Þrista-ísterta

Þessi ísterta er virkilega góð og í miklu uppáhaldi, sómir sér vel á hvaða veisluborði sem er. Uppskriftin kemur að sjálfsögðu frá Ragnheiði sem er með Matarlyst.

Marengs

3 eggjahvítur
150 g sykur

Aðferð

Hitið ofninn í 120 gráður með blæstri.

Eggjahvítur þeyttar þar til þær byrja að freyða þá er sykrinum bætt út í, stífþeytið.

Teiknið hring eftir 24 cm bökunarformi á bökunarpappír klippið út setjið í botninn á forminu. Setjið marensinn ofaní dreifið út.

Setjið inn í 120 gráðu heitan ofninn í 90 mín.

Látið botninn kólna áður en ísblöndu er hellt yfir.

Þristaís

Hráefni

1/2 l rjómi léttþeyttur
6 eggjarauður
90 g sykur
2 pokar Þristur
1 dl rjómi

Aðferð

Léttþeytið rjómann, leggið til hliðar.

Bræðið saman við vægan hita 1 poka af Þrist í 1 dl af rjóma.

Eggjarauður og sykur þeytt þar til létt og ljóst. Bætið út í í mjórri bunu bræddum þrist, látið vélina ganga á lægsta hraða þar til komið er saman í ca 1/2 -1 mín.(Passið að súkkulaðiblandan sé ekki of heit)

Blandið rjómanum varlega saman út í eggjablönduna með sleikju í smáum skömmtum.

Í lokin er bætt út í 5-6 bitum af Þrist sem skorinn hefur verið í sneiðar, blandið saman.

Samsetning

Losið um hringinn á forminu

Gott er að klippa bökunarpappír eftir endilöngu nógu langan þannig að hann nái allan hringinn á forminu, komið pappírnum fyrir, klemmið aftur saman. Hellið ísblöndunni yfir botninn, jafnið út, setjið í frysti yfir nótt.

Skreytið að vild. (Gott er að nota restina af Þrist skerið hann langsum og raðið yfir ásamt jarðaberjum).

SHARE