Þú ert það sem þú borðar

Í tungumálinu okkar er að finna ýmis máltæki sem tengja meltinguna við tilfinningar okkar og hegðun; Við tölum um að hafa fiðrildi í maganum af tilhlökkun, við meltum nýja hluti, við fáum upp í kok og verðum fullsödd af ýmsu, við upplifum matarást, osfrv. Sömuleiðis fáum við magakveisu ef við erum undir of miklu álagi eða sýnum kvíðaeinkenni. Meltingartruflanir geta valdið martröðum og talið er að melting geti haft áhrif á draumfarir.

Í maga sérhvers manns eru aragrúi af bakteríum, margar milljónir, meira að segja eru fleiri bakteríur í meltingarveginum en í frumum líkamans. Meltingarvegurinn er nefninlega bústaður fyrir tugþúsundir mismunandi tegunda af bakteríum. Þessar bakteríur er óþarfi að óttast, þær eru okkur lífsnauðsynlegar í afar flóknu ferli meltingarinnar. Bakteríurnar hafa m.a. áhrif á þyngd okkar, löngun í mat, hugarástand osfrv.

Niðurstöður liggja núna fyrir úr rannsóknum sem staðfesta áhrif þessara baktería í meltingarveginum, sérstaklega á tilfinningar okkar, hugsun og hegðun. 

Niðurstöðu þessa má lesa í grein eftir Olgu Khazan, blaðakonu sem hefur sérhæft sig í skrifum um lýðheilsu. Í nýlegri grein eftir hana sem birtist í tímaritinu, The Atlantic, og heitir “When yogurt affects the brain” greinir hún frá nýstárlegri uppgötvun vísindamanna. Hvernig bakteríuflóra meltingarinnar geti breytt og haft áhrif á efnaskipti í heilanum. Hvernig það gerist er ekki fyllilega ljóst, en ein tenging virðist þó augljós, nefninlega Vagus-taugin. Á íslensku eru hún ýmist kölluð kreyjutaug eða flökkutaug og er hún ein sú mikilvægasta í ósjálfráða taugakerfinu. Taugin tengir saman ýmis líffæri við heilann, þar á meðal meltingarveginn. Kenningin er sú að bakteríurnar örvi flökkutaugina sem aftur örvar hin ýmsu taugaboð í heilanum sem stjórna bæði hugsunum og tilfinningum.

Tilraunir voru gerðar með mýs sem aldar voru í gerilsneyddu umhverfi, lausar við allar bakteríur. Í ljós kom að félagsleg færni þeirra snarminnkaði og þær sýndu slakari félagslega færni. Þegar heili músanna var krufinn kom í ljós að verulegt frávik var á hormóninu seratonin og eggjahvítumagni miðað við aðrar mýs. Framhaldsrannsóknir leiddu ennfremur í ljós að hægt er að breyta þessum hlutföllum með vissum gerlahvötum sem kallast “probiotics” sem er andstæðan við antibiotics eða fúkkalyf. Virkni þeirra síðastnefndu er að ráðast á drepa óæskilegar bakteríur. Probiotics gera hið gagnstæða, þær örva myndun “góðra” baktería. Þegar gerilsneyddu músunum var gefin blanda af þessum gerlahvötum, þá hurfu einkenni slakrar félagsfærni. Sama átti sér stað þegar músum með kvíðaeinkenni var gefin annars konar blanda af probiotics, snögglega dró úr kvíðanum.

En það eru ekki bara mýsnar sem sanna þessa tengingu á milli meltingar og heila. Fyrir þremur árum var gerð tilraun við Kaliforníuháskólann í Los Angeles. Sjálfboðaliðar sem þjáðust af þunglyndi og/eða kvíða var boðin þátttaka og fólst tilraunin í því að þeir fengu blöndu af góðum gerlum til inntöku, tvisvar á dag í þrjátíu daga. Niðurstaðan var sú sama, flestallir sýndu batamerki.

Írskur prófessor í taugavísindum, John Cryan að nafni, hefur ásamt öðrum vísindamönnum sett fram kenningu þess efnis að bakteríur í meltingarvegi gegna lykilhlutverki í félagslegri þróun mannsins. Hann heldur því fram að eftir því sem mannkynið þróaðist hafi átt sér stað meiri samvinna meðal fólks og það fór að skilja hvort annað betur. Haft er eftir honum í fagriti sem heitir “Frontiers In Cellular And Infection Microbiology” að fólki vegni betur í hóp og að sama lögmál gildi um bakteríurnar. Með öðrum orðum því færari sem fólk er í félagslegum samskiptum, því meiri líkur eru á það fjölgi sér og vegni vel í lífinu. Með slíkri nálægð og samvinnu aukast einnig líkurnar á því að bakteríurnar nái að fjölga sér sem aftur þýðir betri líðan okkar.

Rannsóknir á þessu sviði eru hins vegar ennþá skammt á veg komnar. Að sögn Olgu Khazan þá erum við rétt handan við byrjunarreitinn, ekki er enn vitað með vissu hvaða gerlahvatar eða probiotics það eru nákvæmlega sem virka á hin ýmsu einkenni heilastarfseminnar. 
Rannsóknir framtíðarinnar á þessu sviði eiga vonandi eftir að gefa okkur skýrari svör og betri skilning á rót ýmissa sjúkdóma sem á án vafa eftir að hjálpa mörgum.

Málshátturinn, þú ert það sem þú borðar, á vel við í þessu samhengi eða öllu frekar, þú ert það sem þú hugsar.

 

Heimild:
Heilsufrelsi.is

Ruv.is

heilsufrelsi_small





SHARE