Uppsögn að gjöf

Mín versta martröð hafði alltaf verið að vera sagt upp starfi. Það var einhvernveginn það eina sem ég hafði í lífinu (að ég hélt), starfið mitt. Ég hafði verið svo óheppin að öðru leyti að ég hélt fast í það að vera góð í starfi, standa mig vel og var virkilega stolt af því að hafa náð 8 ára starfsaldri hjá sama fyrirtækinu og svo boðin vinna þar aftur eftir 2 ára fjarveru. Þarna lá stoltið mitt og sjálfstraust. Enda sló hjarta mitt í takt við þetta fyrirtæki.

Þar til það var kippt undan mér fótunum og mér sagt upp!

Eftir brussulegar 6 vikur í “nýja” gamla starfinu hjá fyrirtækinu “mínu” er mér sagt upp. Ég skal viðurkenna það hér og nú að þetta var hreinlega mesta sjokk sem ég hef lent í. Eins dramatískt og það megi hljóma þá var þetta bara virkilega mikið áfall. En eftir á að hyggja þá skil ég það samt. Því miður var hausinn á mér bara ekki viðstaddur í vinnunni þessar 6 vikur. Það var alltof mikið í gangi í mínu persónulega lífi og mér hreinlega tókst ekki aðskilja það frá nýja starfinu mínu og stóð mig þar að leiðandi bara ekki nógu vel.

Þetta var engu að síður eitt það besta sem hefur komið fyrir mig, Eftir algjört niðurbrot og tvo sálfræðitíma skráði ég mig á Dale Carnegie námskeið, sem er klárlega það allra besta sem hefur komið fyrir mig, ég labba þarna inn eins og vofa og með eitt stórt spurningamerki á enninu: Hver er ég? Hvað vil ég? Í hverju er ég góð? Er ég nógu góð? Get ég eittvað yfir höfuð ?

Svo sannarlega var ég eitthvað meira en þetta starf.

Að neyðast til þess að líta í kringum sig, skoða sitt innra sjálf er svo mikil gjöf, við erum svo gjörn á að fara áfram með straumnum og láta hlutina bara ganga og líða, án þess að stoppa og líta í kringum sig, líta á sjálfan sig og virkilega velta þessu fyrir sér, HVER ER ÉG ?

Ég kynntist konu um daginn sem deildi sömu reynslu og ég, þar hafði henni verið sagt upp skrifstofustarfi eftir ein 11 ár, þvílíkt sjokk. Hvað geri ég nú? Hún skráir sig í myndlist og fann sinn innri listamann og er í dag þúsund sinnum hamingjusamari og sáttari með sjálfan sig en hún var nokkurntímann í sínu fasta skrifstofustarfi!

Þrátt fyrir þessa erfiðu reynslu lít ég á hana sem gjöf í dag, ég er t.d ekki lengur hrædd við uppsögn og ég nýt þess að líta í kringum mig, flýg um á töfrateppinu mínu í leit af tækifærum, þau eru útum allt.

 

SHARE