Ung stúlka var mönuð til að senda nektarmyndir af sér – Móðir stúlkunnar biður foreldra að ræða við börnin sín um að áframsenda ekki þessa mynd

Við höfum áður fjallað um Snapchat hér á hún.is. Þar birtum við skilaboð frá móður ungrar stúlka sem lenti í því að óprúttnir aðilar reyndu að fá hana og vini hennar til að senda sér myndir af sér. Greinina getur þú séð hér. Móðir frá Akureyri birti pistil þar sem hún sagði frá ofbeldi sem dóttir hennar varð fyrir í tengslum við Snapchat. Stúlkan var mönuð til að senda nektarmyndir af sér sem svo var dreift á milli manna. Birna Blöndal, móðir stúlkunnar hefur rætt við lögreglu og málið mun verða sent til barnaverndarnefndar. Birna hvetur foreldra til að hafa augun opin og kenna börnum að bera virðingu fyrir öðrum. Hún hvetur fólk líka til að deila svona myndum ekki áfram. Hér fyrir neðan má lesa pistil hennar í heild sinni:

Síðustu dagar hafa verið frekar erfiðir hér á bæ. Mig langar til að leyfa fleirum að lesa hvað á daga okkar hefur drifið og í framhaldinu getum við velt því fyrir okkur hvert við erum komin með alla þá miðla sem börnum okkar standa til boða, símanotkun, öpp, Facebook… og sú raunveruleikafirring sem verður til í sýndarheimum.

Dóttir mín spjallar við strák á Snapchat , hann manar hana til að senda mynd af sér berri að ofan. Litla tryppið mitt lætur undan þrýstingi og gerir það, algjörlega grunlaus um hvað bíður hennar. Á ferðinni reyndust vera strákahópur að fífla barnið, þeir vista myndina og áframsenda hana svo til þeirra sem vilja. Nokkrum dögum síðar er myndin komin í birtingu í símum flestra eldribekkinga í að minnsta kosti fjórum grunnskólum Akureyrar.
Það þarf ekkert að tíunda skelfingu barnsins og niðurlægingu. Traust hennar brotið á allan mögulegan hátt. Hún reynir að þræta fyrir að þetta hafi gerst en það er til lítils þegar myndin er til sönnunar. Hún skammast sín, en skömmin á að liggja hjá þeim sem taka myndina og dreifa henni, hjá öllum þeim sem ýttu á forward og deildu. Hún hélt að einn myndi sjá myndina, ekki hundruð. Hún var vitlaus að gera svona, hinir brutu alvarlega gegn henni og misnotuðu hana og traust hennar.

Ég óttast um dóttir mína. Ég óttast að það verði henni um megn að standa undir þessu. Hvað gerir það barnssálinni að lenda í svona? Hvað er hægt að gera? Hvernig er hægt að sýna börnum fram á að sýndarheimar eru hættulegur staður að vera á. Allt sem þangað fer er úr okkar höndum. Þarna er engin lögga og enginn sem skakkar leikinn. Vitum við alltaf hvað börnin okkar eru að gera í símanum ? netinu ? tölvuleikjum ? Börnin eru mörg hver með símana límda í höndunum meiri hluta dags, mér finnst þessi þróun skelfileg og berst hatrammlega gegn henni á mínu heimili. Börn þurfa ekki afþreyingartæki í hendi alla daga allan daginn. Utan við allan þann aðgang að spjallforritum og samskiptamátum sem geta farið úr böndunum og verið beinlínis hættuleg. Mér finnst það hafa sýnt sig á mínu heimili núna.

Mér finnst verða að staldra við. Kennum börnum okkar að bera virðingu fyrir hvert öðru, líka í netheimum. Sjálfsvíg hafa orðið úti í heimi vegna þessara appa sem bjóða upp á sendingar á efni á milli síma. Myndatökur og athugasemdir fljúga á milli staða. Ég er slegin eftir þessa upplifun og ég hef það þó fínt miðað við dóttur mína. Það sem gert var á hennar hlutur er grafalvarlegur hlutur og mér finnst óhugnalegt að þarna var hópur drengja á ferð að leika sér að henni. Síðan hefur hver tekið við af öðrum við að deila myndinni áfram. Eflaust hafa einhverjir hent henni og ekki viljað taka þátt og ég sendi þeim kærar þakkir í huganum. Bekkurinn hennar í skólanum hefur slegið skjaldborg um hana og ég fæ tár í augun við að hugsa um hversu yndisleg þau voru við hana í dag þegar hún kom í skólann. Kennarar og skólinn hennar hafi unnið þetta fagmannlega og eru frábærir allir sem einn.

Við ræddum við lögreglu, þetta er lögreglumál sem sent er til barnaverndar og heitir að brotið hafi verið kynferðislega á barninu. Það er alvarlegur hlutur. Ræðum þetta við börnin. Fylgjumst grannt með því sem fer fram í þessum forritum sem við fullorðna fólkið vitum oft á tíðum ekki einu sinni hvað heita. Við vitum aldrei hvað getur hent börnin okkar í þessari sýndarveröld. Ég vildi að ég hefði verið betur vakandi. Ég verð það núna!

Ég bið ykkur sem eigið börn að ræða við þau um að áframsenda ekki þessa mynd berist þeim hún, heldur eyði henni.

SHARE