Vefjagigt og þunglyndi

Ég sjálf er greind með illvíga vefjagigt og það tók mig langan tíma að ná sátt við það að vera með sjúkdóm sem er langvinnur og hefur mikil áhrif á líf mitt. En með fræðslu þá hefur mér tekist að halda einkennum niðri og það er eflaust þess vegna sem mér þykir mikilvægt að fræða almenning um sjúkdóminn.

Þessi fræðslupistill er fengin af fræðsluvef vefjagigt.is og er skrifaður af Sigrúnu Baldusrsdóttur sjúkraþjálfa sem er hafsjór af fróðleik.

Eru vefjagigtarsjúklingar þunglyndis- og kvíðasjúklingar?
Ef ekki hver er þá munurinn á þunglyndi og vefjagigt? Þetta eru spurningar sem ég er oft spurð og þykir mér því ástæða til að fjalla sérstaklega um þetta efni á vefnum.

Vefjagigtarsjúklingar fá oft á sig þá greiningu að þeir séu bara ”þunglyndir”. Þunglyndi er ekkert ”bara”. Þunglyndi er háalvarlegur sjúkdómur sem tekur mikinn toll, bæði tilfinningalegan en einnig efnahagslegan, sem bitnar bæði á einstaklingum og samfélaginu í heild sinni. Mikilvægt er að gera greinarmun á alvarlegu klínísku þunglyndi og annars konar óhamingju eða tímabili vonbrigða.

Vissulega hafa fundist tengsl milli vefjagigtar og þunglyndis, en þar með er ekki sagt að vefjagigt sé þunglyndi. Aðeins brot af þunglyndum uppfylla greiningarviðmið vefjagigtar og talið er að þunglyndi hrjái einungis á bilinu 18-30% vefjagigtarsjúklinga. Talið er að á hverjum tíma þjáist tæp 6% karla og 9,5% kvenna af þunglyndi, en að 12% karla og 25% kvenna þjáist af þunglyndi á einhverjum tíma ævinnar. Þunglyndi er því aðeins algengara meðal vefjagigtarsjúklinga.

Rannsókn sem gerð var af Sigurði Thorlacíus og félögum 2002, á einstaklingum með hæsta örorkustig (að minnsta kosti 75%) bendir til að sterk tengsl séu á milli vefjagigtar og kvíða í hópi fólks með hæstu örorku vegna síns sjúkdóms.
Þunglyndi getur bæði verið vegna líffræðilegra orsaka og vegna ytri orsaka. Sumar rannsóknir hafa bent til ójafnvægis eða skorts á ákveðnum taugaboðefnum í heila, enda hafa flest þunglyndislyf áhrif á virkni þessara taugaboðefna (serótónín og noradrenalín). Skortur er á þessum sömu taugaboðefnum hjá vefjagigtarsjúklingum hvort sem þeir eru haldnir þunglyndi eða ekki. Líklegt er talið að ytri þættir eigi stærstan þátt í þunglyndi vefjagigtarsjúklinga, en einhver erfðafræðileg tengsl hafa þó fundist milli vefjagigtar og þunglyndis

Ekki er óeðlilegt að einstaklingar sem er verkjaðir alla daga, illa upplagðir, þreyttir og eiga erfitt með svefn séu daprir, þessi líðan er að minnsta kosti ekki kætandi. Þegar þunglyndi leggst ofan á verki getur það leitt til félagslegrar einangrunar. Fólk er ekki lengur fært um að taka virkan þátt í lífinu, sem leiðir til minnkaðs sjálfsálits, depurðar og kvíða.

Sterkt samband er á milli þunglyndis og langvinnra verkja. Þunglyndissjúklingar kvarta oft um stoðkerfisverki og sjúklingar með ýmis konar langvinna stoðkerfisverki (s.s. vefjagigt, bakverki, höfuðverki) hafa talsvert aukna tíðni þunglyndis.

Líkamleg einkenni í þunglyndi svipar mjög til einkenna vefjagigtar en þau geta verið eftirfarandi:

Magnleysi
Höfuðverkur
Liðverkir
Vöðvaverkir
Svimi
Munnþurrkur eða offramleiðsla á munnvatni
Hröð öndun
Sjóntruflanir
Hægðartregða
Eyrnasuð
Þurr húð
Minnkuð kynhvöt
Óskýrt tal
Brjóstverkir
Truflun á tíðum
Erfiðleikar með þvaglát

Öll þessi einkenni geta einnig átt við vefjagigt, en við bætast eftirfarandi andleg einkenni í þunglyndi:

• Líðan sem einkennist af mikilli depurð/sorg og vonleysi – sem getur leitt til
sjálfsvígshugsana og jafnvel -tilraunar.
• Breytingar á hugsanamynstri – minnkað sjálfstraust, sektarkennd, erfiðleikar
með minni og einbeitingu
• Breytingar í hegðun, drift og frumkvæði – líðan einkennist ýmist af því að vera
í uppnámi, að vera vanvirkur og haldinn algjöru orkuleysi.
• Minnkaður áhugi á samskiptum – tilhneiging til að einangra sig.

Frumeinkenni vefjagigtar eru ekki af sama toga og svipuð einkenni þunglyndis, má þar nefna eftirfarandi:

• Svefntruflanir þunglyndra og vefjagigtarsjúklinga eru ekki af sama toga.
• Aukið næmi fyrir öllu skynáreiti verkja-, hljóð-, birtu-, hita- og þrýstiáreiti sem skýrist af miðlægri næmingu og/eða minnkaðri hömlun skynáreitis til heila er ekki til staðar í sama mæli hjá þunglyndissjúklingum og vefjagigtarsjúklingum .
• Truflun á starfsemi undirstúku-heiladinguls-nýrnahettu-öxuls (e. hypothalamic-pituitary-adrenal axis) er ekki eins hjá þessum hópum.

Af þessu má álykta að vefjagigt og þunglyndi séu ekki sami sjúkdómurinn. Þau hafa þó ákveðin tengsl og eiga það sameiginlegt að sjúkdómseinkennin stafa af truflun í stjórnun og úrvinnslu í miðtaugakerfinu.

Verkun flestra lyfja við geðdeyfð (þunglyndi) byggist á áhrifum þeirra á magn ýmissa taugaboðefna í taugakerfinu, sérstaklega serotóníns og norepinefríns. Þessi sömu taugaboðefni gegna einnig mikilvægu hlutverki í flutningi verkjaboða um taugakerfið. Mörg lyf sem notuð eru við þunglyndi bæta einnig ákveðin einkenni vefjagigtar og athyglisvert er að verkjadeyfandi áhrif geðdeyfðarlyfja er óháð áhrifum þeirra á þunglyndi. Þannig þarf oft minni skammta af geðdeyfðarlyfjum til að hafa áhrif á einkenni vefjagigtar en notaðir eru til að draga úr einkennum þunglyndis.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here