Þunglyndið varpaði skugga á mína stóru drauma! – 20 ára stúlka með einlæga sögu sína

Ég heiti Svanhildur Steinarrsdóttir og er tuttugu ára gömul. Ég er uppalin í Mosfellsbænum en flutti til Reykjavíkur með kærastanum mínum eftir að ég útskrifaðist úr Menntaskólanum við Sund (sum ykkar gætu kannast við mig úr umdeildu kosningarmyndbandi – Kryddpíur í Skemmtinefnd), en síðan þá hef ég unnið í þjónustuveri Símans. Ég á mér stóra drauma, en þar sem ég greindist með þunglyndi fyrir ekki svo löngu síðan, hefur mér þótt erfitt að fylgja þeim – en það er einmitt ástæðan fyrir því að ég er að skrifa þennan pistil!
Mig langar til þess að deila sögu minni, bæði vegna þess að ég held að það muni hvetja mig til þess að taka á mínum málum OG því ég vona að opinská umfjöllun mín muni hjálpa einhverjum öðrum þarna úti 🙂

Ég er reyndar ekki aaalveg tilbúin til þess að segja ykkur hvað olli því að ég varð þunglynd, en það er góður möguleiki á að ég deili því með ykkur seinna meir þegar þið hafið kynnst mér ögn betur. Ég get hinsvegar sagt ykkur að það voru margir samverkandi þættir sem drógu mig niður og í dag, þegar bataferli mitt er nýlega byrjað, er ég rosalega þakklát fyrir að hafa gengið í gegnum þennan slæma tíma því að mér finnst ég hafa þroskast all svakalega. Mér hefur alltaf fundist ég vera skilningsrík, en EKKERT í samanburði við hversu skilningsrík ég er í dag – einungis vegna þessarar reynslu! Ég trúi virkilega mikið á það að allt gerist fyrir ástæðu og því veit ég að þetta átti ég að ganga í gegnum til þess að gera mig að þeirri manneskju sem ég er í dag, en ég get ekki beðið eftir að komast að því hvernig manneskja ég verð eftir að bataferlinu er lokið og hvað þá með hverju ári sem líður – ég ÆTLA að verða besta útgáfan af sjálfri mér, og bæta mig það sem eftir er lífs míns!

Áður en þunglyndið var farið að segja til sín var ég alltaf þekkt sem hress og kát, sjálfsörugg stelpa með þvílíkt jafnaðargeð. Þar sem ég ber þetta ekki utan á mér er ég er það eflaust ennþá fyrir flestum, en þeir sem standa mér næst, hafa tekið eftir breytingum í hegðun minni. Fyrir um það bil ári fór ég að fá svakaleg reiði- og grátköst til skiptis sem versnuðu með hverjum mánuði. Þau bitnuðu reyndar bara á kærasta mínum (sem er búinn að standa sig eins og hetja og hefur elskað mig í gegnum súrt og sætt), en yfirleitt er það einmitt þannig að maður sýnir bara sínum nánustu sitt rétta andlit og þar sem ég bjó nánast hjá kærastanum mínum áður en við svo fluttum að heiman, varð fjölskylda mín ekki vitni að þeim. Móðir mín var reyndar fljót að átta sig á því að það væri einhver breyting á skapi mínu þar sem ég var óvenju uppstökk og ég leitaði oft til hennar með vandamál mín, en hún fékk ekki að sjá hvað þetta var alvarlegt fyrr en fyrir tæpum 2 mánuðum.

Við mamma höfum alltaf verið nánar og við treyst hvorri annarri fyrir öllu, en þar sem ég vildi hvorki valda henni vonbrigðum né gera hana áhyggjufulla þá minnkaði hreinskilni mín með tímanum. Ég taldi mig geta staðið í þessu upp á eigin spýtur og var alltaf staðráðin í “laga mig”. Það er ekki langt síðan að ég áttaði mig á því að ég þyrfti hjálp, en þá bað ég mömmu um að panta fyrir mig tíma hjá sálfræðingi, sem og hún gerði. Ég fór í tvo tíma og fékk staðfestingu á því að ég væri með alvarleg þunglyndiseinkenni, en þegar pabbi minn vildi endilega að ég myndi prófa að fara til konu sem bauð upp á svolítið öðruvísi sálfræðiaðstoð, sló ég til og þá var ekki aftur snúið (á mjög, MJÖG góðan hátt).
Guðbjörg Ósk, sálfræðingur (osk.is), er bjargvættur minn! Ég er einungis búin að fara til hennar einu sinni, fyrir rétt rúmri viku, og munurinn sem ég finn á sjálfri mér er enginn smá! Mamma hafði orð á því daginn eftir að ég fór til hennar, hvað það væri gaman að sjá mig svona glaða og það var rétt hjá henni – ég var glöð! Auðvitað var ég samt bara rétt að byrja, svona mikil vanlíðan hverfur ekki á einni nóttu.. en ég fann loksins fyrir VON!

Langþráður vonarneisti hafði kviknað eftir margra mánaða vonleysi, niðurrif og síendurteknar tilraunir til betra lífs! Ég hafði óbeit á sjálfri mér, fannst ég einskis nýt, ömurleg kærasta, löt, leiðinleg, illa vaxin (enda hafði ég bætt töluvert á mig), og áfram gæti ég lengi talið. Ég vissi samt alveg innst inni að ég hafði margt til brunns að bera, en þið þekkið það kannski að það er mun auðveldara að taka til sín neikvæða hluti en jákvæða. Hafið þið ekki lent í því að fá kannski að heyra þrjú hrós í röð og vera rosalega upp með ykkur en svo kemur einhver og segir eitthvað neikvætt (annað hvort við ykkur eða á bak við ykkur) og þá eruð þið búin að gleyma jákvæðu hlutunum á svipstundu? Það hef ég að minnsta kosti og flestir vina minna sem ég hef átt þessar samræður við. Þetta er auðvitað ekkert nema óöryggi og óöryggi er eitthvað sem, því miður, er að hrjá stóran meirihluta fólks (algjörlega óháð kyni og aldri).

Það segir eða hugsar -ENGINN- neitt neikvætt um aðra manneskju nema vegna óöryggis og/eða vanlíðan. Það er bara staðreynd. Ef þú talar illa um útlit einhvers, þá er það undantekningarlaust vegna þess að:
-þú öfundar manneskjunna vegna útlitsins sem þú varst að setja út á
-þú öfundar hana fyrir ákveðin tengsl sem hún hefur við manneskju sem þú hefur sérstakan áhuga á
-þú öfundar hana fyrir ákveðið afrek eða velgengni
-það er EITTHVAÐ í hennar fari sem ýtir undir óöryggi þitt og veldur þér vanlíðan

Auðvitað er afbrýðisemin og óöryggið í mismiklu magni – en það er þá í jafnvægi við hversu illa þú hugsar eða talar um þessa manneskju. Geta ekki allir viðurkennt það? 🙂 Ég geri það alla veganna, því þó svo að ég sé að skrifa um þetta að þá er ég alls ekki saklaus, en fyrsta skrefið er að viðurkenna vandann og næsta skref er að bæta sig! Þar kemur sálfræðingurinn minn (og bjargvættur) aftur til sögunnar, en þegar við hittumst síðast, fól hún mér það verkefni að skrifa 3 jákvæð lýsingarorð um sjálfa mig á hverjum degi í 3 vikur (sem sagt 63 orð í heildina). Þetta á að auka sjálfstraustið mitt verulega og gera mig öruggari með sjálfa mig. Ef maður er hamingjusamur og fullkomlega ánægður í eigin skinni hefur maður enga ástæðu til að segja/hugsa eitthvað neikvætt um annað fólk, því þá er maður fullfær um að samgleðjast undir öllum kringumstæðum og fagna því hvað fólk er misjafnt. Ég VEIT að ég á mér marga kosti en það gera einmitt líka allir aðrir á þessari jörðu 😀

Ég ætla að vera mér mín eigin hvatning með því að skrifa 3 jákvæð lýsingarorð um sjálfa mig, opinberlega á facebook-“like”-síðu sem ég hef búið til, og ykkur er velkomið að fylgjast með. Ég hvet hvert og eitt ykkar til þess að gera þetta líka, ekki endilega opinberlega, en það veitir ENGUM af meira sjálfstrausti og stundum þarf maður að minna sig á þá fjölmörgu kosti sem maður býr yfir. Meira að segja stendur maður stundum í þeirri trú að maður búi yfir einhverjum kosti sem maður hefur gleymt að framfylgja og þá mun þetta verkefni líka verða þér til góðs. Byrjaðu daginn á því að skrifa niður orðin þrjú (þú getur auðvitað líka gert það kvöldið áður) og þá eru þau orð sem þú skrifaðir “mantran” þín þann daginn. Þ.e.a.s. þau orð sem þú átt svo að hugsa um allan daginn. Ef eitt orðanna sem þú valdir væri til dæmis “dugleg/ur” þá ættiru alltaf að hugsa, þegar þig langar helst að setjast fyrir framan sjónvarpið í staðinn fyrir að fara í ræktina eða taka til: “er ég dugleg/ur núna”? Þetta bæði hvetur mann til þess að verða langbesta útgáfan af sjálfum sér OG með tímanum verði hugurinn uppteknari að því að hugsa um kosti manns heldur en galla!

Jæja, þó svo að það sé heill hellingur sem mig langar til þess að segja í viðbót, ætla ég ekki að hafa þetta lengra í bili, en “like”-síðan sem ég bjó til var reyndar upphaflega ekki fyrir þetta verkefni, heldur fyrir allt sem ég er að skapa (stóri draumurinn sem ég talaði um í byrjun). Þar ætla ég að byrja að selja flíkur, málverk, skartgripi o.fl. sem ég er að búa til, auk þess sem ég ætla að setja inn myndir af förðunum og allskyns verkefnum sem ég hef tekið þátt í 😀 Það væri mér mikill heiður ef þið mynduð taka þátt í þessu ferðalagi með mér!

www.facebook.com/SvanhildurSteinarrs

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here