Ung íslensk stúlka safnar peningum fyrir 3 íslenskar fjölskyldur

Hún Díana Íris Guðmundsdóttir er engri lík en hún stendur nú fyrir söfnun fyrir 3 íslenskar fjölskyldur, sem eiga það sameiginlegt að eiga í veikindum og fjárhagsörðugleikum.

Það er ekki hægt að segja annað en þessi stúlka leggur sig fram um að sýna kærleika í verki og láta gott af sér leiða.

Hún skrifaði þetta á Facebook síðu sína:

 

Kæru vinir.

Í Íslandi í síðustu viku veitti Örvar Þór Guðmundsson mér innblástur vegna söfnunar sem hann stendur fyrir. Ég hef unnið með langveikum og fötluðum börnum og veit hversu lítið fé foreldrar langveikra barna hafa milli handanna. Því langar mig að hefja söfnun fyrir fjölskyldur langveikra barna.

Ég hafði samband við Rögnu Marinósdóttur, framkvæmdastjóra Umhyggju, sem fann fyrir mig þrjár fjölskyldur sem þurfa á hjálp að halda.

Þar sem ég er að gera þetta í fyrsta skipti þá fannst mér rétt að byrja að hjálpa einni fjölskyldu. Ég læt þó lýsingu á aðstæðunum hjá öllum fjölskyldunum fylgja með því að það er aldrei að vita að ef vel gengur getum við í sameiningu hjálpað öllum þremur fjölskyldunum.

Það væri minn draumur að geta gefið þeim gleðileg jól þrátt fyrir þær aðstæður sem þau búa við.

Fjölskylda 1
Einstæð móðir með 14 ára gamla dóttir sem er mjög fötluð og flogaveik. En það er ekki bara stelpan sem er veik heldur er móðir hennar með alvarlegan nýrnasjúkdóm. Þær mæðgur eru báðar alvarlega veikar og þurfa á allri hjálp að halda.

Fjölskylda 2
Einstæð móðir, kennari að mennt, með 8 ára gamlan son sem er einhverfur og flogaveikur. Sonur hennar er mjög alvarlega veikur sem gerir það að verkum að hún getur ekki unnið og eru aðstæður þeirra því mjög bágar.

Fjölskylda 3
Hjón utan að landi með 16 ára strák, sem er með hrörnunarsjúkdóm og er því í hjólastól. Fjölskyldan þurfti að flytja til Reykjavíkur svo strákurinn þeirra kæmist í menntaskóla þar sem engin aðstaða var í boði í heimabænum. Þau leigja því húsnæði í Reykjavík með hjólastólaaðgengi og er leigan mjög há. Síðan þau fluttu í bæinn hefur húsið þeirra í heimabænum ekki selst. Faðirinn er í vinnu en móðirin getur ekki unnið vegna aðstæðna.

Von mín er að sem flestir sjái sér fært um að hjálpa mér í þessu og geti séð af sé smá pening. Margt smátt gerir eitt stórt svo hver þúsundkall skiptir miklu máli fyrir þetta fólk. Peningurinn sem safnast rennur beint til þeirra.

Ég mun reglulega uppfæra ykkur og leyfa ykkur að fylgjast með hvernig söfnunin gengur.

Þætti vænt um að þeir sem taka þátt deili þessum status og láti sína vini vita af þessari söfnun.

Ég hef opnað bankareikning fyrir söfnunina og má finna hann hér fyrir neðan – með ómældu fyrirfram þakklæti :

Banki: 0322-13-110320
Kt.: 170585-2409

Gleðileg jól og verið góð við hvort annað

 

Þess má geta að söfnun Díönu stendur yfir til þriðjudagsins 17. des.

SHARE