Tíundi hver Íslendingur notar þunglyndislyf!

Læknar ávísa þunglyndislyfjum við ýmsum sjúkdómum eins og streitu, feimni, átröskun, kvíða, tíðaverkjum, lágu sjálfsmati, vægu þunglyndi og jafnvel sem fyrirbyggjandi meðferð, þ.e. til að koma í veg fyrir þunglyndi. Þá eru sjúklingar alls ekki alltaf upplýstir um hugsanlegar aukaverkanir lyfjanna sem geta í einstaka tilfellum verið alvarlegar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ítarlegri úttekt danska Neytendablaðsins Tænk sem unnin var í samvinnu við Dansk Radio. 

Aukin neysla þunglyndislyfja 
Á síðustu tíu árum hefur neysla á þunglyndislyfjum í Danmörku sexfaldast og í fyrra fengu 350.000 Danir ávísað þunglyndislyfjum. Steffen Thirstrup, yfírlæknir hjá dönsku lyfjastofnuninni, segir að neyslan sé orðin svo mikil að ekki verði hjá því komist að spyrja hvort það séu virkilega svona margir sem þurfi á þunglyndislyfjum að halda.

Notkun þunglyndislyfja hefur einnig stóraukist á Íslandi og er hún meiri en á nokkru hinna Norðurlandanna. Notkun lyfjanna hefur sexfaldast á áratug og svarar nú til þess að tíundi hver Íslendingur noti þunglyndislyf. Ein ástæðan fyrir þessari þróun er aukin vitneskja um að þunglyndi getur verið alvarlegur og lífshættulegur sjúkdómur sem hægt er að meðhöndla. Aukningin er einnig tilkomin vegna þess að lyfjunum er ávísað við ýmsum sjúkdómum öðrum en þunglyndi. Rannsókn Tænk bendir til þess að fjórði hver Dani sem tekur þunglyndislyf hafi fengið þau vegna annarra sjúkdóma en þunglyndis. Dæmi eru um að fólk hafi fengið ávísað þunglyndislyfjum vegna þess að það var stressað, átti í erfiðleikum í vinnunni, hafði upplifað sorgarviðbrögð, skilnað, var með lítið sjálfsálit eða hafði tíðaverki. Læknar eru yfirleitt á einu máli um að lyfin séu nauðsynleg fyrir sjúklinga sem þjást af þunglyndi og neikvæð umræða megi ekki verða til þess að fæla fólk frá lyfjameðferð sem þarf á henni að halda. Gagnrýnin felst hins vegar í því að sjúklingum sé ekki gerð grein fyrir þekktum aukaverkunum og að lyfjunum sé jafnvel ávísað að óþörfu þegar önnur úrræði koma vel til greina.

Skiptar skoðanir meðal lækna 
Langflestar tilvísanir á þunglyndislyf eru skrifaðar af heimilislæknum og oftast tekur sjúkdómsgreiningin ekki langan tíma eða að meðaltali 15 mínútur samkvæmt rannsókn Tænk. Geðlæknirinn Per Kragh-Sorensen telur að læknar ávísi þunglyndislyfjum of oft til sjúklinga sem ekki þjáist af þunglyndi og það sama segir Karin Garde, yfirlæknir. Hún bendir á að lyfin hafi vakið mikla hrifningu þegar þau voru fyrst markaðssett. Nú hafi hins vegar komið í ljós að lyfjunum fylgja ýmsar aukaverkanir og læknar þurfi því að vera gagnrýnni þegar þeir ávísa lyfjunum. Ole Eckhardt Poulsen er heimilislæknir og varaformaður danska læknafélagsins. Hann þvertekur fyrir að heimilislækar séu of ákafir þegar kemur að því að ávísa þunglyndislyfjum. Hann segist heldur vilja ávísa lyfjum til tíu sjúklinga að óþörfu en missa af einum, því það geti kostað mannslíf Tom Bolwig, yfirlæknir og prófessor, er á sama máli og telur ekki að aukin neysla þunglyndislyfja sé vandamál. Hann segir að samfélagið hafi breyst og kröfurnar hafi aukist. “Ég get ekki breytt samfélaginu”, segir Bolwig og hefur ekki áhyggjur af því að fólk sem ekki þjáist af þunglyndi fái þunglyndislyf ef það hjálpar þeim að takast á við breytta samfélagsmynd.

Aukaverkanir lyfjanna 
Á síðustu árum hefur athyglin beinst að alvarlegum aukaverkunum SSRI-lyfja en lyfjaframleiðendur hafa gjarnan neitað slíkum fréttum og eins hefur læknastéttin ekki verið sammála um hvort og hversu alvarlegar þessar aukaverkanir eru. Þær aukaverkanir sem um ræðir eru m.a. sjálfsvígshugsanir, sjúklingar reyna að skaða sjálfa sig og aðra, þeir geta orðið árásargjarnir og uppstökkir, misst löngun til kynlífs og eins geta þeir orðið líkamlega háðir lyfjunum. Landlæknisembætti í Bandaríkjunum og Evrópu hafa gefið út tilmæli til lækna um að ávísa ekki SSRI-lyfjum til barna og unglinga nema einkenni bendi til alvarlegs þunglyndis. Ástæðan er sú að talið er að lyfin geti ýtt undir sjálfsvígshugsanir hjá börnum. Ekki er enn vitað með vissu hvort það sama gildir um fullorðna en verið er að rannsaka það.

Fráhvarfseinkenni 
Breski geðlæknirinn David Healy sem rannsakað hefur SSRI-lyfin hefur áður bent á fyrrnefndar aukaverkanir og gagnrýnt lyfjafyrirtæki fyrir að gera lítið úr þeim og halda upplýsingum leyndum. Healy tekur fram að einungis mjög lítið hlutfall sjúklinga fái sjálfsvígshugsanir eða einn af hverjum 500. Hins vegar getur mun hærra hlutfall sjúklinga fengið aðrar aukaverkanir, t.d. orðið æstari við inntöku lyfjanna og fengið ýmiss fráhvarfseinkenni. Reyndar hefur verið mikil umræða undanfarin ár um hversu vanabindandi SSRI-lyfin eru. Rannsóknir benda til þess að sumir sjúklingar eigi erfitt með að hætta á lyfjunum og upplifi fráhvarfseinkenni eins og svima, ógleði, höfuðverk og martraðir. Þá sýna rannsóknir að fjórði hver sjúklingur upplifir einhver fráhvarfseinkenni þegar hætt er á lyfjunum.

Upplýsingar um aukaverkanir
Sjúklingar eiga rétt á að fá upplýsingar um aukaverkanir lyfja þegar þeir fá ávísað lyfjum, sérstaklega ef aukaverkanirnar geta verið alvarlegar. En læknar sinna þessari upplýsingaskyldu ekki sem skyldi. Könnun sem gerð var í Kaupmannahafnarháskóla árið 2004 sýndi að aðeins einn af hverjum þremur heimilislæknum upplýsti sjúklingana um aukaverkanir sem töldust algengar og alvarlegar. Í rannsókn Tænk fengu aðeins 34 af 70 sjúklingum upplýsingar um mögulegar aukaverkanir þegar þeir fengu ávísað þunglyndislyfjum. Margrethe Nielsen sem sér um heilbrigðismál hjá danska neytendaráðinu segir að sjúklingar eigi rétt á að fá allar helstu upplýsingar um aukaverkanir. Hún hefur skoðað þær upplýsingar sem eru aðgengilegar sjúklingum og telur að þær gefi mun jákvæðari mynd af lyfjunum en þær faglegu upplýsingar sem læknar og heilbrigðisstéttin hafa aðgang að.

“Ef læknar upplýsa fólk ekki um aukaverkanir lyfja og upplýsingarnar á pakkanum eru ófullnægjandi er sjúklingurinn ekki í aðstöðu til að meta kosti og galla lyfjameðferðar og það er ólíðandi”, segir Margrethe Nielsen.

Umfjöllun Tænk um þunglyndislyf var samvinnuverkefni Tænk og Dansk Radio – DR 1 sem gerði heimildarþátt um efnið  Skýrsla frá dönsku Lyfjastofnuninni sýnir að sjúklingar fá sífellt stærri skammta og eru lengur á lyfjum. Fimmti hver sjúklingur i Danmörku hefur tekið lyfin í meira en fimm ár og einn af hverjum 20 hefur verið á lyfjum í meira en tíu ár. Þá benda rannsóknir til þess að margir sjúklingar séu ofgreindir, þ.e.a.s margir fá ávísað þunglyndislyfjum án þess að þurfa þeirra við. En að sama skapi eru margir sjúklingar vangreindir og sjúklingar sem eru þunglyndir fá ekki viðhlítandi meðferð og lyfjagjöf. SSRI-lyf (sérhæfðra serótónin endurupptökuhemlar) eru algeng þunglyndislyf og hafa verið á markaði í nærri tvo áratugi. Algengustu lyfin eru fluoxetín (Fontex, Prozac, Seról), citalopram (Cipramil, Oropram), paroxetin (Paroxat, Paxetin, Seroxat), sertralin (Sertral, Zoloft) og escitalopram (Cipralex).

 

Heimild:
Þessi grein birtist áður í 2. tbl. Neytendablaðsins 2006 og er hér birt með leyfi ritstjóra þess Brynhildar Pétursdóttur ásamt góðfúslegu leyfi Heilsuhringsins og Heilsufrelsis þar sem greinin birtist líka.

heilsuhringurinn.is

heilsufrelsi.is

heilsufrelsi_small

 

SHARE