Verður tímaritið HVAÐ að veruleika með þínum stuðningi?

Athafnakonan Ágústa Margrét Arnardóttir er fimm barna móðir á Djúpavogi. Hún hefur tekið að sér ýmis verkefni í gegnum tíðina og ákvað í september síðastliðnum, að kanna hvort grundvöllur væri fyrir útgáfu á barna- og ungmennatímariti.

Ágústa fékk hugmyndina að gefa út barnablað fyrst fyrir um 6 árum síðan þegar dóttir hennar sem þá var 6 ára vildi verða áskrifandi af tímariti, en þeim fannst lítið í boði á þeim tíma. Það var ekki fyrr en í september síðastliðnum sem Ágústa var ákveðin og viss um að nú væri tíminn til að gera þetta en taldi hún bæði áhuga og þörf á útprentuðu, faglegu, fallegu, fræðandi og fjörugu efni fyrir börn og ungmenni.

Ágústa leitar nú áskrifenda og áheita í formi styrkja á Karolina Fund fyrir tímaritið HVAÐ en söfnuninni lýkur á miðnætti í kvöld, þann 15. mars.

HVAÐ er hvetjandi og eflandi 130 blaðsíðna útprentað tímarit fyrir börn og ungmenni sem ýtir undir sjálfstæða hugsun og heilbrigða sýn á lífið, tilveruna og náttúruna.

HVAÐ kemur út í byrjun maí og byrjun nóvember á hverju ári og er áætlað að fyrsta tölublaðið komi út í maí 2019. Efnistök eru fjölbreytt og áhersla er lögð á að fjalla um útivist og náttúru, sköpun, ferðalög og áfangastaði, áhugamál og afþreyingu. Auk þess eru margvísleg viðtöl tekin við börn og unglinga og ýmsa áhugaverða einstaklinga sem hafa látið drauma sína rætast.

Stefna Ágústu er að tímaritið HVAÐ sé ávallt fjölbreytt og framsýnt og það er von hennar að lestur á tímaritinu ýti undir heilbrigði og heilindi, sjálfstæða hugsun og þátttöku barna og unglinga.

Tímaritið HVAÐ á erindi við flesta og er góður vettvangur til að koma uppbyggilegum skilaboðum til fólks á öllum aldri, þó áhersla sé lögð á efni fyrir 8-18 ára.

Nú eru síðustu forvöð að styrkja þetta frábæra verkefni á Karolina Fund en nánari upplýsingar má finna á:

https://www.karolinafund.com/project/view/2347?fbclid=IwAR0Y0qVitLe46bUCL0I-4AZSdV6qIOmBnJfYmlbgCvKW72Rq4DgEOzjhrx8

 

SHARE