Þvagleka má meðhöndla

Samkvæmt nýjustu rannsóknum má ætla að allt að 50.000 Íslendingar séu með þvagleka. Þú ert ekki sá eini eða sú eina sem þjáist af þvagleka og þeim vandamálum sem honum fylgja. Meirihlutinn eru konur, en karlar geta líka haft þvagleka. Það kann að „dropa” í buxurnar við hósta, hnerra eða íþróttaiðkun. Aðrir missa þvag vegna þess að þvaglátaþörfin er svo sterk og skyndileg að þeir ná ekki á salernið í tæka tíð.

TVÆR TEGUNDIR ÞVAGLEKA ERU ALGENGASTAR:

 1. Áreynsluþvagleki: „Dropar” við líkamlega áreynslu, sem orsakast af slökum grindarbotnsvöðvum.
 2. Bráðaþvagleki: Ósjálfráð þvaglát með sterkri þvaglátaþörf, sem meðal annars orsakast af óhömdum samdrætti í þvagblöðru.

Áreynsluþvagleki getur orsakast af því að grindarbotnsvöðvarnir hafa skaðast eftir eina eða fleiri fæðingar. Við það minnkar viðnámið í þvagrásinni og þvag lekur við áreynslu. Vandamálið getur einnig verið vegna þess að östrogen minnkar hjá konum sem komnar eru á breytingaskeiðið; slímhúðir í þvagrás og fæðingarvegi þynnast og þvagheldni minnkar. Konur með áreynsluþvagleka missa þvag t.d. við íþróttaiðkun, hósta og hnerra.

Bráðaþvagleki (ofvirk blaðra) orsakast af ósjálfráðum samdráttum í blöðrunni. Venjulega er þessi vöðvi slakur meðan þvagblaðran er að fyllast. Þegar blaðran fyllist, sendir heilinn boð um tæmingu um taugakerfið til blöðrunnar – og fólk finnur fyrir þvaglátaþörf. Við ofvirka þvagblöðru gefst oft mjög stuttur fyrirvari til að komast á snyrtingu áður en blaðran tæmist að hluta til eða öllu leyti. Önnur einkenni geta verið tíð þvaglát og sterk þvaglátaþörf.

HVAÐA TEGUND AF ÞVAGLEKA HEF ÉG?

Eftirfarandi tafla getur gefið vísbendingar um hvers eðlis þvaglekinn er.

  

ÞVAGLEKI MEÐAL ÍSLENSKRA KVENNA

Samkvæmt nýlegri könnun sem gerð var meðal 10.000 íslenskra kvenna á aldrinum 30-75 ára kom í ljós að 38% höfðu haft þvagleka af einhverju tagi á undangengnum 4 vikum (1). Sambærileg könnun meðal stúlkna á aldrinum 16-19 ára sýndi að 32% þeirra höfðu haft þvagleka(2). Þetta samsvarar því að um 35.000 konur á aldrinum 16-75 ára eru með þvagleka af einhverju tagi. Rúmlega fjórðungur kvennanna (30-75 ára) töldu þessi einkenni hafa áhrif á daglegt líf (1). Karlar geta líka haft þvagleka og fjöldi þeirra eykst með hækkandi aldri. Heildarkostnaður sjúklinga og samfélagsins vegna þvagleka er talinn nema um einum milljarði á ári (3).

BRÁÐAÞVAGLEKI: HVAÐ ER TIL RÁÐA?

 • Blöðruþjálfun er einn þáttur í meðhöndlun við bráðaþvagleka. Þjálfunin felst í því að halda lengur í sér og lengja tímann milli þvagláta smám saman. Góð æfing getur t.d. falist í því að pissa á klukkustunda fresti fyrstu vikuna, lengja tímann á milli um hálftíma næstu vikuna o.s.frv. – þar til þú nærð að hafa tvær til þrjár klukkustundir á milli salernisferða. Ef þú færð þvaglátaþörf utan skipulagðra salernistíma, skaltu setjast niður eða standa kyrr, herpa saman grindarbotnsvöðvana – og reyna að einbeita þér að einhverju öðru, t.d. að reikna í huganum eða skipuleggja daginn. Ræða skal við lækni um hvaða æfingar henta best og hve langt á að vera á milli salernisferða.
 • Grindarbotnsæfingar geta einnig verið gagnlegar við bráðaþvagleka. Með því að draga saman grindarbotnsvöðvana er hægt að halda í sér þar til fólk kemst á salernið.
 • Lyfjameðferð, sem dregur úr ofvirkni þvagblöðrunnar eða hormónameðferð.
 • Raförvun með lágri tíðni er meðferð sem notuð er til að bæla taugaboð til blöðru. Þannig dregst blaðran síður ósjálfrátt saman.
 • Drekkið ca. einn og hálfan lítra af vökva á dag. Ef drukkið er meira eða þvagræsandi drykkir eru drukknir (t.d. kaffi og te) leiðir það til tíðari salernisferða. Drekkið ekkert eftir kvöldmat.
 • Til öryggis má líka nota bindi eða bleiu.

ÁREYNSLUÞVAGLEKI: HVAÐ ER TIL RÁÐA?

 • Reglulegar grindabotnsæfingar styrkja vöðvana í grindarbotninum. Æfingarnar eru öruggar og án aukaverkana, en til að gera æfingarnar rétt er best að fá handleiðslu læknis, sjúkraþjálfara, hjúkrunarfræðings eða íþróttafræðings til að byrja með. Árangurinn kemur ekki strax í ljós og æfingarnar þarf að gera í 3-6 mánuði til þess að finna bata.
 • Þjálfun grindarbotnsvöðva með lóðum: Hægt er að kaupa litlar kúlur eða egg sem eru mis þung. Þau eru sett upp í leggöngin og haldið í 15 mínútur. Smám saman er þyngdin aukin.
 • Raförvun er aðferð sem einungis er hægt að gera á spítala eða stofu hjá sjúkraþjálfara. Við örvunina dragast grindarbotnsvöðvarnir saman og fólk finnur hvar vöðvarnir eru og hvernig þeir virka.
 • Lyfjameðferð, t.d. hormónalyf
 • Uppskur&eth ;ur. Til eru margar aðgerðir til þess að lækna þvagleka. Árangur er oftast góður og varanlegur en þeim fylgir viss áhætta sem fer eftir umfangi aðgerðar.
 • Notkun binda eða bleia.

 

Heimildir:

 1. Guðmundur Geirsson, Guðmundur Vikar Einarsson, Eiríkur Orri Guðmundsson og Þorsteinn Gíslason (2002). „Þvagleki meðal íslenskra kvenna – faraldsfræðileg rannsókn”. Læknablaðið 4. tbl. 88. árg., 7-8.
 2. Óbirtar niðurstöður rannsóknar Guðmundar Geirssonar, Bente Hansen og Kristrúnar Hermannsdóttur
 3. Eiríkur Orri Guðmundsson, Guðmundur Geirsson, Guðmundur Vikar Einarsson og Þorsteinn Gíslason (2002). „Þvagleki meðal íslenskra kvenna – Kostnaður af völdum þvagleka”. Læknablaðið 4. tbl. 88. árg., 8-9.

Þessi grein er unnin upp úr bæklingi sem Pfizer gaf út 2003

 

Fleiri heilsutengdar greinar má finna á doktor.is logo

SHARE