegginn og snagana. Starfsmaðurinn hafði sagt mér að láta þær ekki upp á snagana fyrr en Justin byrjaði og þá ætti allt að vera í lagi.

Við biðum því þolinmóðar og stelpurnar voru ekki á því að þær yrðu að fara upp á snagana enda ekkert fyrir það að vera að „brjóta“ neinar reglur.

Um leið og Justin kom á svið breyttist afstaða þeirra hinsvegar. Salurinn trylltist og þær hoppuðu og hoppuðu og sáu hann ekki. Þær voru eiginlega farnar að skríða upp á mig til að komast upp á snagana svo ég lyfti þeim upp á. Báðar hafa þær elskað Justin síðan þær voru litlar og þarna sáu þær hann og fóru báðar að háskæla þarna uppi á snögunum. Héldu fyrir munninn algjörlega dolfallnar.

Nú kemur að fullorðnu manneskju númer 2, sem fann sig knúna til að láta til sín finna þetta kvöld.

Það voru litlir krakkar alla röðina af snögum og andlitin þeirra lýstust upp af ljósunum og ég varð eiginlega smá meyr að sjá þessi litlu skinn. Sjálf hafði ég ekki enn séð Justin nema á skjánum en andlit krakkanna voru nóg fyrir mig. Ég var sátt.

Þá kemur kona til mín, barnlaus og virtist vera þarna með kærastanum sínum. „Krakkarnir mega ekki vera þarna upp á.“

Ég: „Nei, ég geri mér grein fyrir því en þau sjá ekki upp á sviðið nema svona,“ sagði ég.

Konan: „Þið verðið að taka þau niður…“ sagði hún, frekar reið. Eins og þetta væri á einhvern hátt hennar hausverkur.

Ég var auðvitað búin að tékka á þessum snögum og þeir voru svo fast boltaðir í steinvegg að þeir hefðu ekki haggast þó það kæmi jarðskjálfti, svo það var engin hætta á ferðum. Ég ákvað að svara konunni ekki. Hún fór rakleiðis og fann starfsmann og benti á að börnin væru uppi á snögunum. Þetta hafa ábyggilega verið svona 30-40 krakkar í allt… uppi á snögum út allan vegginn.

Starfsmennirnir komu og ráku krakkana niður. Þvílík vonbrigði í andlitum þeirra. Við stóðum áfram við vegginn og ég benti stelpunum á að horfa á skjáina. Það var það eina í stöðunni eins og þarna var komið.

Eftir smástund komu hjón, með tvö börn og hjónin stilltu sér upp, beint fyrir framan stelpurnar mínar og karlmaðurinn skyggði á allt útsýnið sem hafði þó verið. Það var ekki það að þau sæju okkur ekki… þeim fannst þetta bara alveg kjörið svæði fyrir sig.

Þetta endaði svo með því að við fórum út í horn þar sem enginn var og sáum Justin í fjarlægð og kláruðum kvöldið þannig.

Ég hef verið hugsi eftir þetta. Var þetta þess virði? Væri ekki nær að börn fengju að vera á svæðinu næst sviðinu? Ættu að vera sértónleikar fyrir börn? Ættu þau að borga jafnmikið fyrir miðann og fullorðnir? Það var alveg hægt að vera í stúku… en þeir miðar seldust upp strax og voru aðeins of dýrir fyrir okkur, því miður.

Stelpurnar voru ánægðar að sjá Justin en þær höfðu ímyndað sér örlítið öðruvísi kvöld.

Fylgstu með!

Kidda á Instagram

Hún.is á Instagram

Hún.is á Snapchat: hun_snappar

 

SHARE