Vanillukaramella með saltflögum

Þessi sjúklega góða karamella er frá Eldhússystrum. Hún er alveg kjörin til að bjóða upp á, á Gamlárskvöld.

Vanillukaramella með saltflögum

1 peli rjómi
5 msk smjör, í litlum bitum
½ tsk vanilladropar
1 vanillustöng, skorinn í helminga og skafið innan úr
1 ¼ tsk sjávarsalt (og dálítið til viðbótar til að strá yfir karamelluna)
1,25 dl sykur
0,6 dl ljóst sýróp
0,6 dl vatn

Setjið bökunarpappír í 20×20 cm eldfast mót, og smyrjið svo bökunarpappírinn.

Setjið rjóma, smjör, vanilludropa, vanillustöngina, vanillufræin og saltflögurnar í pott og látið suðuna koma upp. Takið þá af hitanum og setjið til hliðar.

Setjið sykur, síróp og vatn í pott og látið suðuna koma upp, hrærið í pottinum þangað til sykurinn hefur leysts upp. Látið sjóða án þess að hræra, en hreyfið sleifina rólega í pottinum þangað til blandan hefur tekið á sig gullinbrúnan lit.

Fjarlægið vanillustöngina úr rjómablöndunni og hellið henni svo út í sírópið (blandan á eftir að sjóða duglega þegar það gerist, hrærið vel í á meðan) og látið malla, hrærið oft í á meðan, þangað til að blandan mælist 120°c (það er mikilvægt að karamellan nái 120° ef hún nær ekki þessum hita mun hún ekki harðna). Hellið strax í ofnfasta mótið og látið kólna í 30 mínútur. Stráið örlitlu sjávarsalti yfir og látið standa þar til karamellan hefur kólnað alveg. Skerið í ca. 2,5 cm stóra bita (mjög gott að nota pizzahníf).

 

IMG_7913

 

Eldhússystur á Facebook. 

SHARE