Uppþvottavélin – Þvær fleira en leirtau

Það er svo margt sem maður getur sett í uppþvottavélina, annað en leirtau og hnífapör. Ef maður er að taka hreingerningu á heimilinu er alveg kjörið að setja nokkra hluti, sem þú annars myndir þrífa í höndunum, í uppþvottavélina og leyfa vélinni aðeins að hjálpa til meðan þú gerir eitthvað annað. Við lifum jú á tímum hraðans og maður gefur sér ekki alltaf tíma til að gera allt heima við sem maður ætti að gera.

Hér eru nokkur dæmi um hluti sem er hægt að setja í uppþvottavélina (fyrir utan þetta hefðbundna):

  • Ljósakúpull. Varist samt að setja mjög þunnt og viðkvæmt gler í vélina og alls ekki antikkúpla.
  • Sturtuhaus. Æðislegt hvað kísillinn næst vel af í uppþvottavélinni
  • Sápudiskur.
  • Plastburstar, spennur, klips og greiður. Passið samt að reyna að ná sem mestu af hárunum úr burstanum fyrst.
  • Plastleikföng. Kubbar, diskar, glös og önnur leikföng úr plasti er frábært að þrífa í vélinni. Að sjálfsögðu engin leikföng með rafhlöðum.
  • Skálar undan dýramat. Yfirleitt þvær maður svoleiðis í höndum en það er sniðugt að leyfa þeim að fara stundum í vélina til að koma í veg fyrir sveppamyndun í skálunum.
  • Svampar og uppþvottaburstar þola uppþvottavélina alveg.
  • Grindur og hillur úr ísskápnum

Að sjálfsögðu mæli ég með því að raða ekki stórum hlutum eins og kúplunum of þétt saman og setja litlu hlutina í hnífaparagrindina. Gott er að setja kubba og annað smádót í taupoka (eins og maður setur nærföt og brjóstahaldara í)  sem hægt er að renna og skella því í efri hilluna.

Endilega setjið þá hluti sem þið teljið að geti verið viðkvæmir á lágan hita.

SHARE